Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 14:21:56 (3284)

2000-12-13 14:21:56# 126. lþ. 47.16 fundur 320. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi# (skilyrði endurgreiðslu) frv. 177/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Í lok síðasta kjörtímabils 1999 voru samþykkt lög á Alþingi þar heimilaðar voru tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Markmið þeirra laga er fyrst og fremst að laða til Íslands erlend kvikmyndafyrirtæki í því skyni að hér verði teknar upp kvikmyndir eða hlutar kvikmynda þar sem hinir erlendu aðilar geti notfært sér íslenska menningu, íslenska náttúru og ekki síður íslenska leikara og aðra þá sem tengjast gerð kvikmynda, tæknilið og aðra slíka.

Lög þessi fengu afskaplega jákvæð viðbrögð, ekki síst frá íslensku kvikmyndagerðarfólki sem væntir mikils af samstarfi við erlenda starfsfélaga sína. Nú gerist það, herra forseti, að Eftirlitsstofnun EFTA gerir athugasemdir við lögin og telur þau stangast á við ýmsar reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisstyrki. Í raun er frv. viðbrögð stjórnvalda við þeim athugasemdum sem bárust frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Þau atriði sem athugasemdirnar ná fyrst og fremst til og tekið er á í frv. eru fimm eða sex. Hér er einkum um að ræða atriði varðandi menningarlega skírskotun þeirra kvikmynda og sjónvarpsefnis sem endurgreiðsla fæst fyrir samkvæmt ákvæðum laganna, ákvæði um af hversu háu hlutfalli heildarframleiðslukostnaðar endurgreiðsla samkvæmt lögunum skal reiknast og ákvæði um framleiðslu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá er það ekki lengur gert að skilyrði að þeir sem sækja um endurgreiðslu samkvæmt lögunum þurfi að stofna sérstakt félag hér á landi, heldur er nægilegt að viðkomandi hafi útibú eða umboðsskrifstofu skráða í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Þetta eru þau atriði sem Eftirlitsstofnun EFTA gerir athugasemd við og á þeim er skerpt í þessu frv. og verið að taka á þeim vanda sem Eftirlitsstofnunin telur að sé til staðar í gildandi lögum.

Samkvæmt upplýsingum frá gestum nefndarinnar munu þessi atriði fullnægja þeim kröfum sem EFTA gerir varðandi Evrópska efnahagssamninginn.

Að auki er bætt í lögin atriðum sem eru eins konar lagfæring. Kvikmyndasjóði Íslands verður veittur tilnefningarréttur í stjórn sérstakrar nefndar sem annast úrskurð varðandi endurgreiðslurnar. Í lögin kemur ákvæði þar sem kveðið er á um að þeir sem hlotið hafi styrk úr Kvikmyndasjóði séu ekki endilega útilokaðir frá endurgreiðslum samkvæmt lögunum heldur verði sá styrkur sem þeir hugsanlega hafa fengið úr Kvikmyndasjóði dreginn frá framleiðslukostnaði viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis.

Herra forseti. Þetta eru í megindráttum efnisatriði frv. og meiri hluti nefndarinnar mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir það álit rita sá er hér stendur auk hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, Svanfríðar Jónasdóttur, Drífu Hjartardóttur og Árna Ragnars Árnasonar.