Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 279  —  172. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Árna Gunnarssonar um úrgang frá verksmiðjubúum.

     1.      Hversu mikið fellur til árlega af úrgangi frá verksmiðjubúum í svína- og kjúklingarækt?
     Svínabú: Samkvæmt hagtölum landbúnaðarins voru árið 1999 skráðir búfjáreigendur 49 og fjöldi gyltna var 3.729. Fjöldi grísanytja eftir gyltu var 17,6. Sé miðað við 4.000 gyltur má ætla að heildarúrgangur frá svínabúum hafi verið um 70.000 tonn á sl. ári.
     Kjúklingabú: Samkvæmt hagtölum landbúnaðarins voru varphænur 160.640 og alifuglakjötsframleiðsla um 3.000 tonn árið 1999, af því eru kjúklingar taldir 2.700–2.800 tonn. Lauslega má áætla að þessi framleiðsla svari til um 2,4 millj. kjúklinga.
    Áætlað er miðað við góða búskaparhætti að úrgangur hafi á sl. ári verið um 9.600 tonn frá varphænum. Opinberar tölur eru ekki fyrir hendi um áætlaðan úrgang frá kjúklingum, en miðað við norskar tölur ættu að koma um 7.200 rúmmetrar af hænsnaskít frá 2,4 millj. kjúklinga.

     2.      Hefur úrgangur frá verksmiðjubúum að einhverju leyti verið nýttur til landgræðslu og eru áform um frekari nýtingu en nú er?
    
Hollustuvernd ríkisins telur að mestur hluti úrgangs frá kjúklingabúum sé nýttur, ýmist í tengslum við sveppaframleiðslu eða sem áburður. Úrgangur frá svínabúum er mjög vatnsmikill sem hefur skapað vanda við meðhöndlun og flutninga. Svínaskítur er að hluta nýttur sem áburður, að hluta urðaður og að hluta losaður í sjó. Þessi úrgangur hefur ekki verið nýttur til landgræðslu, þ.e. til að græða upp örfoka land nema í takmörkuðum mæli, t.d. á Kjalarnesi og í Borgarfirði. Hollustuvernd ríkisins telur að núna fari innan við fimmtungur af úrgangi svínabúa óhreinsaður í sjó. Gert er ráð fyrir að þetta magn muni minnka verulega á allra næstu mánuðum í samræmi við kröfur í reglugerðum sem settar voru fyrir ári síðan og gerð er grein fyrir hér á eftir.
    Settar voru reglur varðandi úrgang frá starfsleyfisskyldri búfjárframleiðslu með reglugerð nr. 804/1999, um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, þar sem losun búfjáráburðar í yfirborðsvatn er bönnuð. Þar segir einnig að í starfsleyfi fyrir búfjárframleiðslu skuli vera ákvæði um söfnun, geymslu og dreifingu búfjáráburðar sem taki mið af starfsreglum um góða búskaparhætti. Starfsemin er starfsleyfisskyld samkvæmt reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar með er starfsemin háð ákvæðum laga nr. 7/1998 um að beitt sé bestu fáanlegri tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint.
    Starfsleyfisvinnslu og eftirlit með þessum fyrirtækjum annast heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélaga sem vinna um þessar mundir að því að ljúka vinnslu starfsleyfa fyrir verksmiðjubú, enda skal leyfisveitingum lokið fyrir næstu áramót. Starfandi fyrirtæki hafa þó umþóttunartíma til 31. október 2007 til að uppfylla kröfu um samþættar mengunarvarnir, kröfu um að orka skuli vel nýtt og kröfu um að beitt sé bestu tækni eða um viðbótarráðstafanir.
    Bann við losun búfjáráburðar í yfirborðsvatn tók gildi við útgáfu reglugerðar nr. 804/1999, um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri. Fyrirtæki sem losa sig þannig við úrgang vinna nú að úrbótum í samræmi við áætlanir sem þau hafa lagt fyrir stjórnvöld.
    Miðað við stórauknar kröfur er ljóst að finna verður frekari nýtingarmöguleika fyrir þennan úrgang og vinna fyrirtækin að því, m.a. með hliðsjón af nýtingu hans í landgræðsluskyni. Þá skal nefnt að á vegum ráðuneytisins er nú starfandi nefnd sem hefur það verkefni að gera tillögur um aukna nýtingu eða endurvinnslu úrgangs. Mun nefndin m.a. skoða úrgang frá verksmiðjubúum.

     3.      Með hvaða hætti er úrgangi sem ekki er unnt að nýta fargað?
    Úrgangur frá verksmiðjubúum sem ekki er nýttur sem áburður eða til jarðgerðar er urðaður á viðurkenndum urðunarstöðum en einnig er hægt að brenna slíkan úrgang í sorpbrennslustöðvum. Jafnframt er takmarkað magn úrgangs frá tveimur svínabúum losað í sjó og eins og áður hefur komið fram er talið að það nemi innan við fimmtungi af úrgangi svínabúa. Frá og með 1. desember nk. fellur niður tímabundin undanþága til annars fyrirtækisins en hitt fyrirtækið starfar samkvæmt gömlu starfsleyfi sem heimilaði losun úrgangs í sjó út fyrir stórstraumsfjöruborð. Það leyfi er nú til endurskoðunar og verður í nýju starfsleyfi lagt bann við slíkri losun í sjó. Rétt er að nefna að nú eru uppi hugmyndir um að afvatna svínaskít en það mun auðvelda mjög alla meðhöndlun og flutninga. Vatnið sem skilið verður frá væri þá, að minnsta kosti að hluta, leitt í sjó eins og um hreinsað skolp væri að ræða. Þetta er talið fært sé vatnið losað í viðtaka sem er ekki viðkvæmur.

     4.      Kemur til greina að setja reglur á grundvelli umhverfissjónarmiða sem takmarka stærð verksmiðjubúa?

    Ráðuneytið lítur svo á að með verksmiðjubúum sé átt við bú sem falla undir I. og II. viðauka laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og tölulið 6.6 í I. viðauka reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
    Í lögum nr. 106/2000 er kveðið á um að eftirtaldar framkvæmdir séu alltaf háðar mati á umhverfisáhrifum: Stöðvar þar sem fram fer þauleldi alifugla og svína með:
     i.      85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur,
     ii.      3.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða fleiri eða
     iii.      900 stæði fyrir gyltur eða fleiri.
    Þá er í lögunum fjallað um framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þar sem meta skal í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Þar undir falla m.a. stöðvar þar sem fram fer þauleldi alifugla og svína með:
     i.      40.000 stæði fyrir kjúklinga eða hænur,
     ii.      2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða fleiri eða
     iii.      750 stæði fyrir gyltur eða fleiri.
    Í reglugerð nr. 785/1999 er kveðið á um að gera skuli kröfur um samþættar mengunarvarnir hjá nýjum atvinnurekstri og hjá starfandi atvinnurekstri eigi síðar en 31. október 2007. Samkvæmt reglugerðinni eru sérstakar kröfur gerðar til atvinnurekstrar þar sem þauleldi alifugla eða svína fer fram með fleiri en:
     a)      40.000 stæði fyrir alifugla,
     b)      2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg), eða
     c)      750 stæði fyrir gyltur.
    Ekki hefur komið til álita í ráðuneytinu að setja reglur sem takmarka stærð verksmiðjubúa með tilliti til umhverfissjónarmiða umfram þær sem áður eru nefndar, enda ekki nauðsynlegt. Aðalatriðið er að óháð stærð valdi verksmiðjubú ekki óæskilegum umhverfisáhrifum og þar getur staðsetning skipt miklu máli og jafnvel meira en stærð búsins.