Fjárlög 2001

Mánudaginn 11. desember 2000, kl. 12:07:19 (3138)

2000-12-11 12:07:19# 126. lþ. 45.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða brtt. sem var kölluð aftur við 2. umr. Hún felur í sér að veittar verði 100 millj. kr. á næsta ári til að hefja framkvæmd langtímaverkefnis sem lýtur að eflingu félagslegs forvarnastarfs. Fjölmargir aðilar, stofnanir og félagasamtök sinna margvíslegum verkefnum sem hafa mikið forvarnagildi og er það tiltölulega óumdeilt að mjög margra mati sem að þessum málum koma að ein allra árangursríkasta og vænlegasta leið til þess að efla forvarnastarf meðal ungs fólks væri sú að styrkja starfsemi slíkra aðila. Má þar t.d. nefna félagsmiðstöðvar sem eru í samstarfi sín í milli um margvísleg verkefni á forvarnasviði og fleiri slíka aðila.

Tillagan gerir ráð fyrir að í þetta verði varið 100 millj. kr. en þyki mönnum það of rausnarlegt þá er til vara tillaga á þskj. 476, 4. tölul., þar sem lagðar eru til í þetta 50 millj. Óska ég eftir að báðar tillögurnar komi til atkvæða, herra forseti, fari svo illa að sú fyrri verði ekki samþykkt.