Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 289  —  262. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Margrét Frímannsdóttir,
Drífa Hjartardóttir, Árni Johnsen.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja frumvarp til laga um stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri í samstarfi við sveitarfélagið Árborg, héraðsnefnd Árnessýslu og Byggðasafn Árnesinga og leggja fram í upphafi næsta löggjafarþings.

Greinargerð.


    Með gildum rökum má segja að vagga tónlistarlífs á Íslandi í þeirri mynd sem nú er sé í þorpunum Stokkseyri og Eyrarbakka. Þaðan voru margir þeir menn sem stóðu í fremstu víglínu á sviði tónsköpunar, kennslu og uppbyggingar tónlistarlífs á fyrri hluta 20. aldar. Nægir að nefna aðeins fáa menn: tónskáldin og tónlistarmennina Sigfús Einarsson, Pál Ísólfsson og Friðrik Bjarnason og athafnamanninn og menningarfrömuðinn Ragnar Jónsson í Smára. Þessir menn áttu sér einnig forfeður sem stóðu fyrir blómlegu tónlistarstarfi og öðru menningarlífi í þessum þorpum og lögðu þar grunninn með starfi sínu. Má þar nefna þá Selsbræður, Bjarna, Jón, Ísólf og Gísla Pálssyni á Stokkseyri.
    Tónmenningu Íslands hefur ekki verið sinnt sem skyldi og fremur lítið verið skráð og fjallað um starf íslenskra tónlistarmanna. Þá er hvergi til hér á landi sértækt tónlistarsafn þar sem finna mætti á einum stað muni og ritaðan fróðleik um þróun og sögu tónlistar.
    Stokkseyri og Eyrarbakki eru steinsnar frá mesta þéttbýli landsins og með væntanlegum Suðurstrandarvegi yrði safn þetta ágætlega í sveit sett í nýjum „menningarhring“ og hentaði vel jafnt skólanemendum sem almenningi. Með stofnun og starfrækslu þessa safns yrði tónlistinni í fyrsta sinn gert jafnhátt undir höfði og ýmsum öðrum menningargreinum þjóðarinnar og minningu þeirra sem ruddu brautina reistur veglegur minnisvarði.
    Æskilegt væri að stofnun og rekstur tónminjasafnsins væri sameiginlegt verkefni ríkis, sveitarfélagsins Árborgar, héraðsnefndar Árnessýslu og Byggðasafns Árnesinga. Því væri nauðsynlegt að þessir aðilar hefðu samstarf um verkið þegar í upphafi ásamt áhugahópi um þetta málefni.
    Menningartengd ferðaþjónusta verður æ vinsælli og er hluti af afþreyingu nútímamannsins. Heimsóknir ungs fólks í tónlistarnámi geta tengst safni sem þessu. Í safninu má hugsa sér tónleikahald og þar gæti einnig verið sýnishorn af hljóðfærum.
    Tekið skal fram að þær hugmyndir sem felast í þingsályktunartillögu þessari eru á engan hátt settar fram í samkeppni við hið merka Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði.