Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 256  —  167. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um hagræðingu í viðskiptabönkunum.

     1.      Hverju hefur fækkun viðskiptabanka frá 1990 skilað í minni vaxtamun og þjónustugjöldum, sundurliðað eftir bönkum? Óskað er að fram komi einnig hvernig vaxtakjör til einstaklinga hafi þróast á tímabilinu eftir áhættumati sem bankarnir fylgja.
    Hreinar vaxtatekjur (vaxtamunur) og aðrar rekstrartekjur fóru lækkandi sem hlutfall af eignum á tíunda áratugnum, sér í lagi á síðustu árum hans. Ástæður þess kunna að vera samrunar banka og hagræðing í rekstri að öðru leyti, t.d. vegna tækninýjunga, og meiri samkeppni á fjármagnsmarkaði. Ekki er unnt að greina á milli einstakra þátta. Einnig er ástæða til að benda á að vaxtamunur getur verið ólíkur vegna mismunandi uppbyggingar efnahagsreiknings, t.d. eftir því hvernig fjármögnun skiptist í innlán, lánsfé og eigið fé. Jafnframt skiptir miklu máli hvert hlutfallið er á milli fjárfestingarlána og neyslulána svo og skipting útlána á milli einstakra atvinnugreina og einstaklinga. Vaxtamunur er því ekki beinn mælikvarði á hagkvæmni í rekstri lánastofnana. Ekki er hægt að svara því að hve miklu leyti má rekja lækkun hreinna rekstrartekna til samruna fjögurra viðskiptabanka í Íslandsbanka og samruna Landsbanka og Samvinnubanka í upphafi áratugarins og endurskipulagningar fjárfestingarlánasjóðakerfisins undir lok hans.
    Í meðfylgjandi töflu koma fram vaxtatekjur, vaxtagjöld, hreinar vaxtatekjur, aðrar vaxtatekjur og hreinar rekstrartekjur sem hlutfall af meðalstöðu efnahagsreiknings viðskiptabankanna þriggja og sparisjóðanna sameiginlega. Hreinar vaxtatekjur eru mismunurinn á vaxtatekjum og vaxtagjöldum. Aðrar rekstrartekjur eru tekjur af hlutabréfum og öðrum eignarhlutum, þóknanatekjur, gengishagnaður/-tap og ýmsar rekstrartekjur. Hreinar rekstrartekjur eru samtala hreinna vaxtatekna og annarra rekstrartekna. Þessi tafla er unnin upp úr skýrslum Fjármálaeftirlitsins (áður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands) frá 1991 til 1999. Athygli skal vakin á því að reglur um reikningsskil banka og sparisjóða breyttust árið 1995 þannig að ekki er fullkomið samræmi á milli talna fyrir og eftir 1995. Breytingarnar höfðu meðal annars í för með sér tilflutning á tekjuliðum frá öðrum rekstrartekjum yfir í vaxtatekjur, þannig að vaxtatekjur og hreinar vaxtatekjur eru að einhverju leyti vanmetnar og aðrar rekstrartekjur samsvarandi ofmetnar fyrir árin 1991–94 samanborið við árin 1995–99 og er það skýringin á sveiflu í tölunum milli áranna 1994 og 1995. Hreinar rekstrartekjur eiga hins vegar að vera nokkuð sambærilegar fyrir öll árin.
1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999
Landsbanki Íslands
Vaxtatekjur
13,4% 10,0% 10,0% 8,2% 8,9% 8,5% 8,4% 7,4% 8,8%
Vaxtagjöld
9,6% 6,5% 6,2% 4,3% 4,6% 4,7% 4,8% 4,3% 5,7%
Hreinar vaxtatekjur
3,8% 3,4% 3,8% 3,9% 4,2% 3,8% 3,6% 3,2% 3,1%
Aðrar rekstrartekjur
2,3% 2,4% 2,4% 2,3% 2,2% 2,5% 2,4% 2,1% 2,0%
Hreinar rekstrartekjur
6,1% 5,9% 6,1% 6,2% 6,4% 6,2% 6,1% 5,3% 5,2%
Íslandsbanki
Vaxtatekjur
15,6% 11,1% 11,0% 8,7% 8,8% 8,7% 8,4% 7,9% 9,3%
Vaxtagjöld
10,8% 6,4% 6,4% 4,2% 5,2% 5,2% 5,2% 5,1% 6,4%
Hreinar vaxtatekjur
4,8% 4,7% 4,7% 4,5% 3,6% 3,6% 3,2% 2,8% 2,9%
Aðrar rekstrartekjur
3,4% 3,4% 3,1% 3,4% 1,7% 1,9% 2,4% 2,1% 2,0%
Hreinar rekstrartekjur
8,2% 8,1% 7,7% 7,9% 5,3% 5,5% 5,6% 4,9% 4,9%
Búnaðarbanki Íslands
Vaxtatekjur
13,5% 9,1% 10,4% 8,0% 9,2% 9,4% 9,4% 8,4% 9,1%
Vaxtagjöld
9,2% 5,2% 5,4% 3,8% 4,5% 4,7% 4,9% 4,7% 5,7%
Hreinar vaxtatekjur
4,3% 3,9% 4,9% 4,2% 4,7% 4,7% 4,4% 3,7% 3,4%
Aðrar rekstrartekjur
2,8% 2,9% 2,8% 4,1% 2,4% 2,3% 2,4% 2,6% 3,1%
Hreinar rekstrartekjur
7,1% 6,7% 7,7% 8,3% 7,1% 7,0% 6,8% 6,3% 6,4%
Sparisjóðir
Vaxtatekjur
16,1% 11,4% 12,0% 9,0% 10,0% 10,4% 10,1% 9,1% 10,9%
Vaxtagjöld
9,8% 5,5% 6,0% 3,9% 4,5% 5,1% 5,3% 4,8% 6,7%
Hreinar vaxtatekjur
6,3% 5,9% 6,0% 5,1% 5,5% 5,3% 4,8% 4,3% 4,1%
Aðrar rekstrartekjur
3,4% 3,1% 3,0% 3,1% 2,3% 2,3% 2,2% 2,3% 3,3%
Hreinar rekstrartekjur
9,7% 9,0% 9,0% 8,1% 7,8% 7,6% 7,0% 6,6% 7,4%

    Einnig er spurt um hvernig vaxtakjör til einstaklinga hafa þróast á tímabilinu. Einn mælikvarði á vaxtakjör til einstaklinga er meðaltal nafn- og raunávöxtunar almennra óverðtryggðra skuldabréfalána innlánsstofnana. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslum Seðlabanka Íslands. Athygli skal vakin á því að þau lán sem hér um ræðir endurspegla aðeins lítinn hluta útlána bankanna.


% Nafnávöxtun Raunávöxtun
1991 18,4 10,0
1992 13,5 11,8
1993 14,8 11,5
1994 10,9 9,5
1995 11,9 10,1
1996 12,8 10,5
1997 13,3 11,1
1998 13,2 11,8
1999 14,1 8,0


     2.      Hvernig hafa vaxtamunur og þjónustugjöld þróast sem hlutfall af efnahagsreikningi árlega frá 1995 í Íslandsbanka, Búnaðarbanka, Landsbanka og hjá sparisjóðunum?
    Þessar upplýsingar koma fram í svari við 1. lið.

     3.      Hvað hefur fólki í hefðbundnum bankastörfum fækkað mikið árlega frá 1990, sundurliðað eftir kynjum?
    Í meðfylgjandi töflu kemur fram fjöldi stöðugilda í árslok hvers árs hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, eins og þau eru sýnd í skýrslum Fjármálaeftirlitsins. Í tölum fyrir sparisjóði eru einnig stöðugildi í Sparisjóðabanka Íslands hf.

Landsbank i Búnaðarbanki Íslandsbanki Sparisjóðir Samtals
1990 1.108 486 796 441 2.831
1991 1.090 491 795 459 2.835
1992 1.034 507 729 455 2.725
1993 931 509 683 451 2.574
1994 928 523 645 465 2.561
1995 921 524 625 482 2.552
1996 903 529 624 496 2.552
1997 904 545 629 525 2.603
1998 904 574 637 583 2.698
1999 870 617 662 672 2.821

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Landsbanka og Búnaðarbanka um skiptingu stöðugilda eftir kynjum. Í Landsbankanum hefur hlutfallið verið nær óbreytt allt tímabilið, 27% karlar og 73% konur. Í Búnaðarbankanum hefur hlutfall karla smátt og smátt hækkað, var 21% árið 1990 en komið upp í 23,5% árið 1999.

     4.      Hafa stærri einingar í bankakerfinu annars staðar á Norðurlöndunum skilað sér í hagstæðari lánskjörum til viðskiptabanka og hefur sameining banka þar leitt til lægri útlánavaxta og þjónustugjalda til neytenda?
         Óyggjandi er að samruni banka á Norðurlöndum hefur skilað sér í hagstæðari lánskjörum til þeirra. Lánveitendur telja stærri banka fjárhagslega sterkari og samkeppnishæfari. Þetta sést best á hækkun lánshæfismats banka á Norðurlöndum sem gengið hafa í gegnum samruna.     Vaxtamunur á Norðurlöndum hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Þessi þróun hefur átt sér stað á sama tíma og fjöldi bankasamruna hefur orðið. Út frá þessu er hins vegar ekki hægt að álykta sem svo að lækkun vaxtamunar á Norðurlöndum sé bein afleiðing af bankasamruna heldur er líklegt að í mörgum tilfellum hafi ákvarðanir um samruna verið teknar m.a. með hliðsjón af minnkandi vaxtamun. Ákvarðanir um samruna hafa því verið teknar til að lækka kostnað, efla dreifinet og aðlaga reksturinn að þeim breyttu aðstæðum sem tækninýjungar og opnara samkeppnisumhverfi banka hefur haft í för með sér.