Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 177  —  60. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um tjónagreiðslur vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi í sumar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög urðu fyrir verulegu tjóni á eignum, sem ekki eru tryggingaskyldar, eða öðru verulegu fjárhagstjóni, sem rekja má til jarðskjálftanna á Suðurlandi 17. og 21. júní sl. og ekki fellur undir tryggingakerfið? Átt er við tjón á vörum, rekstrarstöðvun fyrirtækja, tjón á lögnum, vatnsbólum og fráveitukerfum til sveita, vinnutap og ýmislegt fleira.
     2.      Hefur verið reynt að meta umfang tjónsins og hversu háar fjárhæðir er um að ræða?
     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þetta tjón verði bætt og ef svo er, hvernig verður staðið að því?


    Hvað varðar fyrstu tvo liði fyrirspurnarinnar vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram. Upplýsingar um tjón á eignum einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi í júní sl. sem ekki eru vátryggingarskyldar og ekki falla undir tryggingakerfið liggja ekki fyrir í ráðuneytinu. Engin skráning er á vegum ráðuneytisins á þeim tjónum er einstaklingar eða aðrir kunna að verða fyrir og ekki eru vátryggingartæk eða vátryggingarskyld.
    Í von um að upplýsingar kynnu að liggja fyrir hjá þeim aðilum sem nær eru vettvangi en ráðuneytið var leitað til Viðlagatryggingar Íslands og Guðmundar Inga Gunnlaugssonar, sveitarstjóra á Hellu, um upplýsingar vegna fyrirspurnar þessarar. Viðlagatrygging Íslands hefur ekki undir höndum upplýsingar sem varða tjón sem ekki er tryggingaskylt og spurt er um. Þær upplýsingar bárust frá Guðmundi Inga Gunnlaugssyni að sveitarfélögin tíu á meginjarðskjálftasvæðinu virtust flest hafa orðið fyrir mismiklum kostnaði vegna jarðskjálftanna og sum hafi einnig orðið fyrir tjónum sem ekki eru vátryggingartæk. Upplýsingar um slík tjón og kostnað liggi ekki fyrir í dag þar sem enn vanti töluvert á að allt sé fram komið og uppgjör margra mála sé ólokið; atriði er valda kostnaði séu enn að koma fram nánast daglega. Samkvæmt upplýsingum Guðmundar Inga er ljóst að kostnaður sveitarfélaganna muni þegar upp verður staðið nema nokkrum tugum milljóna, en a.m.k. séu enn nokkrar vikur í að allt liggi fyrir.
    Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Inga er vitað til að einstaklingar á jarðskjálftasvæðinu hafi orðið fyrir tjóni sem ekki eru vátryggingartæk, en upphæðir eru enn óljósar. Megi þar einkum nefna afleidd tjón, svo sem vegna vinnutaps og kostnaðar við ferðir til opinberra aðila til að reka erindi tengd niðurrifi, viðgerðum og uppbyggingu húsa. Til sveita hefur samkvæmt sömu upplýsingum orðið tjón á t.d. vatnsbólum, lagnakerfum, afurðum og mörgu fleiru sem líklega verði aldrei upplýst til fulls. Enginn möguleiki sé á þessu stigi að áætla einhverjar fjárhæðir í þessu sambandi, til þess séu upplýsingar of litlar. Enn fremur sé vitað til að fyrirtæki á jarðskjálftasvæðinu hafi orðið fyrir margvíslegu tjóni sem ekki sé vátryggingartækt, svo sem vegna rekstrarstöðvunar, en ekki liggi fyrir upplýsingar um upphæð tjóna.
    Forsætisráðherra setti í kjölfar skjálftanna á stofn nefnd þriggja ráðuneytisstjóra sem skyldu safna saman ýmsum upplýsingum um tjón vegna skjálftanna. Nefndin, sem starfar undir forsæti Ólafs Davíðssonar, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, hefur safnað saman ýmsum gögnum og hafa sveitarfélögin á svæðinu m.a. kvatt fyrirtæki og einstaklinga til að koma upplýsingum um ótryggingartæk tjón til nefndarinnar. Jafnframt hefur Búnaðarsamband Suðurlands gengist fyrir því að bændur taki saman upplýsingar um tjón á býlum sem verði komið til nefndarinnar.
    Hvað varðar þriðja lið fyrirspurnarinnar er rétt að benda á að áhersla hefur verið lögð á það af hálfu stjórnvalda að leyst yrði úr bráðum vanda þeirra sem misstu íbúðarhúsnæði sitt í jarðskjálftunum. Hefur því minni tími unnist til þess að sinna öðrum verkefnum en þeim sem beint hafa tengst tjónum á tryggingarskyldum eignum. Í ljósi þess að litlar sem engar upplýsingar liggja á þessari stundu fyrir um önnur bein tjón, eða afleidd tjón, í kjölfar jarðskjálftanna telur ráðherra ekki tímabært að fullyrða hvort eða hvernig unnt verði að greiða götu þeirra sem urðu fyrir slíkum tjónum. Þó er rétt að benda á að ríkisstjórnin veitti 6 milljónum króna til viðgerða á veitukerfi Sólheima í Grímsnesi.
    Þegar öll kurl verða komin til grafar og tími hefur unnist til þess að leggja heildarmat á virkni viðlagatryggingakerfisins mun ráðherra beita sér fyrir athugun á því hvort unnt sé að breyta kerfinu til hagsbóta fyrir þá sem tryggja hjá Viðlagatryggingu Íslands.