Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 148  —  148. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Gísli S. Einarsson, Jóhanna Sigurðardóttir,


Einar Már Sigurðarson.


1. gr.

    Við 91. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hlutafélögum, sem teljast til E-hluta ríkisreiknings og ríkið á að hálfu eða meira, er skylt að veita Alþingi sömu upplýsingar um opinbert málefni og ríkisfyrirtækjum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 122. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt. Var það síðan endurflutt á 125. löggjafarþingi en hefur þó ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu. Það er flutt samhliða frumvarpi til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis, þskj. 147, 147. mál, og er í greinargerð með því að finna skýringar á tilurð þessa máls.
    Allt frá 1874 hafa alþingismenn átt rétt til að beiðast svara um opinber mál og er þessi réttur varinn af 54. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig hafa alþingismenn í gegnum tíðina fengið þær upplýsingar um rekstur ríkisfyrirtækja sem teljast vera opinber málefni. Því er fullkomlega óeðlilegt að með því einu að breyta rekstrarformi ríkisfyrirtækis í hlutafélag sem að meiri hluta er í eigu ríkisins sé girt fyrir stjórnarskrárvarinn rétt alþingismanna til að hafa eftirlit með opinberri stjórnsýslu og fjárreiðum ríkisins.
     Í skýrslu forsætisráðherra á 122. löggjafarþingi um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins, þskj. 25, 25. mál, er komist að þeirri niðurstöðu að ráðherra sé skylt að gefa alþingismönnum upplýsingar um það sem fram kemur í ársreikningi og helgast sú niðurstaða af því að þær upplýsingar teljast opinberar samkvæmt fyrirmælum ársreikningslaganna. Því má draga þá ályktun að aðgangur alþingismanna að upplýsingum um hlutafélög sé ekki meiri en sá réttur sem almenningi er tryggður lögum samkvæmt. Sú niðurstaða er viðunandi þegar um er að ræða hlutafélög sem ekki eru í eigu hins opinbera en að sama skapi óviðunandi þegar um er að ræða hlutafélög sem ríkið á að stærstum hluta. Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að þingmenn hafi sama rétt til upplýsinga um málefni hlutafélaga í meirihlutaeigu ríkisins og ef um væri að ræða ríkisfyrirtæki sem falla undir B-hluta ríkisreiknings. Ekki er nokkur vafi á að sá réttur er rýmri en réttur almennings samkvæmt upplýsingalögum, sbr. nýlegt álit nefndar um „starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu“ um þau efni.