Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 16:29:24 (2714)

2000-12-05 16:29:24# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt í pólitík að það séu tiltölulega skýrar línur svo að menn átti sig á því hvað er hvers og hvaða valkostir séu til staðar frá einum tíma til annars.

Í þessu máli eru línurnar ákaflega skýrar. Hér er fyrirliggjandi tillaga ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans sem fær atbeina meiri hluta efh.- og viðskn. til að hækka skatta á almenning í landinu á næstu tveimur árum um tæpa fjóra milljarða kr. á ári hverju þegar þetta verður að fullu komið til framkvæmda. Á móti er gerð tillaga um að lækka fasteignaskatta um 1.100 millj. kr., sem fellur að vísu að stórum hluta á fyrirtæki í viðkomandi sveitarfélögum, og enn fremur að lækka tekjuskatt um 0,33% eða um 1.250 millj. Þegar öllu er haldið til haga þýðir þetta hreina skattahækkun á fólkið í landinu, hið almenna launafólk upp á tvo og hálfan milljarð kr. Það er kjarni málsins.

[16:30]

Valkost gegn þessum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar er að finna hér á þskj. 243 brtt. þingflokks Samfylkingarinnar. Þar er gert ráð fyrir að heildarskattbyrði á almennt launafólk verði ekki aukin heldur verði útsvarshækkunum verði mætt með samsvarandi lækkun á tekjuskatti. Þetta eru hinir skýru valkostir þessa máls. Það ástæðulaust og á sér engin rök að reyna að flækja þessa einföldu mynd.

Herra forseti. Áður en ég ræði þennan þátt málsins öllu meira verð ég að segja að ég hef verulegar áhyggjur af ferðalaginu sem stjórnarmeirihluti landsins og ríkisstjórnin eru á. Það er ekki beint vegna þessa frv. Það þarf ekki koma neinum á óvart að þessir flokkar vilji hækka skatta á almennt launafólk en lækka skatta þeirra sem hafa lifibrauð af fjármagnstekjum. Það er í samræmi við aðra stefnumótun þeirra. En það er hofmóðurinn, hrokinn og vanvirðan sem birtist í umræðunni um þetta mál sem veldur mér áhyggjum. Herra forseti. Þannig að þeir sem á hlusta hafi það á hreinu þá er enginn í þessum sal til að hlýða á mál mitt úr meiri hluta efh.- og viðskn. Það er ekki einn einasti ráðherra hér á ráðherrabekkjum til að fjalla um þessa skattahækkun á almennt launafólk. (Gripið fram í.) Hér situr einn fyrrverandi fulltrúi í efh.- og viðskn. sem fékk ekki frekari stuðning í nefndinni og situr nú á öðrum vettvangi.

Herra forseti. Við erum ekki eingöngu að ræða um það hér að 2,5 milljarðar verði til viðbótar greiddir úr vösum launafólks. Hitt hefur einnig komið fram í umræðunni að Alþýðusamband Íslands, heildarsamtök 70 þúsund launamanna, hafa varað ríkisstjórnina við því að ganga fram með þessum hætti því það muni stefna í hættu meintum stöðugleika, gildandi kjarasamningum sem verða lausir í febrúar á næsta ári. Hofmóðurinn er svo mikill að menn hafa ekki einu sinni nennu til að ræða þau mál í þessum sal.

Væri þetta bara venjubundið nöldur og röfl í stjórnarandstöðunni, að stjórnarandstaðan héldi uppi hefðbundnu stjórnarandstöðuamstri, leiðindum og þófi, þá hefði maður kannski einhvern skilning á því. En það er ekki beinlínis þannig. Þannig er, herra forseti, að í þessu máli er stjórnarandstaðan ekki ein á ferð. Nei, hún hefur Alþýðusamband Íslands, með 70 þúsund félaga að baki sér, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja með sín tugþúsund félagsmanna, Landssamband eldri borgara með tugþúsund félaga og Öryrkjabandalag Íslands sem í einu og öllu taka undir þá brtt. sem stjórnarandstaðan mælir fyrir og þann málflutning sem við höfum haldið uppi.

Þar með er ekki allt upp talið. Hvert eitt og einasta sveitarfélag kringum landið sem hefur upp á punkt og prik tekið undir þennan málflutning. Hér sitja þeir síðan stjórnarliðarnir, herra forseti, þ.e. einn núna en ekki einn einasti ráðherra, hvorki forsrh. né utanrrh. sem skrifuðu 10. mars upp á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga, ekki félmrh. sem einnig stóð að málinu, ekki fjmrh., ekki hinn stóri þingmeirihluti á hinu háa Alþingi, 38 þingmenn ríkisstjórnarinnar. Nei, þeir hafa ekki nennu til þess að eyða orðum í svona umræðu.

Herra forseti. Á miðvikudag, að mig minnir, hélt Alþýðusamband Íslands blaðamannafund. Þar voru nýkjörinn varaforseti þess ásamt hagfræðingi sambandsins og frá þeim fundi var glögglega greint í fjölmiðlum, m.a. Morgunblaðinu í ágætri úttekt á opnu. Þar vöruðu menn við því að kjarasamningum væri stefnt í hættu. Ég hef lúslesið prentmiðla og reyndi að hlusta á ljósvakamiðla á þeim tíma til að athuga hvort einhver viðbrögð kæmu frá hæstv. ríkisstjórn og oddvitum við þessum tíðindum. Nei, ekki eitt aukatekið orð. Þeir létu sem þeir heyrðu þetta ekki.

Ég segi bara eitt, herra forseti: Dramb er falli næst. Ef þetta er ekki merki, herra forseti, um að það líði að lokum hjá þessari ríkisstjórn þá veit ég ekki hvað. Þetta er upphaf endalokanna, þegar stjórnvöld haga sér eins og þau gera við þessa umræðu og hafa gert á umliðnum dögum og vikum við meðhöndlun þessa máls, sýna umræðunni algjört áhugaleysi og reyna ekki með nokkrum vitibornum hætti að leggja nokkuð til umræðunnar með málefnalegum og gildum rökum.

Framan af umræðunni um málið þegar menn ræddu einkum sveitarstjórnarþáttinn verð ég þó að segja að fulltrúar stjórnarliða, þeir sem þó létu sig málið varða og komu úr félmn., höfðu greinilega ákveðið samviskubit vegna málsins. Hjá þeim mátti greina afsökunartón í þessum ræðustól og þeim leið illa yfir því að þurfa að flytja þau skilaboð heim í hérað, heim til sveitarfélaganna vítt og breitt um landið, að sveitarstjórnirnar ættu að sjá um skítverkin, sjá um að hækka skatta á landsmenn samkvæmt forskrift þingmeirihlutans.

Nú eru þeir hins vegar mættir til leiks hinir háu herrar, hv. þm. úr efh.- og viðskn. Hjá þeim er enginn afsökunartónn, hvorki hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, sem mælti hér á einni og hálfri mínútu fyrir þessu máli úr nefndinni. Þaðan af síður er slíkur tónn hjá hv. varaformanni nefndarinnar, Kristni H. Gunnarssyni. Nei, það er sko aldeilis uppi á þeim typpið. Það er aldeilis enginn afsökunartónn í málflutningi þeirra þegar þeir mæla fyrir þessari skattahækkun á almennt launafólk í landinu. Þeir koma hér kokhraustir og tala um að kannski væru stærstu mistökin í málinu að lækka tekjuskattinn á móti auknum heimildum í útsvari. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði hér að það væru kannski stærstu mistökin en þeir hefðu ákveðið að gera það samt fyrir skattgreiðendur af því að um það hefði verið samið og menn hefðu á fyrri stigum málsins verið ásáttir á að slaka út þessum 0,33% í tekjuskatti. Hann færðist síðan allur í aukana og sagði að það væri nú ekki mikið að marka stjórnarandstöðuna, Samfylkinguna sem í einu orðinu talaði um að halda þyrfti fast um ríkisfjármálin og það þyrfti að þétta þar í glufurnar --- sem er að sönnu alveg hárrétt --- en á sama tíma væri Samfylkingin með tillögur um það að samþykkja ekki skattahækkanir.

Herra forseti. Við erum einfaldlega að leggja til að heildarskattlagning opinberra aðila verði ekki aukin. Flóknara er það mál ekki. Öðruvísi mér áður brá þegar það er orðið sérstakt stefnumið Sjálfstfl., í ríkisstjórn og utan hennar, að hallarekstri opinberra aðila verði einfaldlega mætt með því að hækka skatta á almenning. Það voru skilaboð hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Hann rakti það hér í inngangsræðu sinni, sem ég hef hér fyrir framan mig, að vísu í óyfirlesnu handriti. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta, fyrir um tveimur klukkutímum síðan. Ég undirstrika að þetta er óyfirlesið og því án ábyrgðar en efnislega hygg ég að þetta sé kórrétt:

,,Út frá öllum eðlilegum hagstjórnarsjónarmiðum og eðlilegum sjónarmiðum í ríkisrekstri er því eðlilegt að sveitarfélögin skattleggi einfaldlega fyrir þeim útgjöldum sem þau hyggjast standa fyrir. Ríkið ætti ekki að koma sérstaklega til móts við það nema þegar flutt hafa verið verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Að svo miklu leyti sem sveitarfélögin auka heildarútgjöld opinberra aðila væri eðlilegt að standa undir því með hækkun á skatttekjum sveitarfélaganna.``

Það kemur ríkinu nákvæmlega ekkert við þó að við höfum hér heila bók fyrir framan okkur sem ég vænti þó og vonast til að hv. þingmenn úr efh.- og viðskn. hafi gefið sér tíma til að glugga eilítið í, þó að það sé ekki sérstaklega á þeirra vettvangi. Samkvæmt skýrslunni eru flestir sammála um að tekjuþörf sveitarfélaganna, að stórum hluta vegna tekjutilfærslna milli opinberra aðila og einnig vegna verkefnatilflutninga, sé upp á 4--6 milljarða. Þeir kollegar segja að þessu eigi skattgreiðendur að standa skil á, þetta komi ríkinu nákvæmlega ekkert við.

Herra forseti. Nokkrum sinnum hefur mér þótt örla á að mismunandi áherslur væru milli stjórnarflokkanna í hinum ýmsu málum. Í þessu máli slitnar ekki slefan á milli, í þessu máli eru þeir sem eitt. Auðvitað þarf það ekki að koma neinum á óvart eftir þessi tæpu sjö ár í ríkisstjórnarsamstarfi að kjósendur, fólk hér inni og fólk úti á götu sem með þessu fylgist sjái ekki nokkurn mun á þessum íhaldsflokkum tveimur, Sjálfstfl. og Framsfl. Áherslur þeirra fara í einu öllu saman þegar til kastanna kemur.

Sérstaklega þótti mér bratt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, miðað við forsögu hans í íslenskri pólitík, þá staðreynd að hv. þm. sat um langt skeið í sveitarstjórn í heimabæ sínum í Bolungarvík, að hann skyldi koma hér upp hnarreistur og tala um það eins og sjálfsagðan hlut að eðlilegt og sanngjarnt væri að hækka skatta á almennt launafólk á Vestfjörðum, á höfuðborgarsvæðinu og um landið allt, að það væri sjálfsagt hagstjórnartæki.

Herra forseti. Mér verður satt að segja orða vant stundum. Mér finnst hrokinn í þessu máli, drambsemin og hofmóðurinn ganga út yfir allt. Því endurtek ég það hér og það skal vera viðlag mitt í þessari ræðu, að dramb er falli næst. Þetta er upphafið á endalokunum. (KHG: Þið þekkið það í Hafnarfirði.) Herra forseti. Hvað sagði hv. þm.? (KHG: Þið þekkið það í Hafnarfirði.) Já, þar er líka upphafið á endalokunum. Þar sitja þessir sömu flokkar í meiri hluta og fer nú að styttast í þeim valdaferli, þakka skal þeim sem öllu ræður í þeim efnum, þ.e. kjósendum.

Herra forseti. Mig langar samt að reyna til þrautar að ná upp vitiborinni umræðu um þessi mál. Mig langaði að spyrja þá --- ekki spyr maður ráðherrana, virðulegi forseti, því að ekki eru þeir hér --- forustumenn stjórnarflokkanna tvíeina, hv. þm. Vilhjálm Egilsson og Kristin H. Gunnarsson, hvort yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá 10. mars árið 2000 hafi verið einnar nætur, hvort það plagg mætti nýta valkvætt. Við umræðuna hef ég iðulega heyrt að þegar það á við þá benda menn á að á næstunni sé að vænta breytinga á barnabótum, örlítillar hækkunar sem kemur að hluta til móts við allar þær lækkanir sem þar hafa átt sér stað.

[16:45]

En ég vek athygli á að í þessu samkomulagi sem er í fimm liðum, stendur hvergi að eitt atriði komi í annars stað. Eða er það einhver misskilningur hjá mér? Ég vil spyrja hv. þingmenn um það. Fyrsti liðurinn fjallar einfaldlega um að skattleysismörk fylgi launaþróun. Nú er það algerlega óumdeilt að þau gera það ekki eftir þær skattalagabreytingar sem hér á að lögfesta á næstu klukkutímum. Ég spyr því: Er það ekki að þeirra mati, eins og Alþýðusambandið hefur vakið athygli á og fleiri hagsmunasamtök, alveg klárt brot á þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? Ég spyr beint, og úr því hæstv. fjmrh. er hér mættur spyr ég hann hvort um það sé deilt og hvort hæstv. ríkisstjórn hafi eitthvað við þá túlkun að athuga sem hefur verið haldið fram af Alþýðusambandi Íslands og ég tek undir, þ.e. hvort ekki sé um klárt brot á fyrsta lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 10. mars að ræða, ef þetta gengur fram sem horfir, og hvernig ríkisstjórnin ætli þá að bregðast við.

Ég spyr líka: Var einhver misskilningur? Var þessi yfirlýsing þannig að það mátti tína þessi atriði upp úr henni eins og mola úr konfektkassa eftir hentugleika og eftir því sem verða vildi? Var það kannski líka þannig að menn gætu valið eitt í stað annars? Nei, auðvitað var það ekki þannig. Það var auðvitað þannig að almennt launafólk í landinu byggði á öllum þessum fimm atriðum sem um var samið þegar kjarasamningar tókust á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég vil nota ferðina og spyrja hæstv. fjmrh. frekar, þótt hans nafn sé að sönnu ekki undir þessari yfirlýsingu heldur Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, um fimmta lið þessarar yfirlýsingar sem ber yfirskriftina Athugun á tekjuskattskerfinu. Fimmti liður yfirlýsingarinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin mun á næstu mánuðum láta fara fram sérstaka athugun á tekjuskatti einstaklinga og staðgreiðslukerfinu. Þar verður m.a. farið yfir kosti þess og galla að fjölga skattþrepum. Haft verður samráð við samtök launafólks og atvinnurekenda um þetta verkefni.``

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvar þetta verkefni standi sem yfirlýst var að ætti að hefjast upp úr 10. mars. (Gripið fram í.) Og ég vil spyrja hvort svar hæstv. ráðherra liggi kannski í þeim skattalagabreytingum sem hér er að finna? Hvort þetta sé framlag ríkisstjórnarinnar til þessa fimmta ákvæðis um að hækka skatta á almennt launafólk, að auka heimildir í útsvari um 1% og lækka tekjuskatt á móti um þriðjung þeirrar tölu? Er verið að efna þetta fimmta ákvæði með þeim hætti?

Hæstv. ráðherra sagði að búið væri að spyrja þessarar spurningar. Það er búið að spyrja fjölmargra spurninga í þessari umræðu, virðulegi forseti. Það er búið að fara yfir þetta mál, ekki aðeins í dag, heldur á umliðnum dögum fram og til baka.

Og af því hæstv. ráðherra er nú mættur til leiks þá var ég að segja það í minni ræðu áðan að mér fyndist virðingarleysi hæstv. ríkisstjórnar gagnvart samtökum launafólks í landinu, gagnvart þeim hagsmunaaðilum sem láta sig þetta mál varða af eðlilegum orsökum, komið út í algjörar öfgar. Ég læt mér í léttu rúmi liggja þó að hæstv. ríkisstjórn og þingmeirihlutinn ætli að tala niður til okkar í stjórnarandstöðunni. Þeir mega reyna það mín vegna. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. En ég tek það mjög alvarlega þegar hæstv. ríkisstjórn og þingmeirihlutinn lætur ekki svo lítið að virða almenning svars þegar hann með réttu kvartar yfir því að nú sé ekki rétti tíminn til þess að auka álögur á fólk í landinu.

Ég vil líka spyrja sérfræðinga ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum um álit þeirra á minnisblaði hagdeildar Alþýðusambands Íslands frá 27. nóvember, þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er sérstakt áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ákveða auknar skattbyrðar á launafólk nú þegar allar spár um efnahagshorfur benda til þess að mjög fari að draga úr kaupmáttaraukningunni og aðstæður raunar orðnar þannig að tvísýnt er hvort verjast megi kaupmáttarrýrnun.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Að mati hagdeildar ASÍ er það ein af skyldum stjórnvalda að reyna að viðhalda stöðugleika með því að draga úr hagsveiflum í stað þess að ýta undir þær og ýkja enn frekar. Það er einfaldlega röng og skaðleg hagstjórn.``

Er að mati sérfræðinga stjórnarmeirihlutans á hinu háa Alþingi eitthvað í þessum orðum sem gengur á móti sjónarmiðum þeirra? Og ef svo er, hvað er það? Mér þykir þetta ákaflega og afskaplega skynsamlega mælt í alla staði og sumpart fara sjónarmið stjórnar og stjórnarandstöðu hvað varðar þessi einföldu sannindi og einföldu staðreyndir efnahagsmála mjög saman. Ég spyr því beint: Gera meintir sérfræðingar þingmeirihlutans á hinu háa Alþingi athugasemdir við þessa framsetningu? Finnst þeim þvert á móti núna rétti tíminn til að hækka skatta á almennt launafólk til þess að draga úr viðskiptahalla, til þess að draga úr meintri þenslu? Finnst þeim tíminn einmitt réttur núna í niðursveiflu þegar allar tölur sýna fram á að fólk á sjaldan sem fyrr, a.m.k. á síðustu árum, jafnerfitt með að standa skil á skuldbindingum sínum í bönkum og lánastofnunum og fram hefur komið?

Ég minnist þess, herra forseti, að við hv. þm. Vilhjálmur Egilsson áttum tal saman í sjónvarpsþætti einhvern tímann síðla á síðasta vetri þar sem menn voru einmitt að ræða þessa þenslu og verðbólguþróunina. Hann orðaði það þannig að hún væri sjálfslökkvandi því nú kæmi að skuldadögum, nú þyrfti fólk að fara að borga lánin sín og áttaði sig á því að það gæti ekki endalaust fjármagnað neyslu sína með auknum lántökum og þá skynjaði fólk það á beinum sínum að svo mætti ekki fram ganga og það sjálfkrafa mundi draga úr neyslu, það mundi sjálfkrafa draga úr þenslu og verðbólgu. Er það þá undir þessum formerkjum sem hæstv. ríkisstjórn telur rétt og eðlilegt og skynsamlegt að hækka skatta á skuldugt launafólk, til þess að það skynji og finni á beinum sínum að nú verði ekki lengur fram gengið og það verði að herða sultarólina? Að vísu fer það ekki heim og saman við hallelújaræður forsrh. sem segir reglulega að sé allt í stakasta lagi, að góðærið sé jafnmikið og fyrr og því sé ekkert að ljúka. Ég spyr um þetta.

Og ég spyr bara einfaldlega: Er það mat stjórnarmeirihlutans og sérfræðinga að hagdeild Alþýðusambands Íslands hafi rangt fyrir sér? Er það sannfæring stjórnarmeirihlutans á hinu háa Alþingi að það sé hagfræðilega hárrétt, efnahagslega hárrétt, að hækka skatta á launafólk í landinu? Finnst ríkisstjórninni líka skipta sköpum að fjölga í þeim hópi einstaklinga á Íslandi sem yfirleitt borgar tekjuskatt? Þeim fjölgar á næsta ári um tvö þúsund og eitt eða tvö þúsund til viðbótar á árinu 2002. Er það líka alveg sérstakt markmið á Íslandi í dag að fjölga þeim einstaklingum, því láglaunaða fólki sem hefur fram undir þetta verið undir skattleysismörkum og ekki greitt tekjuskatt? Eru það alveg sérstök skilaboð stjórnarmeirihlutans, Framsfl. sérstaklega, til barnafólks, til eldri borgara, til þeirra sem höllum fæti standa?

Herra forseti. Þó að maður sjái sjaldan mun á þeim stjórnarflokkum sem hér hafa stjórnað vill maður annað slagið reyna að trúa því að einhver munur sé á þeim. Þess vegna beini ég þessari spurningu alveg sérstaklega til fulltrúa Framsfl., formanns þingflokks Framsfl., ekki síst vegna þess að hér á árum áður var hann í þessum ræðustóli, undir öðrum formerkjum að vísu, og talaði um félagslegar áherslur. En það var fyrir löngu síðan.

Herra forseti. Ég veit ekki hve miklum tilgangi þjónar að ræða efnislega um þetta mál. Ég hef reynt að gera það. Ég hef í ræðu minni lítið komið inn á sveitarfélögin í þessum efnum. Sú umræða var mjög ítarleg hér í síðustu viku og gaf glögga mynd af stöðu mála vítt og breitt um landið. Þar var það rifjað upp og spurt hvort þingmenn dreifbýlisins í hópi stjórnarliða hafi sérstaklega lofað því fyrir síðustu kosningar, þegar þeir gáfu fyrirheit um að fasteignaskattur yrði lækkaður, að á sama degi yrði útsvarið hækkað talsvert miklum mun meira. Var því sérstaklega lofað á Sauðárkróki, Bolungarvík eða Ísafirði? Var það baráttumál hv. stjórnarþingmanna fyrir síðustu kosningar þegar þeir lofuðu lækkun fasteignaskatts að um leið yrði útsvarið hækkað öllu meira? Ég man ekki sérstaklega eftir því og reyndi þó að fylgjast með gangi mála í fleiri kjördæmum en mínu eigin. En þeir munu sennilega rifja það upp í ræðustól á eftir.

Herra forseti. Pólitíkin í þessu máli er ákaflega skýr. Tvær tillögur eru uppi í málinu, annars vegar sú sem við í þingflokki Samfylkingarinnar höfum mælt fyrir og atkvæði verða greidd um. Auðvitað verður sérstaklega tekið eftir því og við það merkt og frá því sagt, ekki bara í fjölmiðlum daginn eftir, heldur á fundum fram á næsta ár þegar menn fara að ræða stöðu kjaramála, stöðu samninga í febrúar, hvernig þingmenn greiddu atkvæði og undir hvaða formerkjum. Menn munu til að mynda huga að því sérstaklega sem hafa haft tengsl við sveitarstjórnir og sveitarfélög umhverfis landið hvernig þeir muni haga sér. Menn munu líka sérstaklega gaumgæfa þá þingmenn sem koma hér stundum upp og tala með fagurgala um mikilvægi þess að hinir lægstlaunuðu, þeir sem höllum fæti standa, verði sérstaklega verndaðir, þeim verði sérstaklega hjálpað.

Spurningin er einfaldlega þessi: Vilja menn fara leið Samfylkingarinnar og verja almennt launafólk fyrir skattahækkunum eða mun þingheimur samþykkja skattahækkunarleið ríkisstjórnarinnar sem ætlar að leggja 2,5 milljarða á ári hverju á almennt launafólk í þessu landi? Um það snýst málið. Ég held að þetta mál, ég segi það enn og aftur, sýni ákveðin vatnaskil í pólitík þessa kjörtímabils, að við séum senn að upplifa upphafið að endalokum þessarar ríkisstjórnar og því fyrr því betra.