Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 228  —  113. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar Hákonardóttur um áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytinga á stöðu kvenna á landsbyggðinni.

     1.      Hvernig var staðið að könnun á vegum forsætisráðuneytisins á áhrifum atvinnu- og þjóðfélagsbreytinga á stöðu kvenna á landsbyggðinni, sbr. lið 1.3 í þingsályktun um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998?
     2.      Hverjar voru meginniðurstöður þeirrar könnunar?
     3.      Hvernig hefur verið unnið að því að hrinda þeim í framkvæmd?

    Til að svara þeim atriðum sem spurt er um í fyrsta og öðrum tölulið er birtur í svari þessu inngangskafli ásamt samandregnum niðurstöðum úr skýrslu um könnun á áhrifum atvinnu- og þjóðfélagsbreytinga á stöðu kvenna á landsbyggðinni. Skýrslan var unnin af Þjóðhagsstofnun fyrir beiðni forsætisráðuneytis og var hún gefin út á prenti af félagsmálaráðuneytinu. Athygli er vakin á að skýrsluna er að finna í heild sinni á vefsíðum Stjórnarráðsins (sjá félagsmálaráðuneyti, útgefið efni, jafnréttismál). Hvað varðar þriðja tölulið er því til að svara að í skýrslunni eru ekki gerðar beinar tillögur sem hrinda mætti í framkvæmd sem slíkum. Þó er ljóst að skýrslan og þær athyglisverðu niðurstöður sem hún hefur að geyma eru ágætt innlegg í umræðu um jafnréttis- og byggðamál.
    Inngangur og helstu niðurstöður skýrslunnar fara hér á eftir:
    „Með bréfi dagsettu 3. ágúst 1999 fór forsætisráðuneytið þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún tæki að sér að gera athugun á stöðu kvenna á landsbyggðinni í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Þessi skýrsla er greinargerð stofnunarinnar um þetta mál. Athugunin er byggð á gögnum stofnunarinnar, ásamt gögnum Vinnumálastofnunar og Hagstofu Íslands. Þess vegna er hún einskorðuð við þætti sem snúa að lýðfræði, atvinnu, atvinnuleysi, tekjum, atvinnuskiptingu og menntun. Í sumum tilvikum hafa gögn þessara aðila verið notuð eins og þau eru sett fram í Byggðabrunni Byggðastofnunar.
    Staða kvenna á landsbyggðinni er borin saman við stöðu kynsystra þeirra á höfuðborgarsvæðinu annars vegar. Hins vegar er staða karla og kvenna á landsbyggðinni borin saman. Fyrirliggjandi gögn takmarka slíka greiningu í sumum tilvikum.
    Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
     *      Búferlaflutningar á tíunda áratugi aldarinnar eru álíka algengir hjá konum og körlum. Búferlaflutningar milli sveitarfélaga eru meiri hér á landi en í Noregi. Tíðni búferlaflutninga er mest hjá konum á þrítugsaldri. Sjöunda hver kona á þeim aldri flytur milli sveitarfélaga á ári. Í tímans rás hafa mismunandi flutningar kynjanna leitt af sér misvægi í fjölda milli þeirra.
     *      Mun algengara er að börn innan 15 ára aldurs búi með einum fullorðnum (sem oftast er kona) á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
     *      Tíðni fæðinga er heldur meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Börnum sem fæðast á landsbyggðinni hefur fækkað.
     *      Atvinnuþátttaka kvenna hefur verið að aukast á yfirstandandi hagvaxtarskeiði. Hún er nú meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og árið 1999 dró úr henni þar. Atvinnuþátttaka kvenna á landsbyggðinni var minni en á höfuðborgarsvæðinu árið 1999 í öllum aldursflokkum nema þeim elsta (65–74 ára). Þetta er breyting frá því sem áður var.
     *      Atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni yfir vetrarmánuðina var meira en á höfuðborgarsvæðinu í upphafi tíunda áratugarins. Það jókst verulega eftir 1993 en hefur síðan farið hægt minnkandi. Á höfuðborgarsvæðinu jókst atvinnuleysi kvenna hægar, varð aldrei eins mikið en hefur minnkað hægar en á landsbyggðinni.
     *      Samkvæmt ársverkamælingum fjölgaði störfum á höfuðborgarsvæðinu um 6.000 á tímabilinu 1992–97 á meðan fjöldi starfa á landsbyggðinni stóð því sem næst í stað. Störfum kvenna fjölgaði meira en störfum karla á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni fjölgaði störfum kvenna um 500 en störfum karla fækkaði nokkuð meira en sem nam fjölguninni hjá konum. Störfum kvenna fjölgaði annars staðar en á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Á landsbyggðinni hurfu 0,8 störf fyrir hvert eitt sem varð til en á höfuðborgarsvæðinu var þetta hlutfall 0,3.
     *      Árið 1997 voru 43% allra ársverka unnin af konum. Á landsbyggðinni var þetta hlutfall 40% en 44% á höfuðborgarsvæðinu. Hlutur kvenna í einstökum atvinnugreinum er mismikill, frá því að vera 4% ársverka í fiskveiðum í yfir 80% í velferðarstofnunum. Enginn áberandi munur er á hlut kvenna í einstökum atvinnugreinum eftir því hvort þær búa á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu.
     *      Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskannana Hagstofu Íslands hefur mikil fjölgun starfa átt sér stað hjá konum á höfuðborgarsvæðinu miðað við það sem gerst hefur á landsbyggðinni, einkum á árinu 1999. Frá 1991 til 1999 fjölgaði konum á höfuðborgarsvæðinu sem gegndu fullu starfi um 6.500 eða um réttan þriðjung. Á sama tíma fækkaði konum í fullu starfi á landsbyggðinni um 100.
     *      Umtalsverður munur er á því hlutfalli kvenna á vinnumarkaðinum sem er í fullu starfi eftir búsetu. Þannig eru um 49% starfandi kvenna á landsbyggðinni í fullu starfi árið 1999 en 57% á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hlutfall er mun hærra hjá körlum en konum.
     *      Mismunur á þátttöku kvenna á vinnumarkaðinum eftir atvinnugreinum er mikill milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Hlutur kvenna á landsbyggðinni er mun meiri í landbúnaði og sjávarútvegi en á höfuðborgarsvæðinu einkennist atvinnuskipting kvenna af þátttöku í fjölbreyttum þjónustugreinum. Munurinn á atvinnugreinunum er mestur í heilbrigðisþjónustu. Á höfuðborgarsvæðinu vinna 23% kvenna í fullu starfi í heilbrigðisþjónustu en á landsbyggðinni er þetta hlutfall 18%.
     *      Atvinnutekjur kvenna eru 53% af launatekjum karla að meðaltali. Einungis á höfuðborgarsvæðinu eru tekjur kvenna hærri en landsmeðaltal kvenna og munar rúmlega 6%. Alls staðar annars staðar eru þær lægri. Lægstar eru meðaltekjurnar á Norðurlandi, tæplega 14% fyrir neðan meðaltalið í austurkjördæminu og rúmlega 12% fyrir neðan í vesturkjördæminu. Suðurnes eru næst því að ná landsmeðaltali og síðan Vestfirðir. Allt annað landfræðilegt mynstur er á meðaltekjum karla eftir landshlutum þar sem þær eru einungis lægri en landsmeðaltal á Norðurlandi og Suðurlandi. Þær eru hæstar á Suðurnesjum.
     *      Skólasókn kvenna er meiri en karla í nær öllum aldursflokkum. Skólasókn er minni á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu í flestum aldursflokkum en ekki er hægt að greina umtalsverðan mun á milli kynja í þessum efnum. Skólaþátttakan er minnst á Vestfjörðum. Þrátt fyrir meiri skólasókn kvenna útskrifast fleiri karlar.
     *      Verulega hærra hlutfall kvenna á landsbyggðinni hefur einungis grunnskólamenntun en á höfuðborgarsvæðinu. Konur með framhaldsskólamenntun og þaðan af meiri menntun eru hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Eftir því sem menntunin er meiri verður hlutfallslegi munurinn meiri.
     *      Konur með háskólapróf eru verulega færri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu en þeim hefur fjölgað örar þar en á höfuðborgarsvæðinu sé litið á allt tímabilið 1991–99. Á allra seinustu árum er fjölgunin meiri á höfuðborgarsvæðinu. Á báðum svæðum hefur fjöldi kvenna með háskólapróf þó nær tvöfaldast.“