Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj.  7 — 7. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun viðskiptabanns á Írak.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson,


Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Einnig verði mótuð sú stefna að viðskiptahindrunum verði aldrei beitt við þær aðstæður að almenningur, ekki síst börn, líði beinan skort af þeim sökum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er nú flutt í sjötta sinn á Alþingi. Hún hefur aldrei orðið útrædd og reyndar aldrei verið afgreidd frá nefnd. Á 125. löggjafarþingi felldi meiri hluti utanríkismálanefndar tillögu um að þingsályktunartillaga þessi kæmi til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Vilji Alþingis í málinu hefur því aldrei fengið að koma í ljós í atkvæðagreiðslu þrátt fyrir margendurtekinn flutning tillögunnar á þremur kjörtímabilum.
    Viðskiptabannið á Írak hefur nú staðið í heilan áratug. Það var upphaflega sett á landið árið 1990 vegna innrásar Írakshers í nágrannaríkið Kúveit. Í ársbyrjun 1991 voru Írakar reknir út úr Kúveit af herliði undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Viðskiptabannið hefur hins vegar staðið æ síðan og raunar verið hert á refsiaðgerðunum.
    Afleiðingar þessa viðskiptabanns eru skelfilegar svo ekki sé meira sagt. Meira en ein og hálf milljón Íraka hefur látið lífið vegna skorts á nauðþurftum sem rekja má til bannsins. Þetta mannfall er með því mesta sem orðið hefur meðal einnar þjóðar frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Margvíslegar skýrslur og úttektir á ástandinu í Írak hafa birst á síðustu missirum og stöðugt fleiri mannréttindasamtök hafa hvatt til þess að refsiaðgerðirnar verði teknar til endurskoðunar.
    Í skýrslu Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, til 51. fundar allsherjarþings samtakanna kom fram að um 4 milljónir Íraka, að stórum hluta börn undir fimm ára aldri, væru hrjáðar af vannæringu. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í Morgunblaðsgrein eftir framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands 19. mars 1998 var þá áætlað að um 80% þjóðarinnar hefðu litlar sem engar tekjur. Læknisþjónusta og starfsemi sjúkrahúsa er í lágmarki og heilsufari þjóðarinnar hrakar að sama skapi.
    Hinn 21. júní sl. birtist skýrsla um lögfræðileg álitamál varðandi efnahagslegar refsiaðgerðir en hún var unnin á vegum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna (UN Commission on Human Rights). Samkvæmt þeirri skýrslu samrýmist viðskiptabannið á Írak hvorki Mannréttindayfirlýsingu né Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sama gildir um Genfar-sáttmálana frá 1949 og viðauka þeirra frá 1977. Meðal þeirra skilyrða sem skýrsluhöfundur telur að viðskiptabönn verði að uppfylla er að þau bitni á réttum aðilum, hindri ekki dreifingu lífsnauðsynja og geti náð yfirlýstu markmiði sínu.
    Ljóst er af tíu ára reynslu að viðskiptabannið á Írak uppfyllir engan veginn þessi skilyrði. Því er beint gegn einræðisstjórn Saddams Hussein en á henni er ekki að sjá neitt fararsnið nema síður sé. Viðskiptaþvingunum þessum var einnig ætlað að knýja Íraksstjórn til að gefa upplýsingar um framleiðslu gereyðingarvopna og birgðir af slíkum vopnum í landinu. Á því sviði hafa þvinganirnar ekki heldur borið tilætlaðan árangur.
     Það er fyrst og fremst almenningur í landinu sem líður fyrir refsiaðgerðirnar eins og sést á því alvarlega ástandi sem þar ríkir. Samkomulag um takmarkaða olíusölu til kaupa á matvælum og lyfjum breytir litlu um hörmulegar aðstæður alls almennings enda er um mjög takmarkað magn að ræða og verulegur hluti tekna af olíusölunni er gerður upptækur í stríðsskaðabætur. Tveir yfirmenn hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna í Írak hafa sagt af sér þar sem þeir hafa ekki treyst sér til að bera ábyrgð á afleiðingum viðskiptabannsins, fyrst Denis Haliday og síðan eftirmaður hans, Hans von Sponeck, sem sagði ljóst að tekjur Íraka af hinni takmörkuðu olíusölu dygðu alls ekki fyrir nauðþurftum landsmanna. Þá sagði Jutta Burghart, yfirmaður matvæladreifingar Sameinuðu þjóðanna í landinu, einnig af sér af sömu ástæðum.
    Ekki þarf að deila um að stjórn Saddams Hussein ber sína ábyrgð á þeim hörmungum sem dunið hafa yfir írösku þjóðina á undanförnum árum. Það er hins vegar óverjandi að örlög 22 milljóna manna skuli alfarið sett í hendur einræðisstjórnarinnar í Baghdad með þeirri víðtæku einangrun sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ákveðið. Sú ákvörðun var fullgilt á Íslandi með auglýsingu frá utanríkisráðuneytinu. Sú sem nú er í gildi er dagsett 28. apríl 1992. Við Íslendingar berum því ábyrgð á þessu ástandi til jafns við aðra.
    Með tillöguflutningi þessum er ekki verið að taka afstöðu gegn viðskiptaþvingunum enda geta slíkar tímabundnar aðgerðir leitt til árangurs eins og t.d. varð raunin í baráttunni fyrir jafnrétti kynþátta í Suður-Afríku. Hins vegar verður að gera þá grundvallarkröfu til alþjóðlegra refsiaðgerða, bæði efnahagslegra og stjórnmálalegra, að þær samrýmist almennum mannúðarsjónarmiðum og alþjóðlegum sáttmálum í þeim efnum.



Fylgiskjal I.


Auglýsing nr. 160 1992, um ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs


Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) vegna innrásar Íraka í Kúvæt.

(Lögbirtingablaðið, 29. júní 1994.)



    Samkvæmt 3. gr. laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita ákvæðum laganna til að breyta ráðstöfunum sem ákveðnar voru í fyrirmælum, dags. 9. október 1990, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 331/1990, til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) frá 6. ágúst 1990 vegna innrásar Íraka í Kúvæt og setur hér með eftirfarandi fyrirmæli:
     1.      Óheimilt er að flytja til Íslands vörur sem upprunnar eru í Írak og fluttar eru út þaðan eftir 6. ágúst 1990.
     2.      Starfsemi íslenskra ríkisborgara, eða starfsemi sem fer fram á Íslandi, sem ætlað er að stuðla að útflutningi eða umfermingu vara frá Írak, er óheimil. Auk þess eru viðskipti íslenskra ríkisborgara eða viðskipti, sem fara fram á Íslandi, með vörur, sem upprunnar eru í Írak og fluttar eru út þaðan eftir 6. ágúst 1990, óheimil, ásamt notkun íslenskra skipa í slíkum viðskiptum.
     3.      Íslenskum ríkisborgurum er óheimilt að selja eða útvega aðilum í Írak vörur, eða selja eða útvega vörur í þágu fyrirtækis sem rekið er í Írak eða stjórnað er þaðan. Auk þess er óheimilt að selja eða útvega slíkar vörur frá Íslandi eða nota til þess íslensk skip. Starfsemi íslenskra ríkisborgara eða starfsemi, er fer fram á Íslandi, sem ætlað er að stuðla að slíkri sölu eða útvegun, er enn fremur óheimil.
     4.      Íslenskum ríkisborgurum og öðrum aðilum á Íslandi er óheimilt að útvega ríkisstjórn Íraks eða fyrirtækjum í Írak fjármuni eða veita þeim aðra fjárhagslega eða efnahagslega fyrirgreiðslu, eða inna af hendi greiðslur til annarra aðila í Írak.
     5.      Undanþegin ákvæðum 3. tölul. hér að framan eru sjúkragögn og matvæli notuð í mannúðarskyni. Enn fremur eru undanþegnar ákvæðum 4. tölul. hér að framan greiðslur til sjúkrahjálpar, greiðslur í mannúðarskyni og matvæli notuð í mannúðarskyni.
    Hver sá, sem brýtur gegn ofangreindum fyrirmælum, skal sæta viðurlögum skv. 2. gr. laga nr. 5/1969, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Auglýsing þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing nr. 331/1990.

Utanríkisráðuneytið, 28. apríl 1992.



Jón Baldvin Hannibalsson.


Þorsteinn Ingólfsson.





Fylgiskjal II.


Þórdís B. Sigurþórsdóttir:

Ósýnilega stríðið.
(Morgunblaðið, 7. júlí 1999.)


    Fyrir skömmu beindist athygli Vesturlandabúa og annarra þjóða að stríðinu á Balkanskaga. Um svipað leyti voru þó háð mörg önnur stríð i heiminum, þar á meðal í Írak. Í augum margra lauk Persaflóastríðinu árið 1991, þegar Bandaríkjaher hrakti burt her Íraka sem ráðist hafði inn í olíuríkið Kúveit. Með innrásinni í Kúveit gerði Saddam Hussein leiðtogi Íraks sig líklegan til að ná undir sig einu helsta olíusvæði heims. Bandaríkjaher kom þó íbúum Kúveit til aðstoðar og yfirbugaði her Saddams Husseins á fáeinum vikum. Kúveit varð því fljótlega frjálst ríki á ný. Síðan eru liðin 8 ár og lítið hefur verið í fréttum um Írak nema kannski öðru hverju þegar við heyrum að Bandaríkjaher hafi varpað þar sprengjum. Þess má geta að lífsgæði í Írak allt til ársins 1990 voru svipuð og t.d. í Grikklandi. Heilbrigðis- og menntamál í Írak stóðust alþjóðlegan samanburð og voru með því sem best gerðist á Persaflóasvæðinu. En hvernig skyldi lífið og tilveran vera í Írak nú þegar Bandaríkjaher er búinn að kasta þar niður um 90 þúsund tonnum af sprengjum?
    Í dag eru lífsgæðin í Írak sambærileg við þau sem eru í Afríkuríkinu Súdan, einu fátækasta ríki heims. Árið 1990 var sett viðskiptabann á Írak að hluta til vegna þess að Saddam Hussein leyfði ekki vopnaeftirlit í Írak. Viðskiptabannið á Írak hefur vakið óhug margra þar sem áætlað er að 1,5–1,7 milljónir manna hafi látist í kjölfar bannsins, 60% þeirra börn. Í orðsins fyllstu merkingu hrynur fólkið þar niður af hungri, niðurgangi, kóleru og þeim sjúkdómum er þekkjast helst í vanþróuðum löndum. Í Írak er vart að finna hreint drykkjarvatn þar sem sprengjur eyðilögðu allt þjónustukerfi og menguðu vatnsból. Ekki bætir úr skák að svo til engin lyf eru til í landinu. Læknar og annað hjúkrunarfólk stendur lamað gagnvart ófremdarástandinu sem þar ríkir. Varla er að finna hefðbundin verkjalyf til að draga úr þjáningum hinna sjúku og deyjandi. Um 25% af börnum á skólaaldri ganga alls ekki í skóla og um 70% barnshafandi kvenna þjást af blóðleysi. Árið 1996 var komið á verkefni í Írak sem nefnt hefur verið „Olía fyrir mat“ og byggist á því að Írökum er leyft að selja ákveðið magn af olíu til að þeir geti keypt mat og lyf. Verkefnið hefur þó lítið hjálpað og samkvæmt Philippe Heffnick, talsmanni Sameinuðu þjóðanna, hafa peningarnir aðeins dugað fyrir hrísgrjónum, hveiti, sykri og linsubaunum, en ekki lyfjum. (Sameinuðu þjóðirnar hafa eftirlit með að peningunum sé eingöngu eytt í mat og lyf.) En þessu er ekki lokið enn því íbúar Íraks eru einnig fyrstir þjóða til að horfast í augu við afleiðingar svokallaðra „DU“-vopna (depleted uranium, sneytt úran) sem Bandaríkjaher notaði fyrst í Persaflóastríðinu. (Sneytt úran er afgangsefni sem verður til þegar verið er að auðga úran til notkunar í kjarnavopn og kjarnorkuver. Bandaríski herinn notar sneytt úran í sprengjuodda til að sprengjukúlur komist betur í gegnum brynvarnir. Ef sprengjukúla úr sneyddu úrani fer í gegnum stál brennur úranið og sendir eitrað geislavirkt úran-ildi út í andrúmsloftið sem ryk og reyk. Þegar menn anda rykinu að sér og taka það inn í líkamann verður það hættulegt heilsu þeirra og lífi.) Allt að 800 tonnum af þessum geislavirka úrgangi hefur verið dreift yfir Írak. Árið 1994 tóku hvítblæði og fæðingargallar á afar háu stigi að gera vart við sig meðal barna í Írak og skildu læknar hvorki upp né niður í þeim vanskapnaði sem fyrir augu bar. Í fyrstu var fyrirbærið ekki rakið til sneydds úrans þar sem fáir höfðu svo mikið sem hugmynd um að þessi vopn hefðu verið notuð í Persaflóastríðinu. Rannsóknir hafa sýnt að vanskapanir barna í Írak annars vegar og barna bandarískra hermanna sem urðu fyrir úranmengun í Persaflóastríðinu hins vegar eru af sama toga. Dr. Helen Caldicott er ein þeirra Bandaríkjamanna sem helgað hefur líf sitt baráttunni gegn kjarnorkuvopnum og þar með töldum vopnum sem innihalda kjarnorkuúrgang. Hún kallar stríðið í Írak „eins konar kjarnorkustríð“ vegna þess gífurlega magns af geislavirkum kjarnorkuúrgangi sem hefur verið dreift þar. Bandaríkjaher notaði einnig vopn með sneyddu úrani í Bosníu árið 1995 og í Serbíu og Kosovohéraði árið 1999. Ekkert lát er á framleiðslu þessara vopna í Bandaríkjunum og enn eru þar til a.m.k. 500 hundruð þúsund tonn af sneyddu úrani.
    Að lokum er rétt að taka fram að ég er ekki að draga úr ruddaskap einræðisherranna Saddams Husseins og Slobodans Milosevic — en spyrja má hvort þetta sé eina leiðin til að leysa alþjóðadeilur sem þessar og hversu líkleg jafnilla haldin þjóð og Írakar sé til að reyna að steypa leiðtoga sínum af stóli?
    (Byggt m.a. á skýrslum Sameinuðu þjóðanna, dr. Helen Caldicott læknis og annarra sem beita sér gegn notkun þessara vopna og fyrir því að viðskiptabanninu á Írak verði aflétt.)



Fylgiskjal III.


Sigrún Árnadóttir:

Hjálparstarf Rauða krossins í Írak.


(Morgunblaðið, 19. mars 1998.)



    Viðskiptabannið sem sett var á Írak fyrir átta árum hefur haft alvarleg áhrif á líf almennings í landinu. Atvinnuleysi er gríðarlegt og er áætlað að um 80% þjóðarinnar hafi litlar sem engar tekjur. Læknisþjónusta og starfsemi sjúkrahúsa hefur verið í lágmarki og hefur heilsufari þjóðarinnar hrakað að sama skapi. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum er talið að 3,5 milljónir manna séu í hættu.
    Það er Rauða krossinum mikilvægt að halda hlutleysi sínu og sjálfstæði til þess að geta sinnt hlutverki sínu. Þannig er það yfirlýst stefna að taka ekki afstöðu til stjórnmálalegs ágreinings en líta á heildina út frá mannúðarsjónarmiðum. Rauða kross hreyfingin hefur ekki tekið beina afstöðu gegn viðskiptahindrunum en á 26. alþjóðaráðstefnu Rauða krossins með fulltrúum aðildarríkja Genfarsáttmálanna (138 ríki, 165 landsfélög) árið 1995 var samþykkt ályktun þess efnis að ríki þyrftu að vera meðvituð um afleiðingar viðskiptabanns eða hindrana með tilliti til mannúðarsjónarmiða og afleiðinga þeirra á líf almennings. Í ályktuninni var ítrekað að sköpuð yrðu skilyrði til neyðaraðstoðar í löndum þar sem viðskiptabann ríkir og að ríki hefðu ákveðnar fjárhagslegar skyldur í þeim efnum. Jafnframt var í samþykktinni hvatt til þess að metin væru langtíma- og skammtímaáhrif viðskiptabanns og haft eftirlit með afleiðingum þeirra þar sem þeim hefur verið komið á.

Aðstoð Rauða krossins.
    Rauði krossinn hefur starfað í Írak í áraraðir en aðstoðin beinist bæði að Írökum og Kúrdum sem búa í norðanverðu landinu. Hingað til hefur Rauða krossinum ekki verið gert erfitt fyrir að sinna hlutverki sínu í Írak. Nú starfa um þrjátíu sendifulltrúar á vegum Rauða krossins í landinu og um fjögur hundruð heimamenn. Að auki leggur fjöldi sjálfboðaliða fram vinnu sína fyrir íraska Rauða hálfmánann. Á þessu ári er gert ráð fyrir að rúmlega einum milljarði íslenskra króna verði varið til hjálparstarfs Rauða krossins í Írak. Þetta er nokkuð lægri upphæð en árið áður en lækkunin kemur fyrst og fremst til vegna breytinga sem eru fyrirsjáanlegar í kjölfar samkomulags Sameinuðu þjóðanna sem nefnt hefur verið „olía fyrir mat“. Í samkomulaginu felst að á sex mánaða tímabili sé Írökum heimilt að selja olíu fyrir tvo milljarða dollara og er þeim gert að nýta 70% af tekjunum til að aðstoða almenning. Síðastliðið haust gekkst Rauði krossinn fyrir nokkuð ítarlegri athugun á næringarástandi barna í Írak og á þessu ári verður dreift matvælum til um 50 þúsund vannærðra barna. Einnig verður veitt aðstoð til barna- og fæðingarsjúkrahúsa svo að þau geti keypt lyf, hjúkrunarvörur og lækningatæki. Síðast en ekki síst mun Rauði krossinn halda áfram að gera við þær vatnsveitur í landinu sem skemmdust í Persaflóastríðinu.

Íslendingar geta hjálpað.
    Talið er að 10 milljónir jarðsprengna liggi í íraskri jörð sem jafngildir einni sprengju fyrir hverja tvo íbúa landsins. Um 20 þúsund Írakar — varlega áætlað — hafa orðið fyrir limlestingum af völdum þessa voðavopns. Rauði kross Íslands safnar nú styrktarfélögum og munu framlög þeirra á þessu ári renna til aðstoðar fórnarlömbum jarðsprengna, m.a. í Írak. Þar rekur Alþjóða Rauði krossinn gervilimaverkstæði og endurhæfingarstöðvar þar sem fórnarlömb jarðsprengna fá ókeypis aðstoð, t.d. gervilimi, hækjur og hjólastóla. Jafnframt er veitt endurhæfing svo að fólk geti staðið á eigin fótum á ný og tekist á við daglegt líf hjálparlaust. Flestir Íslendingar geta lagt þessu starfi Rauða krossins lið með því að bætast í hóp styrktarfélaga hjálparsjóðs Rauða kross Íslands. Þannig getum við lagt okkar af mörkum til stuðnings þeim Írökum sem mega sín minnst um þessar mundir.