Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:53:34 (2784)

2000-12-05 23:53:34# 126. lþ. 40.14 fundur 285. mál: #A staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar# (Þingvallaprestakall) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gat látið það ógert að leiðrétta eitthvað af þessum toga hjá mér því að ég sagði nákvæmlega þetta hér áðan og tók undir það að kirkjuþing hefði í október sl. samþykkt þetta frv. fyrir sitt leyti. Það hefur líka komið fram í fjölmiðlum síðan að kirkjuþing og kirkjunnar menn samþykktu það í ljósi þess að þeir höfðu trú á því að úr þeim málum yrði leyst í góðu samkomulagi við Þingvallanefnd í kjölfarið. Það hefur komið í ljós frá þeim tíma að því miður er það ekki þannig. Í fjölmiðlum hefur því verið lýst yfir af biskupi að honum hafði þótt þessi niðurstaða Þingvallanefndar og þær kveðjur sem þaðan komu heldur nöturlegar. Það var áréttað í Kastljóssþætti, sem þessir aðilar voru saman í, ekki fyrir margt löngu. Margt hefur gerst síðan sem gerir það að verkum að annað er óhjákvæmilegt en að skoða þetta mál upp á nýtt. Mér er skapi næst að halda að afstaða kirkjunnar yrði kannski með eilítið öðrum hætti ef hún hefði tök á því að skoða þetta mál núna eftir það sem gerst hefur á síðustu vikum.

Burt sé frá því finnst mér mest um vert að menn finni á þessu viðunandi lausn. Vel getur verið að hægt sé að finna hana enda þótt þetta frv. nái fram að ganga en þetta snýst ekki eingöngu um fimmtíu sálir sem prestur þarf að huga að í Þingvallasókn heldur er þetta líka snar þáttur í sögulegri hefð staðarins, kirkjan er þarna, gestir og gangandi koma þarna í tugþúsundamæli á hverju sumri, Íslendingar og útlendingar og mér finnst eðlilegt að prestur sé á staðnum. Ég trúi því til að mynda vegna frammíkalls 1. þm. Suðurl. að þeir Sunnlendingar séu ekki síst áhugasamir um það að allt sé með virðulegum blæ á Þingvöllum eins og verið hefur.