Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:23:04 (3386)

2000-12-14 14:23:04# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það verður að virða mér það til vorkunnar að ég botna hvorki upp né niður í nokkrum sköpuðum hrærandi hlut. Hafi það verið merkileg yfirlýsing hjá hæstv. landbrh. áðan um vilja hans í málinu er þessi enn þá merkilegri því að hann veit greinilega ekkert hvað hann ætlar að gera. Þess vegna er mjög nauðsynlegt, herra forseti, að Alþingi geri þessa löggjöf þannig að ekki fari á milli mála hvað ráðherrann á að gera, nefnilega að heimila honum það og gera honum það skylt að umsækjendur njóti jafnræðis þegar kemur að rekstri slíkrar einangrunarstöðvar að uppfylltum öllum skilyrðum. Það er vonlaust mál að setja þetta í hendur hæstv. ráðherra. Það liggur alveg í augum uppi.