Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 262  —  57. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf voru flutt út á land á árinu 1999 á vegum ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins? Svarið óskast sundurliðað eftir ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til.

    Í lauslegu yfirliti, sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur unnið fyrir beiðni forsætisráðuneytisins, kemur fram að tiltölulega fá fjarvinnsluverkefni á vegum ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja í ríkiseigu hafa enn sem komið er verið flutt til landsbyggðarinnar. Þegar leitað er svara við þeim atriðum sem spurt er um kemur einnig í ljós að flutningur verkefna til landsbyggðarinnar á sér stað með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða að verkefni eru unnin í fjarvinnslu þar sem þjónusta er keypt af einkaaðilum og er þá gjarnan um tímabundin verkefni að ræða. Hins vegar er það gert með því að störf og starfsemi opinberra aðila er flutt og staðsett á landsbyggðinni. Í síðara tilvikinu er ljóst að hagnýting upplýsinga- og fjarskiptatækni ræður miklu um það hvaða starfsemi þykir hagkvæmt að hafa á landsbyggðinni.
    Þau fjarvinnsluverkefni sem færð hafa verið til landsbyggðarinnar eru einkum byggð á flutningi verkefna innan eða á milli opinberra stofnana, frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar. Dæmi um slík verkefni eru uppfærsla jarðaskrár og gerð greiðslumats til Hagþjónustu landbúnaðarins á Hvanneyri, sem nú er unnin á Hvanneyri; Siglingastofnun hefur flutt fjarvinnsluverkefni til Vestfjarða; Ferðamálaráð hefur flutt vinnslu verkefna í auknum mæli til skrifstofu ráðsins á Akureyri; Vegagerð ríkisins hefur samtengt sex umdæmisskrifstofur, auk tíu starfsstöðva að auki, en með samtengdu tölvukerfi hefur gefist kostur á breyttri dreifingu verkefna og hafa verkefni verið aukin sem nemur hálfu stöðugildi á Ísafirði vegna tölvuverkefna. Í þessu sambandi má einnig t.d. nefna fjölgun starfa í útibúum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins á landsbyggðinni og stofnun útibús Orkustofnunar á Akureyri. Þá hefur menntamálaráðuneytið stuðlað að fjarkennslu víða um land, m.a. með því að setja á stofn símenntunarmiðstöðvar víða á landsbyggðinni. Loks má minna á að starfsemi Landmælinga ríkisins var flutt á Akranes á síðasta ári en þar starfa nú 30 manns. Ljóst er að upplýsingatæknin gerir stofnunum ríkisins í vaxandi mæli kleift að sinna þjónustuhlutverki sínu án tillits til staðsetningar.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hefur með kerfisbundnum hætti skoðað möguleika á flutningi verkefna frá aðalskrifstofu og undirstofnunum til landsbyggðarinnar og ráðið til þess sérstaka ráðgjafa og verður niðurstaða þeirrar vinnu kynnt bráðlega. Fyrr á þessu ári var efnt til samstarfsverkefnis iðnaðarráðuneytis, Iðntæknistofnunar og Byggðastofnunar um fjarvinnslu á landsbyggðinni. Var ákveðið að skilgreina nánar tíu af þeim verkefnum sem fjallað var um í skýrslu sem Iðntæknistofnun vann fyrir forsætisráðuneytið og Byggðastofnun á síðasta ári. Nú hefur verið unnið að gerð viðskiptaáætlana fyrir fimm verkefni. Forsætisráðuneytið hefur sömuleiðis ákveðið að kanna með kerfisbundnum hætti flutning verkefna frá ráðuneytinu og undirstofnunum út á land og er framkvæmd þessa á undirbúningsstigi. Þá hafa nokkur önnur ráðuneyti, t.d. samgönguráðuneyti, þegar lagt í nokkra vinnu við að kanna slíka möguleika. Er þess vænst að ráðuneyti sem enn hafa lítið aðhafst fari að þessu fordæmi.
    Tilflutningur verkefna hefur orðið minni en væntingar margra stóðu til. Í ályktun Alþingis um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 var fjallað um verkefnaflutning og þar segir í 6. tölul. að lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og skyldi því markmiði m.a. náð með því að „skilgreina eftir föngum þau verkefni ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt væri að sinna á landsbyggðinni“. Skýrsla, sem unnin var á vegum Iðntæknistofnunar, Byggðastofnunar og forsætisráðuneytis og kynnt var í október 1999, „Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni“, gat einnig af sér meiri væntingar en raunsætt þykir. Sú skýrsla var raunar kynnt sem forathugun og hafði að geyma upptalningu á miklum fjölda verkefna sem skýrsluhöfundar töldu að „hugsanlega gætu hentað til gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni“, svo sem segir í inngangi skýrslunnar.
    Flutningur fjarvinnsluverkefna er ekki einfaldur og til að hann fái staðist til frambúðar þarf hann að eiga sér stað á forsendum sem eru raunhæfar út frá hagkvæmnissjónarmiði, auk þess sem gæta þarf að því að flutningurinn íþyngi ekki framkvæmd verkefna sem flutt eru. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að kostir þessa verði kannaðir betur en gert hefur verið því hér er tvímælalaust um valkost að ræða sem hið opinbera getur nýtt sér í því markmiði að draga úr eigin umsvifum og auka sveigjanleika í opinberri starfsemi. Þótt sumum þyki hægt af stað farið er viðbúið að bæði einkaaðilar og opinberir aðilar muni í auknum mæli færa sér slíka þjónustu í nyt, m.a. vegna þess sveigjanleika sem slík þjónusta gefur möguleika á. Er vakin athygli á því að einkafyrirtæki færa sér þennan kost í nyt í vaxandi mæli, t.d. fjármálastofnanir og fyrirtæki í sölu- og markaðstengdri starfsemi.
    Sú reynsla sem fengin er af fjarvinnsluverkefnum á landsbyggðinni er um margt jákvæð. Forsætisráðuneytið studdi á sínum tíma við tilraunaverkefni í fjarvinnslu, sem fól í sér að munir í vörslu Þjóðminjasafns voru skráðir í fjarvinnslustöð á Bakkafirði. Nú hefur orðið framhald á þessu verkefni og er því sinnt af Landvist á Húsavík. Einnig má nefna sem dæmi að forsætisráðuneytið hefur um árabil nýtt sér þjónustu þýðenda sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins og hefur það gefist ákaflega vel. Einnig mætti hér vísa til jákvæðrar reynslu Alþingis sem nýtir sér þjónustu fyrirtækja á landsbyggðinni við ritvinnslu.
    Þess má að lokum geta að í janúar árið 2000 kynnti samgönguráðherra skýrsluna „Stafrænt Ísland – skýrsla um bandbreiddarmál“ sem verkefnisstjórn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, svokölluð RUT-nefnd, skipuð af forsætis- og fjármálaráðuneytum, og samgönguráðuneytið létu taka saman. Í skýrslunni er kortlögð flutningsgeta fjarskiptakerfisins og greind bandbreiddarþörf fyrir stafræna flutninga á næstu árum, en fullkomið fjarskiptakerfi og næg flutningsgeta er forsenda þess að hægt sé að stunda fjarvinnslu á landsbyggðinni. Það að landið skuli vera eitt gjaldsvæði og breytingar sem gerðar hafa verið á gjaldskrá fyrir leigulínur er liður í þeirri viðleitni stjórnvalda að skapa fjarvinnslunni góð samkeppnisskilyrði.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun leggja fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi skýrslu um framkvæmd ályktunar Alþingis um byggðastefnu fyrir árin 1999–2001 og er þess að vænta að fjallað verði um flutning fjarvinnsluverkefna til landsbyggðarinnar í henni.