Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 259  —  161. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um umsvif Ríkisútvarpsins á netinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fyrirætlanir hefur Ríkisútvarpið um rekstur á netinu? Hvaða áform eru uppi sem lúta að auknum umsvifum Ríkisútvarpsins á netinu og hvers eðlis eru þeir netmiðlar? Ætlar Ríkisútvarpið út í samkeppnisrekstur á netinu líkt og í útvarpi og sjónvarpi?

    Svar menntamálaráðherra er byggt á upplýsingum sem óskað var frá Ríkisútvarpinu í tilefni af fyrirspurninni.
    Ríkisútvarpið hefur annast eigið vefsetur á slóðinni ruv.is frá því í maí 1996. Þar eru birtar ýmsar grunnupplýsingar um markmið og þjónustu stofnunarinnar, svo sem dagskrár útvarps og sjónvarps og ítarefni um einstaka dagskrárliði, netföng starfsmanna og fréttir af starfseminni á hverjum tíma. Einn starfsmaður annast alla umsjón með uppfærslu vefsíðna Ríkisútvarpsins. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs voru heimsóknir á vefsíður Ríkisútvarpsins að meðaltali um 3000 á dag.
    Ríkisútvarpið hefur unnið að gerð sértækra vefja um afmörkuð efni á sviði íslenskrar menningar og sögu í samvinnu við aðrar menningarstofnanir. Þar á meðal eru vefir helgaðir Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, Halldóri Laxness og verkum hans, lýðveldisstofnun á Íslandi, hernámsárunum og búferlaflutningum Íslendinga til Vesturheims. Sá síðasttaldi var nýlega settur upp í enskri þýðingu til að gefa fólki af íslenskum ættum vestanhafs enn betra tækifæri til að kynnast þessari merkilegu sögu. Allir sérvefirnir hafa að geyma ítarlega texta, myndir og athyglisverðar hljóðupptökur úr safni Ríkisútvarpsins.
    Þá ber og að nefna margmiðlunarþáttinn í þessu starfi, sem fram kemur í barna- og unglingaþættinum Vitanum. Hann er fluttur á Rás 1 síðdegis virka daga og einnig á vefnum. Á vefsíðunum er að finna ýmislegt skylt efni á áhugasviði barna og unglinga og stuðlað er að samskiptum þeirra um vefinn þannig að íslensk börn innan lands og utan hafi þarna sameiginlegan vettvang til að fylgjast með dagskrárefni við sitt hæfi og eiga einnig bein samskipti sín á milli.
    Í umsögn útvarpsstjóra kemur fram að Ríkisútvarpið hyggst efla þetta starf eins og aðstæður leyfa í framtíðinni. Hvarvetna hafa útvarps- og sjónvarpsstöðvar komið sér fyrir á vefnum og gildir það jafnt um opinber fyrirtæki á þessu sviði sem einkafyrirtæki. Hefur breska ríkisútvarpið BBC haft mikilsverða forgöngu í þessum efnum og lagt mikla áherslu á þessa nýju tegund fjölmiðlunar. Norska ríkisútvarpið NRK rekur nú margmiðlunina NRK futurum sem aðra af tveimur aðaldagskrárdeildum sínum og hjá danska ríkisútvarpinu er margmiðlunardeildin DR Online í örum vexti.
    Ríkisútvarpið fylgist með þessari þróun og hyggst laga sig að hinu breytta umhverfi í heimi fjölmiðlunar í framtíðinni.