Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 107  —  107. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981, með síðari breytingum, og lögum nr. 61/1994 um Rannsóknarráð Íslands, með síðari breytingum.

Flm.: Páll Magnússon.



Breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Fjárhæð sem svarar til 50% af frádráttarbærum kostnaði (útgjöldum eða afskriftum) í tengslum við rannsókna- eða þróunarverkefni. Það er skilyrði þessa frádráttar að rannsókna- eða þróunarverkefni hafi fyrir fram verið samþykkt af Rannsóknarráði Íslands, sbr. 2. gr. laga nr. 61/1994.

Breytingar á lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Meta hvort rannsókna- og þróunarverkefni sem fyrirtæki hyggst eiga aðild að teljist þess eðlis að þau geti notið sérstaks frádráttar, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Fyrir hvert starfsár ákveður ríkisstjórnin hámarksupphæð til rannsókna- og þróunarverkefna sem má samþykkja.

Gildistaka.
3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001. Ákvæði laganna koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2003 vegna tekna á árinu 2002.

Greinargerð.


    Þekking er undirstaða hins nýja hagkerfis. Til þess að afla þeirrar þekkingar þarf að efla fyrirtæki til aukinnar þátttöku í rannsóknum og þróun, enda er nýsköpun í atvinnulífi forsenda efnahagslegra og félagslegra framfara. Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og lögum um Rannsóknarráð Íslands. Tilgangur frumvarpsins er að hvetja fyrirtæki til nýrrar sóknar á sviði nýsköpunar- og þróunarverkefna. Íslensku atvinnulífi er nauðsynlegt að auka framleiðni en nauðsynleg forsenda þess að framleiðsla verði verðmætari er að fyrirtæki stórauki rannsókna- og þróunarstarf. Með því styrkist staða á heimamarkaði, innflutningur minnkar og útflutningur eykst. Það hefur í för með sér bætta afkomu fyrirtækjanna og hærri laun starfsmanna. Til þess að fyrirtæki treysti sér í slíka vinnu er nauðsynlegt að veita þeim skattalegt hagræði vegna rannsókna og þróunar. Verði frumvarp þetta samþykkt er líklegt að skatttekjur muni aukast þegar horft er til lengri tíma þó þær muni ef til vill dragast saman í byrjun.
    Með frumvarpinu, sem samið er að danskri fyrirmynd, er lagt til að bætt verði við ákvæði 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nýjum tölulið þess efnis að fyrirtækjum verði heimilaður sérstakur frádráttur sem numið geti allt að helmingi kostnaðar sem þau hafa haft af rannsókna- og þróunarstarfi. Til þess að fyrirtækjum verði veitt aðhald verði þó sett það skilyrði að Rannsóknarráð Íslands, RANNÍS, hafi fyrir fram viðurkennt verkefnið sem raunverulegt rannsókna- og þróunarverkefni og að frádrátturinn geti aldrei orðið meiri en helmingurinn af þeirri kostnaðaráætlun sem lá til grundvallar samþykktinni. Ekki er skilyrði að verkefnið hafi notið styrks úr sjóðum RANNÍS. Í tengslum við þessa breytingu á tekju- og eignarskattslögum er lagt til að nýr töluliður bætist við 2. gr. laga um Rannsóknarráð Íslands, þar sem Rannsóknarráði er falið að meta hvort rannsókna- og þróunarverkefni sem fyrirtæki hyggst eiga aðild að teljist þess eðlis að þau geti notið frádráttar skv. 31. gr. tekju- og eignarskattslaganna. Jafnframt segir í ákvæðinu að ríkisstjórnin ákveði á ári hverju hámarksupphæð sem samþykkja megi. Hámark þetta er samanlagður heildarkostnaður við þau verkefni sem samþykkt eru.
    Útgjöld til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa aukist nokkuð á liðnum árum. Það var um 0,8% árið 1987 en fór í um 1,8% árið 1997. Framlag hins opinbera hefur verið stöðugt síðustu ár, en framlag fyrirtækja aukist. Heildarútgjöld til þessara mála námu innan við fjórum milljörðum króna árið 1987, en voru um tíu milljarðar árið 1997. Enda þótt Íslendingar sé meðal þjóða, sem hvað mest hafa aukið útgjöld til rannsókna og þróunar á liðnum árum, er Ísland enn undir meðaltali OECD-landa. Því frumvarpi, sem hér er lagt fram, er ætlað að auka enn hlutfall rannsókna og þróunar af vergri landsframleiðslu Íslendinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
1. gr.

    Lögð er til breyting á lögum um tekju- og eignarskatt sem veiti fyrirtækjum heimild til sérstaks frádráttar af álögðum sköttum sem numið geti allt að helmingi kostnaðar þeirra af rannsókna- og þróunarstarfi.

2. gr.

    Sett er sem skilyrði að Rannsóknarráð Íslands, RANNÍS, hafi fyrir fram viðurkennt verkefnið sem raunverulegt rannsókna- og þróunarverkefni og að frádrátturinn geti aldrei orðið meiri en helmingurinn af þeirri kostnaðaráætlun sem liggur til grundvallar samþykktinni.

3. gr.

    Til að rannsókna- og þróunarkostnaður geti komið til álagningar árið 2003 er nauðsynlegt að fyrir liggi árið 2001 að ríkisstjórn beiti sér fyrir fjárveitingu á árinu 2002. Þannig getur RANNÍS metið verkefni sem unnin væru árið 2002 og kæmu til álagningar árið 2003.