Ferill 54. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 54  —  54. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, með síðari breytingum, og lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, með síðari breytingum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Lúðvík Bergvinsson,


Ólafur Örn Haraldsson, Kristján L. Möller.



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga.

1. gr.

    3. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Sé hús sem skaðast hefur byggt að nýju eða við það gert skal vátryggingarfjárhæð miðuð við endurstofnverð eignarinnar samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins á hverjum tíma.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands.

2. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr töluliður sem verður 2. tölul., svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. skulu húseignir viðlagatryggðar fyrir sömu fjárhæð og endurstofnverð þeirra nemur samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins á hverjum tíma.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 15. gr., svohljóðandi:

Upplýsingaskylda.


    Viðlagatrygging Íslands skal láta vátryggðum í té allar þær upplýsingar í tengslum við vátryggingaratburð og meðferð og afgreiðslu bótamáls sem hann óskar eftir í samræmi við ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2002.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Öllum eru ofarlega í minni jarðskjálftarnir sem urðu á Suðurlandi 17. og 21. júní á liðnu sumri þar sem fjöldi fólks varð fyrir verulegu eignatjóni.
    Fljótlega eftir að farið var að meta tjónið kom í ljós að verulegur munur er á brunabótamati sambærilegra eigna milli svæða eða sveitarfélaga og jafnvel sambærilegra eigna innan sama svæðis. Bætur vegna náttúruhamfara eins og jarðskjálfta eru greiddar af Viðlagatryggingu Íslands. Við ákvörðun bóta vegna tjóna sem Viðlagatrygging bætir er farið eftir meginreglum vátryggingaréttar, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 83/1993, um Viðlagatryggingu Íslands.
    Gildandi brunabótamat eignar er lögákveðin vátryggingarfjárhæð við upphaf vátryggingarinnar en ekki ákvarðandi varðandi tjónabótafjárhæð. Þannig getur bótafjárhæð verið lægri en brunabótamat, en það er þó alltaf hámark bótafjárhæðar skv. 12. gr. áðurnefndrar reglugerðar um Viðlagatryggingu Íslands.
    Tilkvaddir matsmenn eiga því samkvæmt reglugerð að ákveða verðmæti vátryggðrar eignar með hliðsjón af því hvert var raunverulegt verðmæti hennar þegar tjón varð. Við þetta mat skal samkvæmt upplýsingum frá Viðlagatryggingu Íslands tekið tillit til verðrýrunar vegna aldurs, notkunar, minnkandi notagildis eða annarra ástæðna.
    Við ákvörðun um hvernig staðið skuli að mati er vísað í 37. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, en þar segir í 1. mgr.: „Með undantekningum þeim, sem um getur í 38. og 75. gr., skal verð hlutarins talið nema þeirri upphæð, er þurft hefði til kaupa á hlut þeim, er fórst eða skemmdist, með því verðlagi, er síðast var á slíkum hlut áður en vátryggingaratburðurinn gerðist, að frádreginni hæfilegri verðrýrnun hans vegna aldurs, brúkunar, minnkaðs notagildis og annarra atvika.“
    Í 2. mgr. 37. gr. segir: „Þegar um búsgögn er að ræða eða hluti til persónulegra nota og þess háttar, er verðrýrnun vegna aldurs og brúkunar því aðeins dregin frá verðinu, að telja megi að notagildi hlutanna fyrir vátryggðan hafi minnkað svo verulegu nemi.“
    Þá segir í 3. mgr. 37. gr: „Sé hús, sem skaðast hefur, byggt að nýju eða við það gert, skal aðeins dreginn frá mismunur milli gamals og nýs.“
    Svo virðist af skriflegum svörum sem borist hafa við erindum til Viðlagatryggingar að allar málsgreinar 37. gr. laga um vátryggingarsamninga séu notaðar til hliðsjónar við mat á tjóni á húseign. Brunabótamatið er þó eftir sem áður sá grunnur sem matsmönnum er ætlað að byggja á ásamt settum vinnureglum Viðlagatryggingar Íslands.
    Öllum var ljóst áður en jarðskjálftarnir urðu að mikið ósamræmi ríkti á þessu svæði hvað varðar brunabótamat eigna. Fáir áttuðu sig þó á að til væru sérstakar fyrningarreglur sem nýttar væru í tilvikum sem þessum. Þetta hefur komið mjög illa við þá sem urðu fyrir altjóni í jarðskjálftunum, ásamt því að brunabótamatið reyndist í nokkrum tilvikum óraunhæf viðmiðun.
    Það hlýtur einnig að teljast óeðlilegt að iðgjald sé greitt af brunabótamati sem þegar á reynir er ekki marktæk viðmiðun. Það á eingöngu við ef eignin skemmist af völdum náttúruhamfara og bætur greiðast af Viðlagatryggingu Íslands því sömu reglur eru að því best verður séð ekki notaðar, t.d. ef hús eyðilegst í bruna.
    Þeir sem starfað hafa við að meta tjón einstaklinga og fyrirtækja eftir jarðskjálftana á Suðurlandi hafa unnið gott starf en reglur og lagaákvæði sem þeim er ætlað að starfa eftir verður að endurskoða í ljósi fenginnar reynslu.
    Ljóst er að brunabótamat eigna er ekki grunnur sem hægt er að byggja á við mat á tjóni af völdum náttúruhamfara. Þar er mun eðlilegra að byggja á endurstofnverði eignar samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Þá er einnig ljóst að þær vinnureglur sem settar hafa verið um mat á fyrningum húseigna og byggðar eru á ákvæðum 37. gr. laga um vátryggingarsamninga þurfa endurskoðunar við og eðlilegra væri að tekið væri tillit til aldurs og ástands tryggðra mannvirkja í endurstofnverði þeirra þannig að eigendur viti hver staðan er hverju sinni.
    Frumvarp þetta er flutt til þess að skýra réttarstöðu þeirra sem verða fyrir tjóni af völdum jarðskjálfta eins og þeirra sem urðu í sumar, en einnig tjóna sem kunna að verða af völdum annarra náttúruhamfara eins og við þekkjum frá liðnum árum. Valin var sú leið að flytja í einu frumvarpi breytingu á tvennum lögum þar sem verið er að fjalla um sambærileg ákvæði.
    Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á 3. mgr. 37. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, þar sem tekinn er af allur vafi um við hvað skal miðað þegar bætur fyrir tjón á húseignum eru ákvarðaðar, þ.e. endurstofnverð eignarinnar samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins á hverjum tíma.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, þar sem um er að ræða sambærilegt ákvæði, þ.e. að miðað skuli við endurstofnverð húseigna þegar þær eru viðlagatryggðar. Einnig er lagt til að lögtekið verði ákvæði um upplýsingaskyldu þar sem kveðið er á um að tjónþoli skuli eiga rétt á öllum upplýsingum um meðferð og afgreiðslu eigin bótamáls í samræmi við ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga. Að lokum er lagt til að við lögin verði bætt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lögin skuli endurskoða fyrir 1. janúar árið 2002. Nauðsynlegt er að endurskoðun þessara laga fari nú þegar af stað og að í henni taki þátt t.d. fulltrúar frá þeim sveitarfélögum þar sem tjón hefur orðið verulegt vegna náttúruhamfara.
    Ljóst er af þeirri sáru reynslu sem margir hafa orðið fyrir vegna tjóns af völdum náttúruhamfara að nauðsynlegt er fyrir okkur að búa við trausta löggjöf sem dregur sem mest úr þeim skaða sem einstaklingar, fjölskyldur, fyrirtæki, sveitarfélög og þjóðfélagið allt geta orðið fyrir og umfram allt að reglur séu skýrar og almenningi sé fullljós réttarstaða sín þegar áföll verða.