Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 204  —  194. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 110/1999, um Póst- og fjarskiptastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 11. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Vegna úthlutunar tíðni til starfrækslu þriðja rekstrarleyfishafans á GSM 900 MHz þjónustu skal heimil taka 16.600.000 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Markmið þessarar lagabreytingar er að afla lagaheimildar til gjaldtöku vegna þriðja GSM 900 leyfisins.
    Á farsímamarkaði eru nú tveir aðilar sem starfrækja farsímanet fyrir GSM 900 MHz þjónustu. Hvor þessara aðila greiddi 15 millj. kr. fyrir rásirnar. Sú fjárhæð uppfærð miðað við vísitölu neysluverðs er 16.600.000 kr. á núvirði. Með því að innheimta það gjald af handhafa þriðja GSM 900 leyfisins eru skilmálar þess leyfis sambærilegir þeim sem Landssímanum og Tal voru settir.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur samið útboðslýsingu vegna GSM 900 MHz útboðs sem fylgir frumvarpi þessu. Í I. kafla eru skilgreindar upplýsingar um ákvæði sem leyfið mun innihalda og í III. kafla er skýrt hvaða sjónarmið muni ráða úthlutun. Stofnunin hefur haft til hliðsjónar fyrirmæli fjarskiptalaga um að tryggja skuli eðlilegt samkeppnisumhverfi. Í því sambandi er vakin athygli á 3. gr. II. kafla en þar er gert ráð fyrir því að kröfur um útbreiðslu og þjónustusvæði verði settar í leyfið eins og gert var við útboðið á GSM 900 MHz árið 1996. Með tilkomu ákvæðis um innlenda reikisamninga í lögum nr. 107/1999, um fjarskipti, verður að telja eðlilegt að gera þessa kröfu um útbreiðslu.
    Rétt er að taka fram að ákvörðun um þessa tilhögun á gjaldtöku fyrir þriðja GSM-leyfið er alveg óháð umræðu um þriðju kynslóðar farsíma og verðmæti tíðnirása.

Fylgiskjal I.


Póst- og fjarskiptastofnun:


Upplýsingar um GSM 900 farsímakerfi og þjónustu


í sambandi við auglýsingu um umsóknir um leyfi.


(Útgefnar í ágúst 2000.)




GSM 900 LEYFISVEITING



I. kafli.
UPPLÝSINGAR SEM VEITA SKAL Í UMSÓKNUM
1. gr.
Almennar upplýsingar.

    Umsækjendur skulu skýra frá nafni, heimilisfangi, kennitölu, síma- og faxnúmeri. Ef um er að ræða fyrirtæki skal upplýst um eigendur þess. Fyrir hlutafélög skal fylgja með listi yfir alla hluthafa sem eiga 5% hlut eða hærri. Ef um er að ræða fyrirtæki í eigu annars fyrirtækis skal upplýst um eigendur hins síðara á sama hátt.
    Upplýsa skal hvert sé hlutafé og hversu mikið af því hafi verið greitt.

2. gr.
Starfsemi umsækjanda.

    Umsækjandi skal gera grein fyrir núverandi starfsemi sinni; á hvaða sviði hún er og hvaða þjónusta er veitt ef einhver. Ef umsækjandi stundar nú þegar fjarskiptastarfsemi skal hann lýsa henni í smáatriðum og taka fram hvaða þjónusta er veitt og hverjir séu viðskiptamennirnir. Skipurit fyrirtækis skal fylgja með umsókninni ásamt upplýsingum um hvaða deild eða deildir bera ábyrgð á umsókninni.

3. gr.
Tengsl við önnur fjarskiptafyrirtæki.

    Umsækjanda ber að upplýsa um tengsl sín við önnur fjarskiptafyrirtæki. Upplýsa skal um beina og óbeina eignaraðild í öðrum fjarskiptafyrirtækjum, um sameiginlegan rekstur eða samstarf að öðru leyti.

4. gr.
Reynsla á fjarskiptasviði.

    Hér skal fyrst telja fram reynslu umsækjanda af fjarskiptarekstri áður en núverandi rekstur sem lýsa á skv. 2. gr. kom til sögunnar. Einnig skal telja fram starfsreynslu þeirra sem verða lykilmenn í fyrirhuguðum farsímarekstri umsækjanda.

5. gr.
Fjárhagsstaða umsækjanda.

    Með umsókn skulu fylgja rekstraruppgjör umsækjanda fyrir árið 1999 og efnahagsreikningur pr. 31.12.1999. Umsækjandi skal gera grein fyrir bráðabirgðaniðurstöðum reksturs á fyrri helmingi ársins 2000.

6. gr.
Upphaf þjónustu.

    Umsækjandi skal upplýsa hvenær ráðgert er að hefja uppbyggingu GSM 900 farsímanetsins og þjónustu og hvenær áætlað er að þjónusta við notendur geti hafist.

7. gr.
Umfang þjónustu.

    Gera skal grein fyrir ráðgerðu umfangi þjónustu umsækjanda í farsímakerfinu, að lágmarki að því er varðar eftirfarandi atriði:
     1.      Hvaða tegundir þjónustu verða veittar í farsímakerfinu.
     2.      Landsvæði þar sem þjónusta verður veitt í upphafi og hvaða svæði munu bætast við árlega. Telja skal fram fjölda íbúa á hverju svæði. Lýsa skal stærð svæðis af nokkurri nákvæmni en ekki nefna einungis ákveðna staði. Ef fyrirsjáanlegt er að þjónusta verði ekki fyrir hendi á hluta svæðis skal taka það fram. Athygli er vakin á kröfum um lágmarksþjónustu sem er að finna í 4. gr. II. kafla. Umsækjendur verða að gera grein fyrir því með hvaða hætti lágmarkskröfurnar verða uppfylltar.
     3.      Tilgreina skal hversu góð þjónusta er fyrirhuguð á þjóðvegum landsins. Taka skal fram hvort þjónusta muni ná úti á sjó.
     4.      Ef gert er ráð fyrir tengslum þjónustu við aðra þjónustu umsækjanda eða samstarfsaðila skal þess getið hér.
     5.      Áætlað álag á annatíma á hvern notanda (í Erlang).

8. gr.
Markaðshlutdeild og spá um fjölda notenda.

    Umsækjendur skulu upplýsa um mat sitt á stærð GSM farsímamarkaðarins, þ.e. fjölda notenda og mínútna. Síðan skal gerð grein fyrir markmiðum umsækjenda um markaðshlutdeild og út frá henni áætla fjölda notenda ár fyrir ár fyrstu 10 ár eftir að þjónusta hefst.

9. gr.
Framkvæmdaáætlun.

    Með umsókn skal fylgja ítarleg, tímasett framkvæmdaáætlun um uppbyggingu farsímakerfisins og þjónustu. Áætlunin verður að ná til allra þátta og skal vera sundurliðuð í fjölda skiptistöðva, radíóstöðvar, tengingar milli skiptistöðva og radíóstöðva, reikningakerfi og þjónustuver eftir árum.
    Útlista skal hvernig framkvæmdaáætlunin tengist áætlun um markaðshlutdeild.

10. gr.
Áætluð fjárfesting.

    Krafa er gerð um sundurliðaða fjárfestingaráætlun vegna fyrirhugaðs farsímakerfis og þjónustu. Áætlunin skal vera sundurliðuð í samræmi við framkvæmdaáætlun, sbr. 9. gr. Gefa skal upp fjárfestingartölur skiptistöðva, radíóstöðva og tenginga milli þeirra, fjölda borða í þjónustuveri o.s.frv. svo að hægt verði að gera sér grein fyrir umfangi rekstursins og því verðmati sem lagt er til grundvallar.

11. gr.
Fjármögnun.

    Umsækjendur verða að gera grein fyrir því hvernig starfsemi þeirra á því sviði sem sótt er um leyfi fyrir verði fjármögnuð. Greinargerðin skal ná yfir fjárfestingu skv. 10. gr. Í greinargerðinni skal koma fram hversu miklu af eigin fé verði varið til fjárfestinga og hversu mikið fé verði tekið að láni. Sé gert ráð fyrir hlutafjáraukningu á framkvæmdatímanum skal koma fram hversu mikil hún er áætluð. Umsækjendur skulu tilgreina lánastofnanir sem veita munu fé til starfseminnar og skila yfirlýsingum frá þeim um fyrirheit um lánsfyrirgreiðslu, kjör og endurgreiðslutíma.

12. gr.
Rekstrar- og sjóðstreymisáætlun.

    Með umsókn skal fylgja sundurliðuð rekstrar- og sjóðstreymisáætlun fyrir fyrstu 10 ár þjónustunnar. Áætlunin skal skiptast í beinan reksturskostnað nets og þjónustu, launakostnað, markaðskostnað, afskriftir, fjármagnskostnað og skatta. Skýringar skulu fylgja hverjum lið fyrir sig. Áætlun um tekjur af þjónustu og öðru skulu fylgja með sundurliðaðar eftir tegundum og þjónustu. Út frá sjóðstreymisáætlun skal gera áætlaðan efnahagsreikning fyrir sama tímabil. Uppsetning á rekstrar- og sjóðstreymisáætlunum skal vera í samræmi við eyðublað Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Umsækjendur skulu sérstaklega gera grein fyrir áætlaðri arðsemi farsímaþjónustunnar.

13. gr.
Kerfisbygging.

    Umsækjendur skulu lýsa fyrirhuguðu fyrirkomulagi farsímanetsins. Sýna skal samspil mismunandi hluta netsins, skiptistöðva, radíóstöðva og tengingu milli þeirra. Gera skal grein fyrir því hvort umsækjendur munu leigja hjá öðrum línur til að tengja stöðvarnar eða setja sjálfir upp línur og þá hvers konar línur.

14. gr.
Þörf fyrir tíðnir.

    Takmarkað tíðnisvið er til úthlutunar í GSM 900 MHz tíðnisviðinu. Umsækjendur skulu gera grein fyrir þörf sinni fyrir tíðnir á öllu fyrirhuguðu þjónustusvæði sínu. Miða skal við ráðgerða kerfisbyggingu, sbr. 13. gr., spá um notendafjölda, sbr. 8. gr., og áætlað álag fyrir hvern notanda mælt í Erlang.

15. gr.
Þjónustustig.

    Umsækjendur skulu taka fram hvaða skuldbindingar um þjónustustig hann er tilbúinn að gangast undir á þjónustusvæði sínu, sbr. 7. gr. Sérstaklega skal taka fram eftirfarandi atriði:
     1.      Hámarksfrávísun á háannatíma.
     2.      Útfallstíðni sem kerfið verður hannað fyrir. Með útfallstíðni er átt við líkur þess að símtal slitni vegna breytinga á sviðsstyrk frá radíósendistöð í kerfinu.
     3.      Áreiðanleiki kerfisins, þ.e. hversu mikinn hluta tímans verður farsímakerfið í starfhæfu lagi.

16. gr.
Staða notenda utan þjónustusvæðis.

    Umsækjendur skulu gefa til kynna hvaða þjónusta standi notendum til boða þegar þeir fara út fyrir áætlað þjónustusvæði umsækjanda. Annars vegar hvort gerðir verða reikisamningar við erlenda farsímaþjónustu á sama tíðnisviði og hins vegar hvort umsækjandi muni leita eftir innlendum reikisamningum.

17. gr.
Samtengingar við önnur net.

    Umsækjendur skulu gera grein fyrir fyrirætlunum um að tengja saman notendur sína við notendur annarra fjarskiptaneta með samtengingu.

18. gr.
Mæling á símtölum.

    Hér ber að upplýsa hvernig símtöl verða mæld vegna reikningagerðar, þ.e. hvaða tímaeining verður notuð, hvort tilgreindur verði lágmarkstími í hverju símtali o.s.frv. Einnig skal skýra frá því hver sé nákvæmni fyrirhugaðrar mæliaðferðar.

19. gr.
Reikningagerð.

    Upplýsa skal hvort umsækjendur hyggjast setja upp eigið reikningakerfi eða fá aðgang að kerfum annarra. Ef notað verður eigið kerfi skal gefa stutta lýsingu á möguleikum þess.

20. gr.
Símaskrá og upplýsingar um símanúmer.

    Umsækjendur skulu upplýsa hvernig þeir hyggjast standa að gerð símaskrár yfir notendur í þjónustu þeirra. Sömuleiðis skulu þeir upplýsa hvernig komið verði á upplýsingaþjónustu í síma um símanúmer.

21. gr.
Kostnaðarbókhald.

    Umsækjendur skulu skýra frá því hvernig þeir munu haga kostnaðarbókhaldi sínu sérstaklega með tilliti til þess að geta haldið öllum kostnaði af farsímarekstri sínum aðgreindum frá öðrum kostnaði.




GSM 900 LEYFISVEITING



II. kafli.
KRÖFUR SEM GERÐAR VERÐA TIL LEYFISHAFA.

    Leyfishafa verður gert að standa við loforð um þjónustu og þjónustusvæði sem hann hefur gefið í umsókn sinni og liggja til grundvallar úthlutun. Þessu til viðbótar skulu umsækjendur reikna með að eftirfarandi ákvæði verði sett í leyfið. Póst- og fjarskiptastofnun áskilur sér rétt til að breyta ákvæðunum áður en að leyfisveitingu kemur eða bæta við ákvæðum ef nauðsyn þykir.

1. gr.
Eftirlit með starfsemi leyfishafa.

    Leyfishöfum er gert að sæta eftirliti með starfsemi sinni eins og kveðið er á um í lögum um fjarskipti, nr. 107/1999, og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 110/1999. Skv. 4. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun er rekstrarleyfishöfum gert að sæta eftirliti með fjárhag sínum af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar og stofnunin getur skv. 5. gr. sömu laga krafist upplýsinga um alla þætti reksturs leyfishafa, sem fellur undir sviðið sem leyfið tekur til. Upplýsingar skulu veittar munnlega eða skriflega eins og beðið er um hverju sinni og innan þeirra tímamarka sem Póst- og fjarskiptastofnun setur.
    Sem hluta af eftirliti með fjárhagsstöðu leyfishafa getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist að hann afhendi henni ársreikninga, milliuppgjör, greinargerðir endurskoðenda og aðrar sambærilegar upplýsingar. Ef fjárhagsstaða leyfishafa er slík að honum kunni hugsanlega að vera ókleift að fullnægja ákvæðum leyfisins getur stofnunin krafist umbóta á henni innan tiltekins frests. Póst- og fjarskiptastofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað rekstrarleyfishafa og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum um fjarskipti eða um Póst- og fjarskiptastofnun.
    Bregðist leyfishafi skyldu sinni til að fullnægja ákvæðum leyfisins eða ef ekki er orðið við kröfum Póst- og fjarskiptastofnunar um umbætur getur stofnunin afturkallað leyfið að undangengnum hæfilegum viðvörunarfresti.
    Allar stöðvar leyfishafa verða háðar tæknilegu eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar að því er varðar samtengingu við önnur net og útgeislun.

2. gr.
Takmörkun á eignaraðild.

    Í leyfinu verður kvöð um takmörkun á eignaraðild leyfishafa í öðrum félögum sem fengið hafa og munu fá leyfi til að reka farsímanet og/eða þjónustu. Takmörkunin gildir einnig um óbeina eignaraðild. Leyfishafa verður óheimilt að eiga meira en 10% í öðrum farsímafélögum eða fara með meira en 10% atkvæða.

3. gr.
Bókhaldslegur aðskilnaður.

    Gerð verður krafa um að sá þáttur starfsemi leyfishafa sem leyfið nær yfir skuli vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafa.

4. gr.
Breytingar á ákvæðum leyfis.

    Póst- og fjarskiptastofnun mun áskilja sér rétt til að breyta ákvæðum leyfisins undir ákveðnum kringumstæðum. Nýtt leyfisgjald verður ekki tekið vegna slíkra breytinga. Leyfishafi öðlast ekki rétt til skaðabóta vegna skerðinga sem kunna að verða gerðar á heimildum leyfisins.

5. gr.
Starfsstöð á Íslandi.

    Gerð verður krafa til þess að leyfishafi reki starfsstöð á Íslandi sem stjórnvöld og neytendur geta snúið sér til í sambandi við rekstur farsímanets og farsímaþjónustu.

6. gr.
Skuldbindingar um þjónustusvæði.

    Krafa er gerð um lágmarksþjónustusvæði sem hér segir:
     1.      Innan fjögurra ára frá útgáfu leyfis skal leyfishafi hafa byggt dreifikerfi sem gerir honum kleift að þjóna a.m.k. 80% þjóðarinnar miðað við fastan búsetustað.
     2.      Til þjónustusvæðis leyfishafa verða innan fjögurra ára frá útgáfu leyfis að teljast a.m.k. 15 sveitarfélög utan Reykjavíkur sem hafa 1.000 íbúa eða fleiri. Innan hvers sveitarfélags sem leyfishafi þjónar samkvæmt þessu ákvæði má ekki vera merkjanlegur munur á þjónustugæðum.
     3.      Ekki er gerð krafa um þjónustu á vegum og svæðum milli byggðakjarna en taka skal fram í umsóknum, sbr. 7. gr. I. kafla, að hversu miklu leyti umsækjandi mun þjóna vegum og svæðum umhverfis byggðakjarna. Slík þjónusta verður talin umsækjendum til tekna við mat á umsóknum.

7. gr.
Skráning áskrifenda.

    Leyfishafa verður heimilt að skrá upplýsingar um notendur að því marki sem nauðsynlegt telst til þess að geta veitt þeim þjónustu og reikningsfært viðskipti. Óheimilt er að dreifa upplýsingum um áskrifendur nema til þess að hægt sé að gefa út símaskrár og veita upplýsingar um símanúmer.

8. gr.
Skilmálar notenda.

    Leyfishafa verður gert að senda Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en mánuði fyrir opnun þjónustu skriflega skilmála, sem gilda eiga um aðgang og notkun þjónustu leyfishafa. Í skilmálunum skulu koma fram allar kvaðir, sem rekstrarleyfishafi mun leggja á notendur, reikningstímabil, greiðslufrestur, greiðslustaður (ir), ákvæði um lokun, bilanatilkynningar, hver tekur við almennum kvörtunum og uppsagnarfrestur.
    Skilmálar skulu ekki mismuna notendum og ekki verður heimilt að synja notendum um aðgang, nema hægt sé að sýna fram á að þeir uppfylli ekki setta skilmála.

9. gr.
Gjaldskrá.

    Leyfishafa verður gert að senda Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en mánuði fyrir opnun þjónustugjaldskrá fyrir hina nýju farsímaþjónustu sína. Gjaldskrána skal leyfishafi birta opinberlega áður en þjónusta hefst. Gjaldskrá með áorðnum breytingum skal ávallt vera aðgengileg opinberlega og skal Póst- og fjarskiptastofnun sent eintak af henni áður en hún tekur gildi. Leyfishafi með umtalsverða markaðshlutdeild á farsímamarkaðinum skal ávallt senda Póst- og fjarskiptastofnun endurskoðaða gjaldskrá a.m.k. fjórum dögum áður en hún tekur gildi.

10. gr.
Sundurliðun reikninga.

    Leyfishafa verður skylt að afhenda áskrifendum sem þess óska sundurliðaða símareikninga í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

11. gr.
Úthlutun símanúmera.

    Leyfishafa verður úthlutað númeraröðum í samræmi við reglur Póst- og fjarskiptastofnunar um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga, og skal sjálfur annast úthlutun einstakra númera úr þessum röðum til notenda. Sömuleiðis getur leyfishafi sótt um þjónustunúmer fyrir sérstaka þjónustu, sem hann vill bjóða notendum. Gjald verður innheimt fyrir úthlutuð símanúmer í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og gjaldskrá Póst- og fjarskiptastofnunar.

12. gr.
Upplýsingar um símanúmer.

    Leyfishafi verður skyldaður til að tryggja notendum sínum aðgang að upplýsingaþjónustu um símanúmer allan sólarhringinn og gildir það jafnt fyrir símanúmer hjá notendum hans og annarra. Upplýsingar um símanúmer má þó ekki veita ef áskrifandi hefur óskað þess að vera óskráður.

13. gr.
Tækni og staðlar.

    Allur net- og kerfisbúnaður farsímakerfisins skal vera í fullu samræmi við evrópska staðla um GSM farsíma sem gerðir eru af ETSI, fjarskiptastaðlastofnun Evrópu. Farsímakerfið skal geta þjónað notendum sem hafa farsíma og búnað í samræmi við fyrrnefnda staðla. Um samþykki á GSM 900 farsímum og búnaði gilda almennar reglur Póst- og fjarskiptastofnunar. Leyfishafa verður ekki heimilað að gera kröfur um notendabúnað sem er frábrugðinn stöðlum.

14. gr.
Gæðakröfur.

    Leyfinu munu fylgja kröfur um lágmarksgæði þjónustu, sbr. 15. gr. I. kafla.

15. gr.
Úthlutun tíðna.

    Póst- og fjarskiptastofnun mun úthluta leyfishöfum tíðnisviði í samræmi við rökstuddar þarfir þeirra og með hliðsjón af því tíðnisviði, sem til ráðstöfunar er. Áskilinn er réttur til að afhenda tíðnir til notkunar í áföngum eftir þörfum. Leyfishafar geta síðar sótt um viðbótartíðnir, þegar fjöldi notenda og notkun þeirra réttlætir aukningu með fyrirvara um að tíðnir séu fyrir hendi. Sömuleiðis gerir Póst- og fjarskiptastofnun fyrirvara um að tíðniúthlutun verði dregin til baka að einhverju eða öllu leyti, ef í ljós kemur að þörfin hefur verið ofmetin eða leyfishafi hefur ekki hafið þjónustu innan eins árs frá veitingu leyfis. Athygli er vakin á því að tíðniúthlutun táknar rétt til notkunar en er ekki eign og er bundin nafni leyfishafa og ekki framseljanleg.
    Leyfishafa verður heimilt að nota fyrir radíóstöðvar sínar einstakar tíðnir innan þess tíðnisviðs sem honum hefur verið úthlutað. Þessi notkun er háð undangengnu samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir hverja stöð til þess að hægt sé fyrirfram að gera ráðstafanir til að forðast truflanir frá stöðinni á öðrum stöðvum eða annarri fjarskiptastarfsemi.

16. gr.
Truflanir.

    Leyfishafi verður ábyrgur vegna radíóstöðva í farsímakerfi sínu, sem kunna að valda truflunum og hafa áhrif á rekstur annarra aðila. Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki, sem valda alvarlegum truflunum eða bannað notkun þeirra sbr. 50. gr. laga um fjarskipti, nr. 107/1999. Rekstrarleyfishafi skal bera ábyrgð gagnvart notendum sínum að því er varðar truflanir innan farsímakerfisins.

17. gr.
Neyðarhringingar og fjarskipti.

    Leyfishafa verður gert að flytja í farsímaneti sínu án endurgjalds upphringingar í neyðarnúmerið 112 eða önnur sambærileg númer. Farsímaþjónusta leyfishafa skal geta tekið við neyðarhringingu frá farsíma án tillits til þess hvort áskriftarkort er í farsímanum og án tillits til gjaldstöðu áskrifanda.
    Við sérstakar aðstæður getur Póst- og fjarskiptastofnun eða samgönguráðherra skyldað leyfishafa til að tryggja og viðhalda nauðsynlegum fjarskiptum íslenska ríkinu að kostnaðarlausu.

18. gr.
Leynd fjarskipta.

    Leyfishafi skal tryggja að leyndar sé gætt í fjarskiptum í samræmi við ákvæði laga um fjarskipti, nr. 107/1999. Á hinn bóginn skal leyfishafi stjórnvöldum að kostnaðarlausu koma fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði til að gefa möguleika á löglegri hlerun símtala í farsímakerfinu.

19. gr.
Alþjóðlegar skyldur.

    Leyfishafa verður gert að fullnægja ávallt þeim ákvörðunum sem alþjóðlegar stofnanir um samstarf á sviði fjarskipta hafa gert með sér og bindandi eru fyrir íslenska ríkið. Leyfishafa verður heimilt að eiga aðild að hlutaðeigandi íslenskum sendinefndum hjá alþjóðlegum samtökum og stofnunum að svo miklu leyti sem reglur leyfa á hverjum vettvangi. Slík þátttaka skal vera á eigin kostnað.

20. gr.
Leyfisgjald.

    Fyrir leyfi til að reka farsímanet og þjónustu verður innheimt gjald kr. 80.000 fyrir þjónustuleyfi og kr. 20.000 fyrir netleyfi. Þessu til viðbótar verður innheimt sérstakt leyfisgjald fyrir GSM 900 leyfið sem nemur kr. 16.500.000.
    Fyrir radíóstöðvar sem leyfishafi tekur í notkun verður innheimt leyfisgjald fyrir hverja stöð í samræmi við gjaldskrá Póst- og fjarskiptastofnunar.

21. gr.
Árleg gjöld.

    Leyfishafa verður gert að greiða árleg gjöld til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna þjónustu sinnar í samræmi við lög um stofnunina, nr. 110/1999.
    Starfrækslugjald verður innheimt fyrir einstakar radíóstöðvar og sambönd í samræmi við gjaldskrá Póst- og fjarskiptastofnunar. Starfrækslugjald fyrir radíóstöðvar miðast við hverja talrás í stöðinni.

22. gr.
Framsal, afturköllun, brot og gildistími.

    Leyfi fyrir GSM 900 verður ekki framseljanlegt frekar en önnur leyfi. Póst- og fjarskiptastofnun getur afturkallað leyfi, ef leyfishafi stendur ekki í skilum með greiðslur gagnvart stofnuninni, er veitt greiðslustöðvun eða verður gjaldþrota. Ef um alvarleg brot á skilmálum leyfisins er að ræða getur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað það eftir hæfilega viðvörun til leyfishafa um úrbætur. Að öðru leyti getur Póst- og fjarskiptastofnun við brot á skilmálum leyfisins sektað leyfishafa í samræmi við gildandi löggjöf.
    Hámarksgildistími leyfa fyrir GSM 900 verður 10 ár. Heimilt er að sækja um endurnýjun leyfisins til 5 ára í senn og skal framlengja leyfið, ef rekstur leyfishafa hefur verið án vandræða að dómi Póst- og fjarskiptastofnunar og framlenging samræmist almannahag enda komi ákvæði laga ekki í veg fyrir slíka endurnýjun.
    Hafi leyfishafi ekki hafið starfsemi sína innan 15 mánuða frá dagsetningu leyfis skal leyfið ógildast. Verði farsímaþjónusta samkvæmt þessu leyfi lögð niður lengur en í 6 mánuði samfellt fellur rekstrarleyfið ásamt tíðniúthlutun niður.

23. gr.
Dómþing.

    Í sambandi við leyfisveitingu skal dómþing vera í Reykjavík.


GSM 900 LEYFISVEITING

III. kafli.
MAT UMSÓKNA FYRIR GSM 900 LEYFI

    Skilyrði þess að umsóknir verði teknar til greina er í fyrsta lagi að fullnægjandi upplýsingar séu veittar í samræmi við I. kafla. Í öðru lagi skal fjárhagsstaða umsækjanda og fyrirhuguð fjármögnun GSM 900 netsins og þjónustunnar vera fullnægjandi að dómi Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Við val á leyfishafa úr hópi umsækjenda munu eftirfarandi atriði ráða úthlutun.
     1.      Hvort lágmarkskröfum um útbreiðslu þjónustu verði mætt.
     2.      Þjónustusvæði umfram lágmark sem umsækjandi hyggst þjóna.
     3.      Áætlanir um framtíðarstækkanir þjónustusvæðis.
     4.      Markmið um fjölda notenda og hlutdeild í GSM 900 markaði.
     5.      Góð nýting tíðnisviðs.
     6.      Þjónustustig.
     7.      Fjárfestingarmöguleikar umsækjenda.
     8.      Fjárhagsleg staða umsækjenda.
     9.      Reynsla umsækjenda á fjarskiptasviði.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 110/1999,
um Póst- og fjarskiptastofnun.

    Tilgangur frumvarpsins er að afla lagaheimildar til gjaldtöku vegna þriðja GSM 900 rekstrarleyfisins. Á farsímamarkaði eru nú tveir aðilar sem starfrækja farsímanet fyrir GSM 900 MHz þjónustu. Gert er ráð fyrir að veita þriðja aðilanum tíðni til starfrækslu á farsímaneti. Einnig er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafinn greiði 16 m.kr. fyrir leyfið sem renni í ríkissjóð sem skatttekjur, sbr. lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.