Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 50  —  50. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993, með síðari breytingum.

Flm.: Bryndís Hlöðversdóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Jóhann Ársælsson,
Össur Skarphéðinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir.


1. gr.

    Orðin „60% af greiðslu frá lífeyrissjóði, greiðslur frá sjúkrasjóði“ í 2. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    4. málsl. 4. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Við breytingu á lögum nr. 50/1993 voru til umfjöllunar á Alþingi tillögur um að til frádráttar skaðabótum fyrir tímabundið atvinnutjón kæmu 60% af bótum lífeyrissjóðanna og bætur sjúkrasjóða verkalýðshreyfingarinnar. Jafnframt var gerð tillaga um að 40% af eingreiðsluverðmæti bóta lífeyrissjóðanna kæmu til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku. Tillögur þessar voru byggðar á niðurstöðum lögfræðinganna Gests Jónssonar og Guðmundar Jónssonar en í áliti þeirra segir: „Í frumvarpinu er fylgt þeirri stefnu, sem lengi hefur verið ríkjandi í íslenskum skaðabótarétti, að bætur sem falla tjónþola í skaut frá tryggingum sem hann hefur kostað sjálfur með greiðslu iðgjalds eigi ekki að hafa áhrif á skaðabótakröfu. Hins vegar telja frumvarpshöfundar rétt að til frádráttar komi bótagreiðslur sem telja má að séu af félagslegum toga. Í samræmi við þetta er gerð tillaga um … að 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði verði dregin frá bótum.“ Nokkurrar ónákvæmni gætir í þessum ummælum. Í fyrsta lagi eru bætur lífeyrissjóðanna skilgreindar sem „bætur af félagslegum toga“ sem jafnað verði til bóta almannatrygginga. Í öðru lagi eru iðgjöld til lífeyrissjóðanna skilgreind þannig að einungis 40% af heildariðgjaldinu teljast greidd af launamanni en 60% (40% að teknu tilliti til skatta) teljast framlag þriðja aðila (launagreiðanda). Þessi hugtakasmíð er ekki í samræmi við íslenska dómaframkvæmd og skýringar fræðimanna.
    Fyrir gildistöku skaðabótalaga árið 1993 tók Hæstiréttur Íslands stundum tillit til örorkulífeyris lífeyrissjóðanna þegar bætur voru ákveðnar. Þetta var ekki gert eftir ákveðinni reglu og stundum var ekkert tillit tekið til þessa lífeyrisréttar. Sú skoðun var talin staðfest af fræðimönnum og Hæstarétti að örorkulífeyri lífeyrissjóðanna bæri að jafnaði að meðhöndla eins

Prentað upp.

og tryggingabætur úr vátryggingum sem tjónþoli hefði keypt sér sjálfur. Þetta þýddi að bætur lífeyrissjóðanna skyldu ekki koma til frádráttar skaðabótum. Um þetta segir Arnljótur Björnsson, hæstaréttardómari og lagaprófessor, í bók sinni Kaflar úr skaðabótarétti (Bókaútgáfa Orators, Reykjavík 1990, bls. 367): „Réttur til bóta úr lífeyrissjóði er almennt óháður bótum úr öðrum bótakerfum. Lífeyririnn kemur oft til viðbótar skaðabótum og bætist yfirleitt við aðrar fébætur, sem lífeyrisþeginn kann að eiga rétt á vegna sama tjóns eða sömu aðstæðna.“ Síðar í sama riti segir (bls. 385): „Bætur úr lífeyrissjóði eða hliðstæður lífeyrir kemur almennt ekki til frádráttar skaðabótakröfu. Ef lífeyrisgreiðslur eru verulegar geta þær þó haft áhrif til lækkunar skaðabóta, þegar dómari í skaðabótamáli metur fjártjón vegna missis framfæranda.“
    Árið 1993 tóku gildi ný skaðabótalög sem fólu í sér staðfestingu framangreindra frádráttarreglna. Á árinu 1998 var tekist á um túlkun laganna og þá skýrt kveðið á um frádrátt vegna örorkulífeyris lífeyrissjóðanna og um eðli lífeyrissjóðsiðgjalda launafólks. Hér fer á eftir tilvitnun úr dómi Hæstaréttar frá 7. maí 1998 í máli nr. 281/1997. „Í málinu liggja fyrir reglugerðir fyrir þá lífeyrissjóði og þann sjúkrasjóð sem áfrýjandi naut greiðslna frá á meðan hann var óvinnufær af völdum fyrrnefnds slyss. Af reglugerðum þessum er ótvírætt að réttur áfrýjanda til greiðslna réðst af framlögum í þágu hans til hlutaðeigandi sjóða. Þótt slík framlög hafi að nokkru verið greidd af vinnuveitendum áfrýjanda breytir það ekki því að þau voru hluti af þeim heildarlaunakjörum sem hann naut eftir lögum og kjarasamningum. Svarar þetta því til þess að áfrýjandi hafi unnið rétt til umræddra greiðslna með endurgjaldi úr eigin hendi.“
    Þrátt fyrir framangreinda ályktun Hæstaréttar Íslands um eðli, innihald og meðferð á bótum lífeyrissjóðanna og um meðferð á bótum úr sjóðum verkalýðshreyfingarinnar segir í greinargerð allsherjarnefndar Alþingis með frumvarpi til breytinga á skaðabótalögum fjórum mánuðum síðar: „Ekki er lagt til að bætur skerðist vegna slysatrygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hefur sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds. … er gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris. Lengi hefur verið álitamál hvernig fara beri með örorkulífeyri við uppgjör slysabóta. … Í eðli sínu er örorkulífeyrir samsettur annars vegar sem tryggingabætur sem tjónþoli hefur sjálfur greitt iðgjald af og hins vegar sem tryggingabætur þar sem vinnuveitandi greiðir iðgjaldið samkvæmt lagaskyldu.“
    Ljóst er að Alþingi hefur með þessari breytingu skilgreint upp á nýtt viðkvæm hugtök á sviði vinnuréttar og almennra kjarasamninga og um leið vegið að réttindum launafólks sem hefur um árabil verið skylt að spara í eigin þágu 10% af launum sínum til lífeyrissjóðs síns.
    Jafnframt er rétt að benda á að framlög launafólks til lífeyrissjóðs hafa að hluta verið skattlögð með öðrum launum. Lífeyrir lífeyrissjóðanna hefur síðan verið skattlagður að fullu við töku og komið til skerðingar á greiðslum almannatrygginga. Alþingi hefur margoft fjallað um óréttlætið sem í fyrrgreindri tvísköttun og jaðaráhrifum felst og það var ekki tilgangur þess að auka neikvæð áhrif lög- og skyldubundins lífeyrissparnaðar með breytingum á skaðabótalögum á síðasta þingi.