Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 21:46:50 (3092)

2000-12-08 21:46:50# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[21:46]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áður um verðlagsforsendurnar, að hér er um spár að ræða í báðum tilfellum, bæði hjá fjmrn. og Þjóðhagsstofnun, og vitanlega verða þessar spár endurskoðaðar í ljósi verðlagsþróunar á næsta ári.

Varðandi barnabæturnar þá hefur hv. þm. misskilið mig annaðhvort viljandi eða óviljandi. Ég sagði að munur væri á kosningastefnuskrám og stjórnarsáttmála. En hér hefur verið stigið mikilvægt skref í hækkun barnabóta og það er mjög jákvætt. Hér hefur verið stigið skref til þess að koma á ótekjutengdum barnabótum fyrir yngsta aldurshópinn. Ég tel það mjög jákvætt og mjög gott skref í rétta átt í þessum efnum.

Ég hef nú ekki orðið var við að talsmenn Samfylkingarinnar vilji afnema allar tekjutengingar. Þeir hafa a.m.k. lýst því yfir að þeir vilji það ekki. Ég hef heyrt það af þeirra vörum úr þessum ræðustól. Ég tel mikilvægara að taka þetta skref og er mikilvægur þáttur í að framkvæma kosningastefnuskrá okkar í þessum efnum. Við höfum unnið að því af fullum krafi. Ég ber engan kinnroða fyrir framkvæmd okkar að þessu leyti.