Ferill 271. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 299  —  271. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bókaútgáfu.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja markvissar aðgerðir til þess að styrkja stöðu bókarinnar og efla bókaútgáfu á Íslandi. Markmiðið með aðgerðunum verði að efla íslenska tungu og glæða menntun og menningu þjóðarinnar jafnframt því að örva ritun bóka og bæta lestrarhæfni og aðstöðu til náms. Enn fremur verði haft að markmiði að auka atvinnustarfsemi tengda prentun, útgáfu og sölu bóka. Skipaður verði starfshópur sem móti tillögur um aðgerðir til eflingar bókinni. Í starfshópnum verði m.a. fulltrúar menntastofnana, námsmanna, kennara, aðila prentiðnaðarins, bókaútgefenda, neytenda og launþega. Hópurinn skili tillögum sínum fyrir árslok 2001.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 120., 121., 122. og 125. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga.
    Ótvíræðar vísbendingar vitna um að óheillavænleg áhrif sæki að íslenskri tungu og að hún muni eiga í harðnandi samkeppni. Málsamfélag þjóðarinnar verður þá í hættu. Staða bókarinnar kann að ráða úrslitum um þessa þróun en á síðustu árum hefur bóklestur dregist saman, lestrarkunnáttu hefur hrakað, skilningur ungs fólks á rituðu máli hefur rýrnað, ritun bóka hefur dalað, bókaútgáfa hefur verið á undanhaldi, útgefnum titlum hefur fækkað, bóksala hefur minnkað og bókakostnaður námsmanna hefur aukist. Áhrif þessa hafa einnig verið alvarleg fyrir prentun, bókaútgáfu og annað atvinnulíf sem bókum tengist.
    Íslensk tunga er sá stofn sem ber uppi íslenska menningu. Án rótfastrar og lifandi tungu eru Íslendingar sviptir þeim sérkennum og þeirri samkennd sem æ fleiri þjóðir gera sér grein fyrir að er nauðsynleg um leið og þær vilja auka samstarf hver við aðra. Íslendingar vilja flestir taka þátt í slíku samstarfi og njóta þeirra jákvæðu áhrifa sem menning annarra þjóða getur haft á þjóðlíf okkar. Við þurfum að geta tekið fullan þátt í alþjóðasamskiptum en jafnframt haldið einkennum okkar og gróskumikilli menningu.
    Stórar og öflugar þjóðir svo sem Frakkar, Bretar, Norðmenn og fleiri leggja ofuráherslu á sérkenni og fegurð þjóðtungu sinnar og telja nauðsynlegt að verja málsamfélög sín með stuðningi við bókina.
    Bókin flytur þá næringu sem tungunni og menningunni er nauðsynleg. Skammsýni og andvaraleysi getur leitt til óheillaþróunar sem ekki verður við snúið, jafnvel þó að miklum fjármunum yrði til kostað. Aðgerðir til þess að styrkja stöðu bókarinnar eru því aðkallandi.