Ferill 93. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 93  —  93. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um flutning eldfimra efna um jarðgöng.

Flm.: Guðjón Guðmundsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


Guðmundur Hallvarðsson, Drífa Hjartardóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja reglur um flutning á eldfimum efnum (eldsneyti og própangasi) um jarðgöng.
    Í reglunum verði m.a. kveðið á um hvort slíkir flutningar skuli leyfðir og þá með hvaða skilyrðum, þ.e. flutningstækjum, ökuhraða, eftirliti og hvort loka skal göngum fyrir annarri umferð meðan flutningurinn fer fram.

Greinargerð.


    Umferð um jarðgöng hefur margfaldast hérlendis með tilkomu Hvalfjarðarganga sem voru tekin í notkun í júlí 1998, en 1.031.000 bílar fóru um Hvalfjarðargöngin árið 1999 og mesta mánaðarumferð var 145.000 bílar. Þessi mikla umferð hefur vakið marga til umhugsunar um flutning eldfimra efna um göngin á sama tíma og almenn umferð er veruleg. Fram kom í fréttum sjónvarps fyrir nokkrum mánuðum að árlega eru flutt 180 tonn af própangasi frá Straumsvík til Grundartanga um Hvalfjarðargöng. Farið er vikulega og talsmaður gasfélagsins sagði í þessum fréttatíma að farið væri á morgnana og þeir væru búnir með báðar ferðir fyrir hádegi, eins og hann orðaði það. Á morgnana er mikil umferð um göngin og fjöldi manns sem fer þar um daglega til vinnu eða í skóla og fráleitt að leyfa gas- og bensínflutninga um göngin á þessum tíma sólarhrings. Í gildi eru reglur sem lögreglustjórinn í Reykjavík setti 19. júní 1998 um flutning á hættulegum farmi um Hvalfjarðargöng. Þær reglur ganga allt of skammt (sjá fylgiskjal).
    Vinnueftirlit ríkisins hefur bent á þá hættu sem stafar af flutningi hættulegra efna um Hvalfjarðargöng, einkum eldsneytisflutningum og flutningi á própangasi til stóriðjufyrirtækja á Grundartanga. Í bréfi stofnunarinnar til dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 8. maí sl., segir:
    „Ljóst er að verði alvarlegt óhapp við eldsneytisflutning um göngin þannig að eldur komist í farm flutningabifreiðar mun mikil hætta stafa af fyrir alla sem í göngunum kynnu að vera. Flutningur própangass um göngin skapar enn meiri hættu ef slys ber að höndum. Reynsla erlendis sýnir að ef farartæki með slíkan farm lendir í óhappi getur hlotist af sprenging sem veldur gríðarlegu tjóni. Hættan eykst enn frekar ef óhapp á sér stað í lokuðu rými eins og göngin eru. Því ætti að koma til álita að heimila ekki slíkan flutning um göngin, a.m.k. á meðan þau eru opin fyrir annarri umferð.“
    Hvað varðar Hvalfjarðargöng mundi það ekki valda erfiðleikum að fara að þeirri ábendingu Vinnueftirlits ríkisins að heimila ekki flutning hættulegra efna um göngin, a.m.k. á meðan þau eru opin fyrir annarri umferð, þar sem aðrir kostir eru til staðar. Það er ágætur vegur fyrir Hvalfjörð með lítilli umferð og því upplagt að flytja gas og eldsneyti landveginn. Þá má minna á að áður en göngin urðu til fluttu olíufélögin bensín sjóleiðina til Akraness og dreifðu því þaðan um allt Vesturland og jafnvel víðar. Olíufélögin eiga enn aðstöðu til þessarar dreifingar á Akranesi. Þar sem umferð um Hvalfjarðargöng er jafnmikil og raun ber vitni getur það ekki talist góður kostur að loka þeim fyrir annarri umferð og hlýtur því að koma til álita að banna flutning á gasi og eldsneyti um göngin.
    Ljóst er að sömu reglur mundu ekki gilda fyrir öll jarðgöng. Taka þarf m.a. tillit til umferðarþunga og þess hvort aðrar flutningsleiðir eru fyrir hendi.


Fylgiskjal.


Auglýsing um umferð í Reykjavík.
(Nr. 373.)


    Samkvæmt heimild í 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og að fenginni tillögu vegamálastjóra hefur verið ákveðið að gera eftirtaldar takmarkanir á umferð um Hvalfjarðargöng:
     1.      Hámarkshraði verði 70 km/klst.
     2.      Flutningur á hættulegum farmi eins og hann er skilgreindur í 3. gr. reglugerðar nr. 192/ 1998 verði bannaður á eftirgreindum tíma:
                  .      Frá kl. 10.00 á föstudögum til kl. 24.00 á sunnudögum allt árið.
                  .      Frá kl. 10.00 fimmtudaginn fyrir verslunarmannahelgi til kl. 24.00 að kvöldi þriðjudags eftir verslunarmannahelgi.
                  .      Frá kl. 10.00 miðvikudaginn fyrir páska til kl. 24.00 að kvöldi þriðjudags eftir páska.
                  .      Frá kl. 10.00 föstudaginn fyrir hvítasunnu til kl. 24.00 að kvöldi þriðjudags eftir hvítasunnu.
     3.      Akstur dráttarvéla og vinnuvéla verði bannaður á eftirgreindum tíma:
                  .      Frá kl. 10.00 á föstudögum til kl. 24.00 á sunnudögum allt árið.
                  .      Frá kl. 16.00–19.00 mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga, allt árið.
                  .      Frá kl. 10.00 fimmtudaginn fyrir verslunarmannahelgi til kl. 24.00 að kvöldi þriðjudags eftir verslunarmannahelgi.
                  .      Frá kl. 10.00 miðvikudaginn fyrir páska til kl. 24.00 að kvöldi þriðjudags eftir páska.
                  .      Frá kl. 10.00 föstudaginn fyrir hvítasunnu til kl. 24.00 að kvöldi þriðjudags eftir hvítasunnu.
     4.      Bönnuð verði öll umferð gangandi og hjólandi vegfarenda og umferð reiðmanna og rekstur búfjár nema með sérstöku leyfi lögreglustjóra.
    Ákvörðun þessi tekur gildi 11. júlí 1998.

Lögreglustjórinn í Reykjavík, 19. júní 1998.


Georg Kr. Lárusson.