Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:49:24 (2621)

2000-12-04 15:49:24# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárln. fyrir þá skýringu sem hann gefur á hækkun á fjárfestingarliðnum á árinu og það er þá einmitt fjárfesting í sendiráðum erlendis, sá milljarður sem gert hefur verið ráð fyrir á fjáraukalögum og hefur verið mælt hér fyrir. Ég hef áður lýst því, herra forseti, að ég tel að þrátt fyrir vilja okkar til að styrkja utanríkisþjónustuna sé í fyrsta lagi óeðlilegt að þetta komi inn á fjáraukalög og í öðru lagi tel ég að þessi liður sé afar óeðlilega hár og fénu hefði mátt verja til annarra betri og brýnni verkefna.

Varðandi stöðu sveitarfélaganna er alveg hárrétt sem hv. formaður fjárln. bendir á að þessi mikla byggðaröskun hefur leitt þar til mismununar í tekjum og líka skuldastöðu sveitarfélaganna. Þau sveitarfélög sem fá íbúana til sín lenda í miklum kostnaðarauka til að búa í haginn en þau fá þá líka nýja gjaldendur. Í framtíðinni eiga þau að öllum líkindum auðveldara með að standa skil á þeim framkvæmdum en hin sveitarfélögin sem missa af íbúum sínum og eiga aftur á móti í verulegum erfiðleikum og munu trauðla sjá fram á hvernig þau geti þá staðið við skuldbindingar sínar. Ég lagði áherslu á það í framsögu minni að það þyrfti að koma til móts við þau sveitarfélög sem búa við tekjumissi, fólksfækkun og miklar ábyrgðir í skuldum og kvaðir til að sinna samfélagsþjónustu sinni. Það hefði fyllilega verið tilefni til þess í fjáraukalögum, svo brýn er sú staða og alvarleg.