Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 136  —  136. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um jafnt aðgengi og jöfnun kostnaðar við gagnaflutninga.

Flm.: Árni Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til þess að gera tillögur um jafnt aðgengi og jöfnun kostnaðar við gagnaflutninga. Nefndinni verði m.a. falið að kanna flutningsgetu fjarskiptakerfa á landinu öllu, opinberra sem einkarekinna, og gera tillögur um það hvernig ná megi fram jöfnun kostnaðar við gagnaflutninga innan lands. Nefndin hafi í störfum sínum hliðsjón af stefnumörkun er fram kemur í tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum er samþykkt var á 123. löggjafarþingi.

Greinargerð.


    Alþingi samþykkti metnaðarfulla stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 á 123. löggjafarþingi. Þar er m.a. kveðið á um að unnið skuli markvisst að því að auka fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni, menntun á landsbyggðinni verði stórefld og möguleikar upplýsingatækninnar til fjölgunar starfa verði nýttir til hins ýtrasta.
    Tillaga þessi er samin af mikilli framsýni og skilningi á þeim vanda sem við er að etja í byggðamálum. Til þess að markmið hennar nái fram að ganga þarf hins vegar að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni. Eitt af því sem þar skiptir meginmáli eru gagnaflutningar. Bent skal á að nú þegar starfrækja bæði opinberar stofnanir og einkafyrirtæki fjarvinnslustöðvar á landsbyggðinni og nokkur ný mál af því tagi eru í undirbúningi. Sem dæmi um fjarvinnslu á vegum einkaaðila má nefna hátæknifyrirtæki eins og Element hf. á Sauðárkróki, Snerpu ehf. á Ísafirði og starfsstöð Kaupþings hf. á Siglufirði. Þá má nefna starfsstöð Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki sem dæmi um vel heppnaða og hagkvæma fjarvinnslu á vegum hins opinbera. Einnig skal minnt á að þess eru dæmi að íbúar á lögbýlum til sveita hafi framfærslu sína að hluta eða öllu leyti af sérhæfðum fjarvinnslustörfum eins og forritun, þýðingum og hönnun. Ekki þarf að taka fram hversu mikilvægur greiður aðgangur að gagnaflutningsnetum er fyrir það fólk.
    Hér er lagt til að skipuð verði nefnd til þess að kanna flutningsgetu fjarskiptakerfa, bæði í eigu Landssímans hf. og einkarekinna aðila. Hlutverk þeirrar nefndar væri einnig að gera tillögur til samgönguráðherra um það með hvaða hætti væri unnt að jafna til frambúðar kostnað vegna gagnaflutninga á landinu. Hér er um mjög mikilvægt byggðamál að ræða en öruggir gagnaflutningar á samkeppnishæfu verði eru grundvöllur þess að unnt sé að skapa ný störf á landsbyggðinni og viðhalda þeim sem fyrir eru.