Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:16:00 (3115)

2000-12-11 11:16:00# 126. lþ. 45.91 fundur 183#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er eðlilegt að eftir því sé kallað hér hvort það standi til að afgreiða þetta mál núna fyrir jólin, ekki síst eftir það leikrit sem landsmenn urðu vitni að í fjölmiðlum nú um helgina þar sem hæstv. viðskrh. tókst á við stjórn Búnaðarbankans um það hvernig fara ætti í málið, að manni skildist, svo það yrði til lykta leitt með þeim hætti sem hæstv. ráðherra óskaði eftir.

Herra forseti. Ég held að allur þessi málatilbúnaður sýni það best hversu fráleit sú aðferð er sem hæstv. ríkisstjórn kaus í þessu máli. Á það hefur verið bent af hálfu Samfylkingarinnar að hér er um að ræða tvö hlutafélög starfandi á markaði og hluthafar í þessum hlutafélögum eru býsna margir, mun fleiri en ríkissjóður einn. Eigi að síður gengur hæstv. ráðherra fram með þeim hætti að menn gætu helst haldið að einungis væri um einn hluthafa að ræða sem gæti án tillits til annarra ráðskast með allt féð. Svo er ekki, herra forseti, og þeim mun fráleitari er allur þessi málatilbúnaður.

Menn hljóta að velta því fyrir sér sem hér hefur áður verið spurt um og væri æskilegt að kæmi fram hjá hæstv. ráðherra nú þegar hún fær orðið aftur í þessari umræðu: Verður ekkert af sameiningunni ef hún ekki næst nú fyrir jól? Er þetta mál í slíkri tímapressu? Er spilað það tæpt að ef ekki er hægt að þvinga málið fram nú fyrir jólahlé, þá sé allt í uppnámi? Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi fái að vita nánar um hver staða þessara mála er nú.