Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:48:11 (2489)

2000-11-30 16:48:11# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því að ég hafi sýnt hv. þm. einhvern hroka. Hins vegar hóf hann ræðu sína á því að Framsfl. hefði breytt hér öllu. Því fannst mér eðlilegt að spyrja í beinu framhaldi af því hvaða lausnir Framsfl. hefði í ljósi þeirra blikna sem eru að hrannast upp á himninum nú um stundir í efnahagsmálum. Ég spurði hv. þm. vegna þess að formaður fjárln. hefur heldur ekki svarað því hvernig Framsfl. telji best að takast á við þann viðskiptahalla sem nú virðist vera ríkjandi og viðvarandi. Og ég tek undir með hv. þm. að það eru engin augljós svör í þeim efnum.

En hitt er alveg ljóst að menn geta ekki aðeins gortað sig af fortíðinni, hversu mikinn þátt sem þeir í sjálfu sér eiga í því góðæri, því það sem mestu máli skiptir hér á landi er fyrst og fremst verð og annað sem við fáum fyrir útflutningsvörur okkar. Nú er spáin sú að útflutningstekjur okkar muni dragast saman. Það liggur fyrir í þjóðhagsáætlun sem ég held að hv. þm. hafi einnig staðið að og fylgdi frv. til fjárlaga. Þess vegna finnst mér ekkert óeðlilegt að spyrja hv. þm. hvaða svör hann hafi við þeim blikum sem eru á lofti.

Enn fremur nefndi hv. þm. áðan og sennilega hefur hann átt við að einkaneyslan hafi farið úr böndum, m.a. vegna kjara sem fólk getur notið við að afla sér verðmæta með lánsfé. Það er hins vegar staðreynd að vaxtakjör á Íslandi eru þau allra verstu sem nú eru í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Og vaxtamunur á milli Íslands og viðskiptalanda okkar hefur aldrei verið meiri. Það er því dálítið vandmeðfarið að ræða þetta á þessum nótum. Ég held að af orðum hv. þm. megi álykta að hann sé sammála því að a.m.k. tvö síðustu ár hafi góðærið að stórum hluta verið fjármagnað með lánsfé.