Innflutningur dýra

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 10:24:12 (3468)

2000-12-16 10:24:12# 126. lþ. 51.3 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[10:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. segir hvað eftir annað að flytja eigi inn nýja tegund með fósturvísunum og þeim kúm sem fæðast, en sá innflutningur er fyrst og fremst til að Íslendingar geti áttað sig á gæðum hinnar íslensku kýr sem hefur fylgt þeim. Það fer fram öflug samanburðarrannsókn og enginn hefur sagt að íslenska kýrin tapi henni. Borin verða saman grundvallaratriði sem snúa að arðsemi, hæfni og sérstökum gæðum mjólkur o.s.frv. Kýrin er fyrst og fremst flutt inn til þess. Hún er ekki framandi dýr. Þetta er mjólkurkýr og í lok tilraunarinnar verða þessar kýr, sem koma frá Möðruvöllum og Stóra-Ármóti, felldar. Því næst taka íslenskir bændur ákvörðun um hvort framhald verður á ræktun norskra kúa. Það mál bíður síns tíma og ástæðulaust að snúa út úr og flétta það inn í þessa umræðu.

Ég hygg að ef landbrh. vildi flytja inn framandi dýr, snigla eða eitthvað slíkt, þá kæmi umhvrh. að því.