Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:51:20 (2735)

2000-12-05 18:51:20# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera sérstakar athugasemdir við það svar hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að menn breyta lögum eða fella þau niður ef menn fara ekki eftir þeim ár eftir ár eins og í tilviki þeirra tekjustofna sem markaðar voru og ætlaðir fötluðum. Ef það er svo að menn fara ekki eftir slíkum lögum ár eftir ár og koma endalaust inn með breytingar á hverju ári er náttúrlega eðlilegt að breyta þeim lögum og fella þau niður. Það er einmitt það sem var boðað í gær ef ég hef skilið málið rétt.

Varðandi það að ég hafi lítinn skilning á skattahagræði fyrirtækja hér á landi finnst mér að það hafi verið mjög vel upplýst á undanförnum dögum, bæði með spurningum og svörum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið að kynna á Alþingi, að ekkert skortir á skattahagræði fyrir fyrirtæki hér á landi.