Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 230  —  87. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Magnúsar Stefánssonar um samræmda samgönguáætlun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður framgangi ályktunar Alþingis frá 9. mars 1998, um samræmda samgönguáætlun?
    Víða hafa komið fram þau sjónarmið að samræma áætlun um uppbyggingu samgöngumannvirkja í eina samgönguáætlun. Á 110. löggjafarþingi árið 1987 var lögð fram þingsályktunartillaga um að skipuð yrði nefnd sem ynni að samræmingu áætlana á sviði samgöngumála. Málinu var vísað til ríkisstjórnar og var unnið nokkuð að því en síðan gerðist fátt.
    Hinn 9. mars 1998 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um samræmda samgönguáætlun. Var hún svo hljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að kanna hvort samræma megi gerð áætlana um uppbyggingu samgöngumannvirkja í eina samræmda samgönguáætlun og gera í framhaldi af því tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögum og reglum. Nefndin skili niðurstöðu fyrir árslok 1998.“
    Ekki fór það svo að framangreind nefnd yrði skipuð fyrir árslok 1998.
    Þegar núverandi samgönguráðherra tók við embætti á árinu 1999 ákvað hann að unnið skyldi að gerð samgönguáætlunar. Kom þessi áhersla m.a. fram í stefnuræðu forsætisráðherra 4. október 1999. Var undirbúningur þegar settur af stað í ráðuneytinu en ekki var talin ástæða til þess að leggja í sérstaka vinnu við könnun á því „hvort samræma megi gerð áætlana“.
    Allmargir fundir voru haldnir um þetta efni í samgönguráðuneytinu þá um sumarið, haustið og veturinn 1999–2000. Vitað var að Norðmenn hefðu unnið að þessum málum lengi og væru langt komnir með samgönguáætlun fyrir Noreg. Samgönguráðherra kynnti sér m.a. starf þeirra í ferð sinni til Noregs á síðasta ári og heimsótti þá bæði norska samgönguráðuneytið og norsku vegagerðina.
    Að þessum undirbúningstíma loknum ákvað samgönguráðherra að skipa stýrihóp til að sjá um gerð samgönguáætlunar fyrir Ísland. Með bréfi dagsettu 8. maí á þessu ári var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, lögfræðingur og borgarfulltrúi, skipaður formaður þessa hóps. Með honum í stýrihópnum eru Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Hermann Guðjónsson, forstjóri Siglingastofnunar Íslands og Þorgeir Pálsson flugmálastjóri.
    Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn ljúki vinnu sinni og skili drögum að samgönguáætlun til samgönguráðherra sumarið 2002 og að hann leggi sína tillögu að samgönguáætlun fyrir Alþingi haustið 2002.
    Hlutverk stýrihópsins sem nú vinnur að gerð samgönguáætlunar er miklu víðtækara en gert var ráð fyrir í fyrrnefndri þingsályktun. Auk þess að ná til framkvæmdaáætlana tekur hún m.a. á öryggismálum, umhverfismálum, almenningssamgöngum, fjármögnun samgöngukerfisins og styrkleikum og veikleikum samgöngugreina, svo eitthvað sé nefnt. Verið er að vinna áætlun sem mun taka til allra þátta samgöngukerfisins, þ.m.t. samgangna á landi, lofti og sjó, til útlanda og samspils milli þeirra og mikilvægra þjóðfélagsþátta.
    Í samgönguáætluninni skal gert ráð fyrir eftirfarandi skilyrðum:
     a.      að ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun,
     b.      að ná fram hagkvæmari notkun fjármagns og mannafla,
     c.      að ná fram meiri áherslu á samstarf og samspil milli samgöngumáta og stofnana samgönguráðuneytisins.
    Stýrihópnum er ætlað að vinna áætlunina þríþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir ítarlegri úttekt á núverandi ástandi og setningu markmiða. Í öðru lagi er gert ráð fyrir gerð áætlunar til ársins 2014 og að lokum er kafli um framtíðarsýn eða leiðarljós til ársins 2030.