Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 179  —  42. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um rekstur skipasmíðastöðva.

    Ráðuneytið leitaði til Samtaka iðnaðarins um svör við 1.–4. lið fyrirspurnarinnar og enn fremur hjá Hagstofunni við 3. lið. Svör við 5. lið fengust í skjölum ráðuneytisins, hjá fjármálaráðuneyti, hjá starfsmönnum fyrrverandi Iðnlánasjóðs og hjá Byggðastofnun en um svör við 6. lið fyrirspurnarinnar var leitað til Þjóðhagsstofnunar.
    Til að forðast misskilning kaus ráðuneytið að fara að fordæmi iðnaðarins og skilgreina skipasmíðastöð sem skipaiðnað. Í skipaiðnaði fara annars vegar fram nýsmíðar skipa og hins vegar eru skip tekin í slipp til viðgerða og viðhalds. Þessi skilgreining er notuð til að skilja þá sem stunda raunverulega skipasmíði frá almennum vélsmiðjurekstri sem hefur mun víðtækara starfssvið.

     1.      Hve margar skipasmíðastöðvar voru í rekstri á landinu árið 1990?
    Árið 1990 voru átján skipaiðnaðarfyrirtæki starfandi á landinu.

     2.      Hve margar skipasmíðastöðvar eru í rekstri á landinu árið 2000?

    Nú eru alls ellefu skipaiðnaðarfyrirtæki starfandi á landinu.

     3.      Hversu margar hafa hafið rekstur að nýju eftir gjaldþrot eða verið stofnaðar á tímabilinu 1990–2000?
    Samtök iðnaðarins upplýsa að eftir því sem næst verður komist eru sjö þeirra fyrirtækja sem starfandi voru árið 1990 enn í rekstri, þar af hafa tvö sameinast í eitt. Þrjú ný fyrirtæki hafa bæst í þennan hóp og eitt hafið rekstur eftir gjaldþrot. Eitt hinna nýju fyrirtækja yfirtók rekstur annars frá 1990. Níu fyrirtæki sem voru starfandi árið 1990 starfa ekki nú.
    Skýrslur Hagstofu Íslands eru ekki nægilega sundurgreindar til að unnt sé að fylgja skilgreiningu ráðuneytisins á skipaiðnaði. Skipasmíðastöðvar eru skráðar hjá Hagstofu Íslands undir atvinnugreinanúmeri 35.11.0 (ÍSAT 35.11.0): Skipasmíði og skipaviðgerðir. Undir þetta númer flokkast einnig annar skyldur rekstur, svo sem framleiðsla skipshluta, framleiðsla flotkvía, landgöngubrúa, flotgeyma, pramma og viðgerðir á þessum hlutum. Einnig framleiðsla á uppblásanlegum bátum og flekum, skipabreytingar, niðurrif skipa og skipamálun. Samt sem áður gefa tölur Hagstofu Íslands hugmynd um hvernig þróun í málmiðnaði hefur verið. Upplýsingar hennar eru eftirfarandi:

a. Fyrirtæki skráð í árslok í fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands með ÍSAT-númer 35.11.0 frá 1993–2000 (tölur frá því fyrir 1993 eru ekki til á tölvutæku formi hjá Hagstofu Íslands):

1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000
38 46 44 44 46 47 55 54

b. Fyrirtæki skráð með ÍSAT-númer 35.11.0 sem hafa verið úrskurðuð gjaldþrota frá 1993:

1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000
2 6 4 3 1 0 0 2

c. Fyrirtæki skráð árlega með ÍSAT-númer 35.11.0 frá 1993–2000 (tölur frá því fyrir 1993 eru ekki til á tölvutæku formi hjá Hagstofu Íslands):

1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000
5 4 2 2 1 2 8 5

    Athugasemd Hagstofu Íslands:
    Þegar ný fyrirtæki eru skráð þarf ekki að tilkynna hvort um nýjan rekstur sé að ræða eða hvort félagið ætli sér að kaupa eða taka við rekstri annars fyrirtækis sem hefur hætt starfsemi eða orðið gjaldþrota.

     4.      Hvernig er skipting skipasmíðastöðva eftir kjördæmum, miðað við þá kjördæmaskipan sem í gildi var fram í maí á þessu ári?

    Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum iðnaðarins skiptast þau ellefu fyrirtæki sem nú eru starfandi í skipaiðnaði (þ.e. á árinu 2000) þannig eftir kjördæmum:

Reykjavík Reykjanes Vesturland Norðurland eystra Austurland Suðurland
2 3 2 1 2 1

    Hagstofa Íslands upplýsir að 55 fyrirtæki hafi verið starfandi í málmiðnaði árið 1999, þ.e. með ÍSAT-númer 35.11.0. (sbr. hér að framan). Skipting þeirra eftir kjördæmum samkvæmt síðustu Landshögum (1999) var eftirfarandi:

Reykjavík Reykjanes Vesturland Vestfirðir Norðurland eystra Austurland Suðurland
10 26 10 1 3 3 2

     5.      Hvaða styrkir eða niðurgreiðslur hafa verið sl. áratug, til hvaða verkefna og frá hverjum komu styrkir, víkjandi lán eða niðurgreiðslur, t.d. í formi byggingarstyrkja ef um það hefur verið að ræða, sundurliðað eftir árum?
    Stuðningur hins opinbera við skipaiðnaðinn á þessum áratug var fyrst og fremst þrenns konar, þ.e. ríkisstyrkir samkvæmt heimild í 7. tilskipun ESB árin 1994 og 1995, heimild til endurgreiðslu tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða samkvæmt reglugerð nr. 172/1985 og í þriðja lagi tvö verkefni sem rekin voru árin 1994 og 1995 og tengdust nýsköpun í skipa-, málm- og mjöliðnaði. Þessi verkefni beindust að öllum málmiðnaðinum fremur en að skipaiðnaði sérstaklega.

a. Ríkisstyrkir á árunum 1994 og 1995.
    Í janúar 1994 samþykkti ríkisstjórnin tímabundna jöfnunaraðstoð í skipaiðnaði vegna endurbóta- og viðhaldsverkefna á fiskiskipum. Styrkupphæðin var upphaflega 40 millj. kr. en vegna mikillar eftirspurnar ákvað ríkisstjórnin í júní sama ár að hækka fjárhæðina um 20 millj. kr. í 60 millj. kr. Þessi ráðstöfun var í samræmi við svokallaða 7. tilskipun ESB.
    Á árinu 1995 veittu íslensk stjórnvöld 17 millj. kr. til skipaiðnaðarins og var markmiðið sem fyrr að skapa aukið jafnræði í samkeppnisskilyrðum fyrirtækja í skipaiðnaði og endurbótum með hliðsjón af 7. tilskipun ESB vegna erlendra ríkisstyrkja í þeim greinum og stuðla að aukinni atvinnu hér á landi.
    Eftirfarandi fyrirtæki fengu jöfnunaraðstoð á árinu 1994 vegna tilgreindra útgerðarfyrirtækja (upphæðir í kr.):

Umsækjandi Útgerð Samþykktur styrkur
Ósey hf. Enni hf. 1.560.000
Ósey hf. Sigurður Jónsson 1.469.000
Ósey hf. Smári Einarsson 819.000
Landssmiðjan hf. Hrönn hf. 4.732.000
Stálsmiðjan hf. Karelryflot 2.753.057
Stálsmiðjan hf. Vinnslustöðin hf. 1.265.459
Stálsmiðjan hf. Íshaf hf. 5.795.951
Skipalyftan hf. Ufsaberg hf. 10.152.740
Klaki sf. Stálskip hf. 5.005.000
Þorgeir og Ellert hf. Sigurður Kristjónsson 1.307.020
Þorgeir og Ellert hf. Stálskip hf. 1.381.380
Þorgeir og Ellert hf. Eysteinn Yngvarsson 1.547.000
Gjörvi hf. Kögurfell hf. 2.098.448
Gjörvi hf. Njáll hf. 299.780
Slippstöðin Oddi hf. Útgerðarfélag Dalvíkinga hf. 2.131.740
Slippstöðin Oddi hf. Siglfirðingur hf. 5.221.073
Slippstöðin Oddi hf. Icetrawl. Greenland AS. 2.028.281
Marel hf. Hrönn hf. 1.775.813
Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. Miðnes hf. 879.320
Vélsmiðjan Sig. Sveinbjörnsson hf. Fiskiðjan Skagfirðingur hf. 417.621
Daníel Þorsteinsson & co. Aðalbjörg sf. 760.267

    Jöfnunaraðstoð á árinu 1995 var veitt eftirfarandi fyrirtækjum vegna tilgreindra útgerðarfyrirtækja (upphæðir í kr.):

Umsækjandi Útgerð Samþykktur styrkur
Skipalyftan hf. Hafnarsjóður Vestmannaeyja 3.179.250
Þorgeir og Ellert hf. Melur hf. 2.192.867
Þorgeir og Ellert hf. Marel hf. 1.140.280
Þorgeir og Ellert hf. Haraldur Böðvarsson hf. 139.500
Marel hf. Hvalur hf. 1.448.587
Skipasmíðastöðin hf. Norðurtangi hf. 824.929
Kælismiðjan Frost hf. Grandi hf. 623.340
Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. Þorbjörn hf. 2.025.000
Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. D. & W. Skotlandi 1.502.523
Stálsmiðjan hf. Miðnes hf. 1.007.777
Stálsmiðjan hf. Gunnvör hf. 1.255.500
Klaki hf. Magnar Managem. s.a. 315.000
Klaki hf. Ingimundur hf. 404.550
Klaki hf. Miðnes hf. 562.500

b. Endurgreiðsla tolla.
    Um allmargra ára skeið hefur fjármálaráðherra haft heimild í lögum til að endurgreiða að hluta áætlaða tolla vegna skipasmíða. Núgildandi reglur eru frá 1985 (nr. 172/1985) en þær byggjast á eldri reglum sem eiga rót sína að rekja til ársins 1968. Reglurnar frá 1985 voru upphaflega settar með stoð í 28. tölul. 3. gr. tollskrárlaga, nr. 120/1976, en nú er niðurfellingarheimild fjármálaráðherra að finna í 7. tölul. 6. gr. tollalaga, nr. 104/2000.
    Siglingastofnun hefur annast þessar endurgreiðslur. Endurgreiðslufjárhæðir lækkuðu talsvert frá 1992–1996 en Siglingastofnun gat ekki gefið nýrri eða frekari upplýsingar um endurgreiðslurnar innan tilsetts tíma. Endurgreiðslufjárhæðirnar voru sem hér segir í millj. kr.:

1992 1993 1994 1995 1996
39 27 18 14 13

c. Sérstakar aðgerðir til handa skipaiðnaði á árunum 1994 og 1995.
    Á árunum 1994 og 1995 beitti ríkisstjórnin sér fyrir sérstökum stuðningi við skipa- og málmiðnaðinn. Tvö veigamestu verkefnin sem þá var ráðist í báru heitið Skipaiðnaður 94 og Nýsköpun í mjöl- og málmiðnaði.
    Eftirtalin fyrirtæki tóku þátt í verkefninu Skipaiðnaður 94:
        Héðinn hf., Klaki hf., Samstarfshópur í málmiðnaði við Djúp, Skipalyftan hf., Skipasmíðastöðin hf., Skipasmíðastöðin Dröfn hf., Skipavík hf., Slippstöðin Oddi hf., Stálsmiðjan hf., Vélsmiðja Jóns Sigurðssonar, Vélsmiðjan Stál hf. og Þorgeir og Ellert hf.
    Eftirtalin fyrirtæki tóku þátt í verkefninu Nýsköpun í mjöl- og málmiðnaði:
        D.E.B.-þjónustan, Héðinn-Smiðjan hf. (tvö verkefni), Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., Kælismiðjan Frost hf. (tvö verkefni), Vélaverkstæði SR-Mjöls hf., Vélsmiðjan Stál hf. og VJS-Tækni ehf.
    Heildarupphæð styrkja sem rann til þátttökufyrirtækjanna í báðum þessu verkefnum var 10.566.000 kr.

d. Annar stuðningur.
    Ráðuneytið hefur reynt að afla upplýsinga um aðra styrki til skipaiðnaðarins á þessu tímabili og hefur leitað til þeirra sem helst ættu að hafa upplýsingar um málefni skipaiðnaðarins. Byggðastofnun upplýsir að engir styrkir eða víkjandi lán hafi verið veitt af hálfu stofnunarinnar til skipaiðnaðar. Starfsmenn fyrrverandi Iðnlánasjóðs svara á sama veg og er ráðuneytinu ekki kunnugt um að aðrar fjármálastofnanir hafi veitt skipaiðnaðinum fyrirgreiðslur nema með almennri lánafyrirgreiðslu.
    Iðnaðarráðuneytið gekkst fyrir því að árið 1994 var stutt sérstaklega við ráðgjafarvinnu í skipaiðnaði. Í þessu fólst að ráðuneytið tók þátt í kostnaði af ráðgjafarvinnu í skipaiðnaði vegna hagræðingar og endurskipulagningar hjá einstökum fyrirtækjum og innan greinarinnar í heild.
    Auk þess stóðu iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið fyrir því ásamt hagsmunaaðilum í iðnaði og sjávarútvegi að stofnaður var svokallaður samstarfsvettvangur sjávarútvegs og iðnaðar sem enn er starfandi. Þá má einnig nefna að í einstaka tilfellum hefur iðnaðarráðuneytið veitt einstökum fyrirtækjum í skipa- og málmiðnaði aðstoð við tiltekin mál eins og t.d. vöruþróun.

     6.      Hversu mörg ársverk voru við skipasmíði og viðhald skipa á árunum 1990–2000, sundurliðað eftir árum?
    Atvinnuvegaskýrslur Þjóðhagsstofnunar veita margvíslegar upplýsingar um atvinnustarfsemina í landinu. Í atvinnugreinatöflum er að finna skiptingu vinnuafls eftir atvinnugreinum og hafa verið gefnar út tölur fyrir árin 1990–1996 auk þess sem Þjóðhagsstofnun hefur reiknað vinnuaflstölur fyrir 1997. Unnt er að áætla vinnuaflstölur fyrir árin 1998 og 1999 en það er með umtalsverðri óvissu.
    Atvinnugreinaflokkur 38 er fyrir málmsmíði, vélaviðgerðir, skipasmíði og skipaviðgerðir. Undirflokkar eru tveir, annars vegar flokkur 350, fyrir málmsmíði og vélaviðgerðir, og hins vegar flokkur 381, fyrir skipasmíði og skipaviðgerðir.
    Stofnunin hefur reiknað ársverk í þessum flokkum þannig:

1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997
flokkur 38 3.007 2.826 2.672 2.540 2.356 2.513 2.787 3.031
    flokkur 350 2.348 2.196 2.097 1.978 1.974 2.095 2.264 2.474
    flokkur 381 659 630 575 562 382 418 523 557

    Stofnunin hefur góðfúslega gefið eftirfarandi spátölur fyrir ársverk í flokki 38 fyrir árin 1998–2000:

1998 1999 2000
flokkur 38 3.247 3.433 3.651

    Ekki liggur fyrir hvernig þessar tölur skiptast niður á flokka 350 og 381 en benda má á að hlutur skipasmíða og skipaviðgerða hefur verið á bilinu 16–18,8% árin 1994–1997 og árið 1993 var hlutfallið 22%. Miðað við verkefnastöðu síðustu ára er líklegt að hlutur skipaiðnaðarins í flokki 38 hafi ekki aukist.