Fjárlög 2001

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 11:26:14 (3120)

2000-12-11 11:26:14# 126. lþ. 45.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 2001 kemur nú til lokaafgreiðslu og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytja nokkrar brtt. við frv. sem lúta að því að rétta hlut þeirra sem minna mega sín og áherslur í þeim málaflokkum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill sjá skarpari áherslur í í samræmi við sína pólitísku stefnu.

Við höfum gagnrýnt á lokaspretti vinnubrögðin við afgreiðslu fjárlagafrv. að ekki skuli hafa verið gerð ítarlegri grein fyrir því hvernig afla á tekna við sölu eigna og þá sérstaklega við sölu Landssímans og sölu bankanna eins og hér var til umræðu áðan. Það er óásættanlegt að skilja eftir svo opna heimild til sölu á svo mikilvægum þjónustufyrirtækjum og þjónustustofnunum fyrir allan almenning í landinu án þess að gera grein fyrir því hvað tekur við eða hvernig almenningur má vita af því að þjónustan sé trygg. Við óskuðum eftir því að þetta yrði upplýst frekar áður en kæmi til lokaafgreiðslu fjárlaga.

Sömuleiðis, herra forseti, gagnrýnum við það að skattaprósentan skuli vera hækkuð nú án þess að skattleysismörkin hækki jafnframt. Þetta þýðir, herra forseti, að skattbyrði er aukin sérstaklega á því fólki sem lægstar hefur tekjurnar.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu greiða atkvæði með þeim tillögum sem hér eru bornar fram sem lúta að okkar áherslum. Við munum sitja hjá við þær tillögur sem við viljum ekki bregða fæti fyrir og við munum greiða atkvæði gegn þeim tillögum sem eru afar andvígar þeim áherslum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð stendur fyrir.