Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 219  —  151. mál.




Svar



iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Stefaníu Óskarsdóttur um frumkvöðlafræðslu á landsbyggðinni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa stjórnvöld staðið fyrir frumkvöðlafræðslu fyrir fólk á landsbyggðinni? Ef svo er, hvernig hefur verið staðið að henni? Ef svo er ekki, hyggjast stjórnvöld beita sér fyrir henni?

    Stjórnvöld hafa með ýmsum hætti beitt sér fyrir frumkvöðlafræðslu á landsbyggðinni á undanförnum árum. Á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis hefur frumkvöðlafræðsla einkum verið á vegum þriggja stofnana þess, þ.e. Iðntæknistofnunar, Byggðastofnunar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sem starfar samkvæmt lögum er heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Mörg verkefnanna hafa verið samstarfsverkefni á milli þessara aðila eða með öðrum aðilum sem vinna að nýsköpun í atvinnulífinu. Hér á eftir er gerð grein fyrir verkefnum er snerta frumkvöðlafræðslu fyrir fólk á landsbyggðinni og hafa verið unnin á vegum framangreindra aðila.
    Frumkvöðlafræðsla er svo yfirgripsmikið hugtak að erfitt getur verið að greina hana sérstaklega frá öðrum stuðningsaðgerðum fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Hér er frumkvöðlafræðsla miðuð við frumstig nýsköpunar, þ.e. fræðslu um stofnun og rekstur fyrirtækja, gerð viðskiptaáætlana og og ýmiss konar endurbætur í rekstri smáfyrirtækja.

I. Verkefni á vegum Iðntæknistofnunar.
    Veigamesta frumkvöðlafræðslan, og sú sem lengst hefur verið starfrækt, er á vegum Iðntæknistofnunar. Hún er í meginatriðum tvenns konar:
    Annars vegar er starfrækt sérstök þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og smærri fyrirtæki sem ber nafnið Impra. Impra rekur bæði fræðsluverkefni og stuðningsverkefni fyrir frumkvöðla. Í sumum þeirra fer saman fjárhagslegur stuðningur og þekkingarveita til þeirra sem njóta stuðnings.
    Hins vegar er á Iðntæknistofnun starfrækt fræðslu- og ráðgjafadeild sem einkum beinir kröftum sínum að frumkvöðlum með fræðslu og ráðgjöf sem ekki er unnt að sækja annað.
    Iðntæknistofnun starfar að fjölmörgum verkefnum sem nýtast frumkvöðlum og fyrirtækjum um allt land án þess að þau séu sérstaklega ætluð landsbyggðinni umfram aðra. Starfsemi Impru var sett á fót í þeim tilgangi að sinna á einum stað þörfum frumkvöðla og sprotafyrirtækja og þjónustar Impra allar atvinnugreinar í landinu. Þangað geta allir leitað með fyrirspurnir er tengjast stofnun og rekstri fyrirtækja. Hjá Impru eru veittar upplýsingar um gerð viðskiptaáætlana og aðstoðað við undirbúning að stofnun fyrirtækja, veitt leiðsögn um rekstur þeirra og hjálp við að komast í erlend viðskiptasambönd. Impra fer með fyrirtækjum á fundi erlendis þar sem unnt er að komast í tengsl við mögulega viðskiptavini og samstarfsaðila. Impra aðstoðar fyrirtæki og einstaklinga við að afla nýrrar tækniþekkingar frá útlöndum, einkum í tengslum við evrópskt samstarf. Hjá Impru er lögð sérstök áhersla á að þjónusta athafnakonur og stuðla að þekkingaruppbyggingu þeirra. Impra rekur einnig Frumkvöðlasetur fyrir sprotafyrirtæki.
     Impra tók til starfa vorið 1999. Sé mið tekið af starfseminni fyrsta hálfa árið skiptust fyrirspurnir þannig að 40% fyrirspurna komu frá konum en 60% frá körlum. Hlutfall fyrirspurna eftir búsetu viðskiptavina var þannig að um 60 % komu frá höfuðborgarsvæðinu en 40% frá landsbyggðinni.
    Af sérverkefnum sem unnin hafa verið hjá Iðntæknistofnun og einskorðast við frumkvöðla á landsbyggðinni má nefna eftirfarandi verkefni:

Námskeið um stofnun og rekstur smáfyrirtækja.
    Þessum námskeiðum er ætlað að bæta úr brýnni þörf fyrir almenna fræðslu um stofnun fyrirtækja og helstu atriði um rekstur þeirra. Á námskeiðunum eru viðskiptahugmyndir þátttakenda yfirfarnar og þróaðar til enda og á grundvelli þeirra á þátttakendum að vera unnt að stofnsetja fyrirtæki. Námskeiðin hafa verið haldin sem hér segir: Þorlákshöfn 1999, Kirkjubæjarklaustri 1999 (á vegum Atvinnuþróunarfélags Suðurlands), Vesturlandi 1998 og Árnessýslu 1998.

FEED, fræðsla og stuðningur við frumkvöðla, verkefni styrkt af Leonardo da Vinci- áætluninni.
    Markmið námskeiðsins var einkum að kenna ungu og atvinnulausu fólki að setja saman viðskiptaáætlanir og fylgja þeim eftir. Auk þess var það tilgangur verkefnisins að þjálfa leiðbeinendur til að kenna gerð viðskiptaáætlana. Verkefnið var í samvinnu við Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar 1997 og 1999 og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða 1998 og 1999.

Ferðaþjónusta til framtíðar, fræðsluverkefni um vistvæna og menningartengda ferðaþjónustu.
    Verkefnið hófst 1997 og því lauk haustið 1999. Kenndar voru aðferðir til að lágmarka sóun og meta umhverfisáhrif í ferðaþjónustu. Þá voru einnig kennd og unnin verkefni um hagnýtingu þjóðmenningar í ferðaþjónustu. Um tuttugu fyrirtæki tóku þátt í verkefninu.

Bættur rekstur.
    Verkefnið er námskeið og ráðgjafaverkefni. Markmið þess er að gefa heildarsýn yfir helstu svið rekstrar ásamt því að veita ráðgjöf um einstök atriði sem fram koma í verkefninu og vekja sérstakan áhuga þátttakenda. Verkefnið hefur á seinustu árum verið á Höfn, Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum, Mosfellsbæ, Hafnarfirði og Selfossi.

Reynslunni ríkari.
    Verkefnið er samvinnuverkefni Iðntæknistofnunar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Það hefur verið í gangi frá árinu 1999 og er eingöngu ætlað konum á landsbyggðinni sem hyggjast hefja atvinnurekstur eða hafa nýlega hafið rekstur fyrirtækis. Markmið námskeiðanna er að þátttakendur kynnist gerð viðskiptaáætlana og mikilvægi þeirra í fyrirtækjarekstri. Námskeiðið hefur verið haldið á fimm stöðum á landinu, þ.e. Vestfjörðum, Austurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi eystra og Suðurlandi.


II. Verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur starfað frá ársbyrjun 1998. Nýsköpunarsjóður hefur staðið á bak við fjölmörg verkefni sem tengjast frumstigi nýsköpunar. Fæst þeirra eru bundin við búsetu, en þau verkefni sem einkum hafa nýst eða verið ætluð fólki á landsbyggðinni eru:

Verkefnin Nýsköpun 1999 og Nýsköpun 2000.
    Þessi verkefni eru fræðslunámskeið og um leið samkeppni um gerð viðskiptaáætlana, þar sem bestu viðskiptaáætlanirnar eru verðlaunaðar. Verkefnin eru samstarfsverkefni Nýsköpunarsjóðs, KPMG Endurskoðunar hf., Morgunblaðsins og Háskóla Íslands. Árið 1999 voru námskeið haldin í samstarfi við atvinnuþróunarfélögin og Byggðastofnun með hjálp „Byggðabrúarinnar“. Það ár barst 81 fullbúin viðskiptaáætlun, þar af voru 23 af landsbyggðinni eða tæplega 30% af heildinni.
    Á þessu ári voru átta námskeið haldin víðs vegar um landið. Þátttaka var mjög góð og er talið að allt að 350 til 400 hafi sótt námskeiðin. Í samkeppnina í ár bárust 32 fullbúnar viðskiptaáætlanir, þar af 17 af landsbyggðinni eða 53% af heildinni.

Nýsköpunarstjórnun fyrirtækja.
    Námskeið um nýsköpunarstjórnun er nýlega hafið. Um er að ræða námskeið sem er samstarfsverkefni með Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögunum á landsbyggðinni. Meginmarkmið námskeiðanna er að efla nýsköpunarstarfið á landsbyggðinni, bæta stefnumótun fyrirtækja og skipulag breytinga svo og vöktun nýjunga. Samtals verða haldin sjö námskeið á þessu ári, þ.e. á Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, í Reykjanesbæ og Stykkishólmi.

Önnur verkefni um frumkvöðlafræðslu sem Nýsköpunarsjóður kemur að með öðrum.
    Auður í krafti kvenna er verkefnaflokkur sem Nýsköpunarsjóður vinnur að í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og fleiri. Verkefnin eru:
     *      FrumkvöðlaAuður,
     *      LeiðtogaAuður,
     *      FjármálaAuður og
     *      Auðarverðlaunin.
    Þessi verkefni hverfast öll um að efla þekkingu og vitund kvenna um frumkvöðlastarf og rekstur fyrirtækja. Verkefnin eru ætluð fyrir konur af öllu landinu.
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kemur að fimm verkefnum í samvinnu við Iðntæknistofnun. Verkefnin eru ætluð frumkvöðlum og fyrirtækjum af öllu landinu og eru sambland af faglegri og fjárhagslegri aðstoð. Verkefnin taka til mismunandi stiga nýsköpunarstarfsins frá almennri handleiðslu fyrir þá sem minnsta þekkingu hafa og til þess að veita ráð um þróun og vöxt starfandi fyrirtækja. Þessi verkefni eru:
     *      Almenn þjónusta og handleiðsla við uppfinningarmenn og frumkvöðla,
     *      Frumkvöðlastuðningur,
     *      Snjallræði –
hugmyndasamkeppni fyrir frumkvöðla,
     *      Skrefi framar,
     *      Vöruþróun.
    Þessi verkefni hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið.     Nýjasta samstarfsverkefni Nýsköpunarsjóðs, Iðntæknistofnunar og fleiri aðila til að styðja við frumkvöðlastarfið í landinu er opnun íslenskrar vefsíðu fyrir konur í atvinnurekstri. Um er að ræða gagnvirka vefsíðu um viðskiptaefni sem tileinkuð er frumkvöðla-konum.
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins vinnur að þremur verkefnum með Útflutningsráði Íslands þar sem frumkvöðlum og fyrirtækjum er leiðbeint um aðgerðir er leitt geti til aukins útflutnings. Þessi verkefni eru:
     *      Útflutningsaukning og hagvöxtur þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er veitt leiðsögn í gerð viðskiptaáætlana um hugmyndir sem leitt geta til útflutnings á nýjum afurðum.
     *      Markaðsstjóri til leigu er verkefni þar sem fyrirtækjum er veittur stuðningur við að ráða til sín markaðsráðgjafa til að hrinda í framkvæmd hugmyndum um fyrirhugaðan útflutning.
     *      Venture Iceland beinist einkum að fyrirtækjum í hugbúnaðargerð sem þurfa að setja upp viðskiptaáætlanir sem fyrst og fremst beinast að erlendum fjárfestum.

III. Verkefni á vegum Byggðastofnunar.
    Byggðastofnun hefur á undanförnum árum aukið fjárhagslegan og faglegan stuðning sinn við atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni. Atvinnuþróunarfélögin hafa hvert á sínu starfssvæði staðið fyrir frumkvöðlafræðslu, t.d. með námskeiðahaldi, þróunarverkefnum og ráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga.
    Mörg námskeiðanna hafa verið haldin í samvinnu atvinnuþróunarfélaganna og Iðntæknistofnunar annars vegar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hins vegar, sbr. verkefni þessara aðila sem talin hafa verið upp hér að framan. Með þessu samstarfi hefur markaðssetning námskeiðanna verið markvissari en ella og betur náðst til helstu frumkvöðla í hverju héraði. Þá hefur Byggðastofnun staðið fyrir rekstri svokallaðrar Byggðabrúar, sem gegnt hefur margvíslegu hlutverki, t.d. fjarkennslu og þekkingarmiðlun sem nýtt hefur verið til frumkvöðlafræðslu ásamt fleiru.
    Byggðastofnun hefur unnið sambærileg verkefni með öðrum, m.a. Rannís. Fyrr á þessu ári voru haldnir kynningarfundir um verkefni ESB er varða lítil og meðalstór fyrirtæki. Kynningarfundir voru haldnir á Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, í Reykjanesbæ, í Borgarnesi og á Ísafirði. Tilgangur kynningarfundanna var að gera fyrirtækjum og frumkvöðlum á landsbyggðinni grein fyrir þeim sóknarmöguleikum sem þeir hafa varðandi kostun samstarfsverkefna um rannsóknir og þróun innan vébanda Evrópusambandsins.
    Þá hafa flest atvinnuþróunarfélögin unnið að stefnumótunarverkefnum sem notið hafa stuðnings frá Byggðastofnun og fleiri, t.d. Átaki til atvinnusköpunar sem iðnaðarráðuneytið hefur staðið fyrir. Stefnumótun atvinnuþróunarfélaganna er mikilvæg forsenda fyrir markvissum stuðningi við frumkvöðla, m.a. hvað varðar frumkvöðlafræðslu.