Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 291  —  68. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um skattafrádrátt og fríðindi starfsmanna ríkisins.

     1.      Hver var heildarupphæð frádráttarbærra greiðslna, sbr. 30. gr. laga nr. 75/1981, til starfsmanna ríkisins, innan lands og utan, á árunum 1998 og 1999 og hver er áætluð heildarupphæð slíkra greiðslna árið 2000? Óskað er eftir sundurliðun eftir því undir hvaða ákvæði 30. gr. laganna greiðslurnar falla.
    Um frádrátt almennra launþega frá tekjum sínum gilda ákvæði 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 30. gr. laganna mega menn draga frá tekjum skv. II. kafla laganna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, útgjöld á móti ökutækjastyrkjum, dagpeningum eða hliðstæðum endurgreiðslum sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.
    Með ökutækjastyrk er átt við þær greiðslur sem launþegi fær frá launagreiðanda fyrir að nota eigin bifreið í hans þágu. Hér getur bæði verið um að ræða að greidd sé föst mánaðarleg eða árleg fjárhæð eða að greitt er samkvæmt kílómetragjaldi fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursdagbók eða akstursskýrslu. Frádrátt á móti ökutækjastyrk má færa ef bifreið launþega hefur sannanlega verið notuð vegna aksturs í þágu vinnuveitanda. Frádrátt má ekki færa hafi ökutækjastyrkur verið greiddur vegna ferða launþegans til og frá vinnu eða vegna annarra nota af bifreiðinni sem teldust til eigin nota hans. Sé kostnaður lægri en ökutækjastyrkur reiknast tekjuskattur og útsvar af mismuninum.
    Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum fengu 29.537 einstaklingar greiddar alls 3.784 millj. kr. í ökutækjastyrk árið 1998. Sama ár fengu 23.637 einstaklingar frádrátt á móti ökutækjastyrk að fjárhæð samtals 2.285 millj. kr. eða 60% af heild. Árið 1999 fengu 30.316 einstaklingar greiddar alls 4.109 millj. kr. í formi ökutækjastyrkja. Sama ár fengu 24.047 einstaklingar frádrátt á móti sömu styrkjum að fjárhæð samtals 2.594 millj. kr. eða 63% af heild.
    Dagpeningar eru greiddir vegna tilfallandi ferðalaga launþega á vegum launagreiðanda utan fasts samningsbundins vinnustaðar. Þeim er ætlað að standa undir kostnaði launþegans vegna fjarveru frá heimili sínu, annars vegar vegna gistikostnaðar, ef um hann er að ræða, og hins vegar vegna fæðiskaupa og annars tilfallandi kostnaðar sem af ferðinni hlýst. Á móti fengnum dagpeningum er launamönnum heimilt að færa frádrátt samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra.
    Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum fengu alls 19.744 einstaklingar greidda dagpeninga að fjárhæð 3.675 millj. kr. vegna ferðalaga innan lands og utan árið 1998. Frádráttur á móti dagpeningum umrætt ár nam samtals 3.500 millj. kr. hjá 18.846 einstaklingum. Árið 1999 fengu 20.935 einstaklingar greidda dagpeninga að fjárhæð 4.079 millj. kr. Frádráttur vegna dagpeninga árið 1999 nam 3.893 millj. kr. hjá 20.051 einstaklingi.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu stór hluti af framangreindum fjárhæðum tilheyrir ríkisstarfsmönnum sérstaklega. Stafar það fyrst og fremst af því að þetta er fært með misjöfnun hætti hjá einstökum stofnunum og það eru ekki allar stofnanir sem nýta bókunarkerfi Ríkisbókhalds. Það myndi kosta verulega vinnu og vera mjög tímafrekt að sundurgreina fyrirliggjandi upplýsingar til þess að hægt væri að svara því af einhverri nákvæmni.

     2.      Hvert var heildarverðmæti fríðinda sem starfsmenn ríkisins nutu og ekki teljast til endurgjalds fyrir vinnu, starf eða þjónustu í þágu ríkisins árið 1999 og hvert er heildarverðmæti þessara fríðinda það sem af er árinu 2000?
    Ekki er ljóst af spurningunni hvað við er átt með hugtakinu fríðindi í þessu samhengi, en almennt má segja að starfsmenn ríkisins njóti engra slíkra greiðslna sem ekki geta talist endurgjald fyrir vinnu, starf eða þjónustu í þágu ríkisins.