Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 13:46:07 (3041)

2000-12-08 13:46:07# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Einar K. Guðfinnsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega eðlilegast að efnisleg umræða um fjárlagafrv. fari fram undir þeim dagskrárlið, í umræðum um fjárlagafrv. Hér er verið að kalla eftir ýmsum upplýsingum sem lúta að fjárlagafrv. Því væri langsamlega eðlilegast að sú umræða færi fram eftir þeim formlegu leiðum sem þingsköpin gera ráð fyrir. Hér á einfaldlega að reyna að draga þessa umræðu á langinn og koma í veg fyrir að hægt sé að fjalla ítarlega um málið undir þeim dagskrárlið sem gert er ráð fyrir. Ég er satt að segja frekar undrandi á þessari umræðu allri saman.

Það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur lagt fram fjárlagafrv. og þær brtt. sem hér eru komnar fram njóta stuðnings ríkisstjórnarflokkanna. Þess vegna er eðlilegast að við höldum umræðunni áfram á þeim forsendum. Hér hefur hæstv. starfandi samgrh. upplýst að það eru ástæður fyrir því að ekki er hægt að leggja fram ítarlega útfærslu á breytingum sem gert er ráð fyrir að verði á vegáætluninni. Hæstv. ráðherra hefur gert alveg fullnægjandi grein fyrir þessu. Það er undarlegt að menn skuli reyna að draga málið á langinn þegar hæstv. ráðherra hefur gefið fullnægjandi skýringar.

Í öðru lagi, varðandi Landssímann, liggur það líka fyrir hvert stefnt er í því máli. Ég hef starfað á Alþingi og staðið að framlagningu fjárlagafrv. þar sem verið hafa hugmyndir um að selja eignir án þess að fyrir hafi legið við afgreiðslu fjárlaga nákvæmlega hvernig menn ætluðu að gera það. Það hefur jafnvel ekki legið fyrir hvaða eignir ætti að selja. (Gripið fram í: Ekki var það Alþfl.?) Mig minnir jafnvel að það hafi verið í samstarfi við Alþfl., virðulegi forseti, eins og hv. þm. rifjar upp. Ég var satt að segja farinn að gleyma nákvæmlega hvaða flokkur var í samstarfi með Sjálfstfl. á þeim tíma. Sennilega er það bara rétt hjá hv. þm. (Gripið fram í: Hvað varð um hann?) að það var á þeim tíma ... (Gripið fram í.) Er ekki hv. þm. nokkuð ánægður með sína stöðu ...

(Forseti (ÍPG): Má ég biðja hv. þingmenn að gefa hljóð í salnum.)

Virðuleg forseti. Er ekki hv. 7. þm. Reykv. býsna ánægður með sína stöðu þrátt fyrir að hann hafi á þeim tíma setið í ríkisstjórn sem hann lagði slíkt fram? Ég sé ekki annað en vegur hv. þm. hafi vaxið innan hans eigin flokks þannig að þetta er auðvitað fráleitt.

Hins vegar er þessu ólíku saman að jafna. Nú liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn hyggst beita sér fyrir því að hluti af eignum ríkisins verði seldar, þ.e. hluti af Símanum. Það liggur líka fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir standa einhuga að málinu og okkur er ekkert að vanbúnaði að halda áfram efnislegri umræðu um fjárlagafrv. Allt annað er tilraun til þess að draga málið á langinn, drepa því á dreif, og það er furðulegt ef þingmenn stjórnarandstöðunnar treysta sér ekki til að fara efnislega í fjárlagaumræðuna. Það segir mikið um þá stöðu sem hv. þm. eru komnir í.