Hreinsun og afhending neðra Nickel-svæðisins í Reykjanesbæ

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 13:42:39 (2376)

2000-11-29 13:42:39# 126. lþ. 34.2 fundur 290. mál: #A hreinsun og afhending neðra Nickel-svæðisins í Reykjanesbæ# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Á stríðsárunum og við komu varnarliðsins á Keflavíkurflugvöll var tekið eignarnámi mikið land á Suðurnesjum undir starfsemi hersins. Þessi landsvæði hafa verið kölluð varnarsvæði. Með minnkandi umsvifum varnarliðsins hefur þó nokkru landi verið skilað til baka og hefur utanrrn. leigt það til sveitarfélaganna. Eitt af þessum svæðum er svokallað neðra Nickel-svæði í Reykjanesbæ. Þetta svæði hefur ekki verið notað af varnarliðinu síðan á 9. áratugnum eða eftir að tankasvæðið var flutt í Helguvík.

Allt frá þessum tíma hefur Njarðvíkurbær og síðan Reykjanesbær sóst eftir þessu svæði undir byggingarland enda í miðju bæjarfélaginu og því mjög verðmætt. Þarna er talið pláss undir 410 íbúðir eða 1.200--1.500 manna byggð og 8 hektarar undir iðnaðar- og verslunarrekstur. Mjög hefur dregist að ganga frá þessu máli af ýmsum ástæðum en fyrst og fremst vegna krafna um hreinsun svæðisins. Í sumar var tilkynnt af utanrrn. að þetta mál væri komið í höfn og bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar sagði frá málinu í fjölmiðlum. Þá var fyrirliggjandi samningur til undirritunar og var hreinsun alls svæðisins talin kosta um 62 millj. kr. og yrði viðráðanlegur innan leiguverðs sem Reykjanesbær mundi taka fyrir leigu á lóðum til þess að hreinsa svæðið. Samkvæmt upplýsingum mínum hafa nýjar kostnaðaráætlanir um hreinsunina stöðvað málið enn eina ferðina og ekkert gerst í því síðan.

Ekki fer á milli mála að það er á verksviði utanrrn. að ganga frá þessu máli. Þá er ekki aðeins átt við samninga heldur einnig kostnað vegna þeirra og þá hugsanlega endurkröfu á varnarliðið. Ljóst er að langvarandi tafir á skilum á þessu landi hamlar mjög allri uppbyggingu á skipulagi í Reykjanesbæ. Sem dæmi um það má taka að Reykjaneshöllin er byggð fast upp að girðingunni umhverfis Nickel-svæðið, einnig íbúðarhús og íbúðargötur enda við girðingarnetið. Til eru dæmi um að hluti lóða séu innan girðingar og afhendist síðar. Þess vegna spyr ég einnig um hvort hægt sé að skila landinu í áföngum. Að áliti skipulagsyfirvalda í Reykjanesbæ losaði það mjög um pressuna ef nyrðri helmingur svæðisins yrði afgreiddur strax. Með því losnuðu 8--9 hektarar þess lands sem ráð var fyrir gert undir íbúðabyggð og það bætti einnig við nokkru landi til iðnaðar og verslunarreksturs sem og nýtingu lands utan núverandi girðingar. Þessi hugmynd er aðeins lögð fram ef hún yrði til að auðvelda lausn málsins.

Herra forseti. Ég ber því upp eftirfarandi spurningar til hæstv. utanrrh.:

1. Er ráðherra kunnugt um áætlaðan kostnað við hreinsun neðra Nickel-svæðisins svo að landið verði byggingarhæft?

2. Hversu mikið fé hefur ráðuneytið fengið frá varnarliðinu eða öðrum til hreinsunar svæðisins?

3. Hefur ráðuneytið veitt Reykjanesbæ eða öðrum fé til hreinsunar svæðisins, og þá hve mikið, eða eru áform um slíkt?

4. Kemur til greina að afhenda Reykjanesbæ svæðið í áföngum?