Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 313  —  284. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 4. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.

2. gr.

    Við 2. mgr. 19. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 25/2000, bætist: og samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 25. mars 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, sem nauðsynlegar eru vegna þátttöku Íslands í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 en samstarf á grundvelli þess samnings er liður í Schengen- samstarfinu. Dyflinnarsamningurinn er birtur sem fylgiskjal með frumvarpinu. Hér á eftir (í II. kafla) verður gerð nánari grein fyrir Dyflinnarsamningnum.
    Í 7. kafla II. bálks samnings frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 (Schengen-samningsins) er fjallað um hvaða þátttökuríki ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli sem lögð er fram á Schengen-svæðinu. Með samningi milli aðildarríkja Evrópusambandsins um sama efni, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990 (Dyflinnarsamningnum), hefur þessi kafli Schengen-samningsins verið leystur af hólmi.
    Aðild Íslands að Schengen-samstarfinu byggist á samningi milli Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um þátttöku síðargreindu landanna í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999 (Brussel-samningnum). Í 7. gr. þess samnings er gert ráð fyrir að samið verði milli Evrópusambandsins og landanna tveggja um ábyrgð á meðferð hælisbeiðna og er slíkt samkomulag forsenda fyrir þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu. Samningaviðræðum um þátttöku landanna í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins er ekki lokið.

II.

    Dyflinnarsamningurinn hefur að geyma ákvæði um í hvaða ríki eigi að fjalla um umsókn um hæli þegar vafi leikur á hvar slík umsókn skuli tekin til meðferðar. Samningnum er ætlað að tryggja að umsókn hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og koma í veg fyrir að umsækjandi verði sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Með samningnum er því bætt réttarstaða þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu.
    Samkvæmt Dyflinnarsamningnum skal aðeins eitt ríki bera ábyrgð á meðferð beiðni um hæli. Í 4.–8. gr. samningsins eru nákvæmlega afmörkuð þau atriði sem ráða því hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðni hverju sinni. Einnig getur hvert aðildarríki tekið umsókn til meðferðar þótt því sé það ekki skylt, enda samþykki umsækjandi það. Þá færist ábyrgð á meðferð beiðni til þess ríkis.
    Komi fram beiðni um hæli í ríki sem ekki ber ábyrgð á meðferð málsins getur það óskað eftir því að umækjandi verði fluttur til ríkis þar sem taka ber málið til meðferðar. Skylt er að verða við slíkum tilmælum ef beiðni þar að lútandi berst innan sex mánaða frá því að beiðni um hæli var móttekin, sbr. 10. og 11. gr. samningsins. Einnig ber ríki sem ber ábyrgð á máli að taka aftur við umsækjanda um hæli eða útlendingi sem synjað hefur verið hælis ef sá sem í hlut á dvelur ólöglega í öðru aðildarríki, sbr. 10. og 13. gr. samningsins.
    Um meðferð á beiðni um hæli fer eftir reglum þess ríkis sem ber ábyrgð á meðferð umsóknar.
    Samkvæmt 15. gr. samningsins skulu aðildarríkin senda öðru aðildarríki eftir beiðni þær upplýsingar um einstök mál sem nauðsynlegar eru til að kanna hvort ríki beri ábyrgð á meðferð máls og til að meta umsókn um hæli. Þetta tekur bæði til upplýsinga um persónulega hagi umsækjanda og þær ástæður sem hann færði fyrir umsókn sinni. Einnig ber að veita upplýsingar um rökstuðning fyrir þeim ákvörðunum sem ríki kann að hafa tekið í máli viðkomandi umsækjanda.
    Í öllum tilvikum er miðlun upplýsinga háð samþykki umsækjanda og má aðeins fara fram milli þeirra stjórnvalda sem aðildarríkin hafa tilnefnt. Þá verður upplýsingum sem hefur verið miðlað einungis miðlað áfram til stjórnvalda og dómstóla sem ákveða hvaða ríki ber ábyrgð á beiðni og meta umsókn um hæli eða skuldbindingar samkvæmt samningnum.
    Ríki sem miðlar upplýsingum skal sjá um að þær séu nákvæmar og uppfærðar. Komi í ljós að aðildarríki hafi veitt ónákvæmar upplýsingar eða upplýsingar sem ekki hefði átt að veita skal viðkomandi ríki sem tók við upplýsingum skýrt frá því. Ber ríkjunum að leiðrétta þessar upplýsingar eða eyða þeim.
    Umsækjandi um hæli á samkvæmt beiðni rétt til að fá í hendur þær upplýsingar sem veittar hafa verið um hann meðan þær eru tiltækar. Ef hann sýnir fram á að þessar upplýsingar séu rangar eða ekki hafi átt að miðla þeim getur hann krafist þess að upplýsingar verði leiðréttar eða þeim eytt.
    Upplýsingar skulu ekki geymdar lengur en nauðsyn krefur með hliðsjón af tilgangi upplýsingaskipta. Viðkomandi aðildarríki skal þegar við á athuga nauðsyn þess að varðveita upplýsingar.
    Upplýsingar sem hefur verið miðlað skulu að minnsta kosti njóta sömu verndar og sambærilegar upplýsingar í því ríki sem við upplýsingum tekur.

III.

    Frumvarpið felur í sér viðeigandi breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum til að samræma þau þeim reglum sem gilda samkvæmt Dyflinnarsamningnum. Með frumvarpinu eru einungis lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum af því tilefni og er þeim ætlað að gilda frá því þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu hefst hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum sem fyrirhugað er að verði 25. mars 2001.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nýr málsliður bætist við 4. mgr. 10. gr. laganna þess efnis að útlendingur eigi ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins um að taka við honum. Þetta ákvæði er eingöngu sett til samræmis við meginefni Dyflinnarsamningsins en breytir í engu þeim reglum sem gilt hafa um rétt manna til að fá hæli hér á landi.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til viðbót við heimild í 2. mgr. 19. gr. laganna, sbr. lög nr. 25/2000, um heimild til að miðla upplýsingum um útlendinga til erlendra stjórnvalda þannig að sú heimild taki einnig til upplýsinga sem veita ber samkvæmt Dyflinnarsamningnum. Þetta ákvæði tekur mið af 15. gr. samningsins.



Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
um það, hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð
er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna.


    Hans hátign konungur Belgíu,
    hennar hátign drottning Danmerkur,
    forseti Sambandslýðveldisins Þýskalands,
    forseti lýðveldisins Grikklands,
    hans hátign konungur Spánar,
    forseti lýðveldisins Frakklands,
    forseti Írlands,
    forseti ítalska lýðveldisins,
    hans konunglega tign stórhertoginn af Lúxemborg,
    hennar hátign drottning Hollands,
    forseti portúgalska lýðveldisins,
    hennar hátign drottning Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands,
    sem hafa hliðsjón af því markmiði sem ákveðið var á fundi evrópska ráðsins í Strassborg 8. og 9. desember 1989, um samræmingu stefnu sinnar um veitingu hælis,
    sem hafa einsett sér, í samræmi við sameiginlegar mannúðarhefðir sínar, að veita flóttamönnum fullnægjandi vernd samkvæmt skilmálum Genfarsamnings frá 28. júlí 1951, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, um réttarstöðu flóttamanna, hér á eftir nefnd „Genfarsamningurinn“ og „New York-bókunin“,
    sem líta til þess sameiginlega markmiðs sem felst í landsvæði án innri landamæra þar sem sérstaklega frjáls för fólks er tryggð eins og kveðið er á um í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu eins og honum hefur verið breytt með einingarlögum Evrópu,
    sem er ljós nauðsyn þess, þegar stefnt er að þessu markmiði, að gera ráðstafanir til að hindra að upp komi aðstæður þar sem umsækjendur um hæli þurfa of lengi að velkjast í vafa um sennilegan árangur umsókna sinna, og umhugað um að tryggja öllum umsækjendum um hæli að umsóknir þeirra fái umfjöllun í einu aðildarríki og að séð verði til þess að umsækjendum um hæli verði ekki þráfaldlega vísað frá einu aðildarríki til annars án þess að neitt þeirra játi sig bært til að fjalla um umsókn um hæli,
    sem vilja halda áfram viðræðum við flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna til að ná ofangreindum markmiðum,
    sem hafa einsett sér að eiga náið samstarf um framkvæmd samnings þessa með ýmsum ráðum, þar á meðal með skiptum á upplýsingum,
    hafa ákveðið að gera með sér samning þennan og hafa í því skyni tilnefnt sem umboðsmenn sína með fullri heimild:
    hans hátign konungur Belgíu Melchior Wathelet varaforsætisráðherra, ráðherra dómsmála og ráðherra málefna lítilla og meðalstórra fyrirtækja og sjálfstæðra atvinnurekenda,
    hennar hátign drottning Danmerkur Hans Engell dómsmálaráðherra,
    forseti Sambandslýðveldisins Þýskalands dr. Helmut Rückriegel, sendiherra Sambandslýðveldisins Þýskalands í Dublin, Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Sambandslýðveldisins,
    forseti lýðveldisins Grikklands Ioannis Vassiliades innanríkisráðherra,
    hans hátign konungur Spánar José Luis Corcuera innanríkisráðherra,
    forseti lýðveldisins Frakklands Pierre Joxe innanríkisráðherra,
    forseti Írlands Ray Burke, dómsmála- og samgönguráðherra,
    forseti ítalska lýðveldisins Antonio Gava innanríkisráðherra,
    hans konunglega tign stórhertoginn af Lúxemborg Marc Fischbach, menntamála-, dómsmála- og stjórnsýsluráðherra,
    hennar hátign drottning Hollands Ernst Maurits Henricus Hirsch Ballin dómsmálaráðherra,
    forseti portúgalska lýðveldisins Manuel Pereira innanríkisráðherra,
    hennar hátign drottning Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands David Waddington innanríkisráðherra, sir Nicholas Maxted Fenn, KCMG, sendiherra Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í Dublin,
    sem hafa skipst á trúnaðarskjölum og fundið þau gild og í réttu formi, hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

1.     Í samningi þessum:
     a.      merkir „útlendingur“ hvern þann mann, sem ekki er ríkisborgari aðildarríkis,
     b.      merkir „umsókn um hæli“ beiðni útlendings um vernd aðildarríkis samkvæmt Genfarsamningnum, með vísan til þess að hann hafi réttarstöðu flóttamanns í merkingu 1. gr. þess samnings eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni,
     c.      merkir „umsækjandi um hæli“ útlending sem sótt hefur um hæli meðan ekki hefur enn verið tekin endanleg ákvörðun um umsókn hans,
     d.      merkir „umfjöllun um umsókn um hæli“ allar ráðstafanir vegna umfjöllunar, ákvarðanir og dómsúrlausnir þar til bærra yfirvalda varðandi umsókn um hæli, að frátalinni málsmeðferð til að ákvarða hvaða ríki beri að fjalla um umsókn um hæli samkvæmt samningi þessum,
     e.      merkir „dvalarleyfi“ hverja þá heimild, sem yfirvöld aðildarríkis gefa út, er veitir útlendingi rétt til dvalar á forráðasvæði þess, að frátöldum vegabréfsáritunum og dvalarleyfum um stundarsakir sem gefin eru út meðan fjallað er um umsókn um dvalarleyfi eða hæli,
     f.      merkir „komuáritun“ heimild eða ákvörðun aðildarríkis er gerir útlendingi kleift að koma til forráðasvæðis þess að öðrum komuskilyrðum uppfylltum,
     g.      merkir „gegnumfararáritun“ heimild eða ákvörðun aðildarríkis er gerir útlendingi kleift að fara um forráðasvæði þess eða um gegnumfararsvæði hafnar eða flugvallar að öðrum gegnumfararskilyrðum uppfylltum.
2.     Meta skal í ljósi þeirra skilgreininga, sem settar eru fram í f- og g-lið 1. mgr., hvers konar vegabréfsáritun um er að ræða.

2. gr.

    Aðildarríkin staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt Genfarsamningnum eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni, án þess að neinar takmarkanir séu gerðar varðandi staðarlegt gildi þeirra, svo og ásetning sinn um að eiga samstarf við flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd þeirra.

3. gr.

1.     Aðildarríkin skuldbinda sig til að fjalla um umsókn hvers þess útlendings um hæli, sem setur fram slíka umsókn á landamærum eða forráðasvæði þeirra.
2.     Fjalla skal um þessa umsókn af einu aðildarríki, sem ákvarða skal eftir þeim forsendum sem settar eru fram í samningi þessum. Þær forsendur, sem kveðið er á um í 4.–8. gr., skulu gilda í þeirri röð sem þær eru settar fram.
3.     Fjalla skal um þessa umsókn af því ríki eftir landslögum og þjóðréttarlegum skuldbindingum þess.
4.     Hvert aðildarríki á rétt á að fjalla um umsókn um hæli, sem útlendingur leggur fram við það, þrátt fyrir að því sé óskylt að fjalla um hana samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum, enda fallist sá á það, sem um hæli sækir.
    Skyldur þess aðildarríkis, sem ber að fjalla um umsóknina samkvæmt áðurgreindum forsendum, falla þá niður og færast til þess aðildarríkis sem lét í ljós vilja sinn til að fjalla um umsóknina. Hafi umsókn verið vísað til hins síðargreinda ríkis skal það skýra því ríki frá því, sem forsendurnar eiga við um.
5.     Hvert aðildarríki heldur rétti sínum til að senda umsækjanda um hæli til þriðja ríkis samkvæmt landslögum sínum eftir því sem kveðið er á um í Genfarsamningnum eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni.
6.     Málsmeðferð til ákvörðunar á hvaða aðildarríki beri að fjalla um umsókn um hæli samkvæmt samningi þessum skal hafin um leið og umsókn um hæli er fyrst lögð fram í aðildarríki.
7.     Nú er umsækjandi um hæli í öðru aðildarríki og leggur þar fram umsókn um hæli eftir að hafa afturkallað umsókn sína meðan ákvörðunar er leitað á því, hvaða ríki skuli fjalla um umsókn hans, og skal þá það aðildarríki sem sú umsókn um hæli var lögð fram við taka aftur við honum með þeim hætti sem í 13. gr. segir, með tilliti til þess að leitt verði til lykta hvaða ríki beri ábyrgð á því að fjalla um hælisumsóknina.
    Skylda þessi á ekki lengur við ef hælisumsækjandi hefur síðan yfirgefið forráðasvæði aðildarríkjanna í að minnsta kosti þrjá mánuði, eða hefur fengið dvalarleyfi í aðildarríki er gildir lengur en í þrjá mánuði.

4. gr.

    Eigi umsækjandi um hæli fjölskyldumeðlim í aðildarríki, sem viðurkennt er að hafi réttarstöðu flóttamanns í skilningi Genfarsamningsins eins og honum hefur verið breytt með New York-bókuninni, og dvelur ólöglega þar, ber því ríki að fjalla um umsókn hans, enda sé það vilji þeirra einstaklinga sem málið varðar.
    Viðkomandi fjölskyldumeðlimur má aðeins vera maki umsækjanda um hæli eða ógift barn umsækjandans sem er ólögráða og ekki hefur náð átján ára aldri, eða faðir eða móðir umsækjanda ef umsækjandi er sjálfur ógiftur og ólögráða og hefur ekki náð átján ára aldri.

5. gr.

1.     Hafi umsækjandi um hæli gilt dvalarleyfi ber aðildarríki því sem gaf út leyfið að fjalla um hælisumsókn hans.
2.     Hafi umsækjandi um hæli gilda vegabréfsáritun ber aðildarríki því sem gaf út vegabréfsáritunina að fjalla um hælisumsókn hans, nema við eftirtaldar aðstæður:
     a.      Hafi vegabréfsáritunin verið útgefin samkvæmt skriflegri heimild annars aðildarríkis, ber því aðildarríki að fjalla um hælisumsóknina. Ef aðildarríki leitar fyrst samráðs hjá miðlægu stjórnvaldi annars aðildarríkis, m.a. af öryggisástæðum, skal samþykki hins síðargreinda ekki talið fela í sér skriflega heimild í skilningi þessa ákvæðis.
     b.      Hafi umsækjandi um hæli gegnumfararáritun og leggur fram umsókn sína í öðru aðildarríki þar sem ekki er gerð til hans krafa um vegabréfsáritun, ber því aðildarríki að fjalla um hælisumsóknina.
     c.      Hafi umsækjandi um hæli gegnumfararáritun og leggur umsókn sína fram við það ríki sem áritunina gaf út, og það ríki hefur veitt viðtöku skriflegri staðfestingu sendiráðs eða ræðismanns þess aðildarríkis þar sem ákvörðunarstaður er, þess efnis að sá útlendingur sem fallið var frá áritunarkröfu gagnvart fullnægi skilyrðum til að mega koma til þess ríkis, ber síðargreinda ríkinu að fjalla um hælisumsóknina.
3.     Hafi umsækjandi um hæli fleiri en eitt gilt dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir, sem fleiri en eitt aðildarríki hafa gefið út, ber aðildarríkjunum að fjalla um hælisumsókn hans í þessari röð:
     a.      ríkið sem gaf út það dvalarleyfi sem veitir rétt til lengstrar dvalar, en sé gildistími allra dvalarleyfanna sá sami, það ríki sem veitti það dvalarleyfi er síðast rennur út,
     b.      séu hinar ýmsu vegabréfsáritanir af sama tagi, ríkið sem gaf út þá vegabréfsáritun sem síðast rennur út,
     c.      séu vegabréfsáritanirnar af mismunandi tagi, ríkið sem gaf út þá vegabréfsáritun sem lengst gildir, en séu gildistímar hinir sömu, það ríki sem gaf út þá vegabréfsáritun sem síðast rennur út. Ákvæði þetta skal ekki gilda ef umsækjandi hefur eina eða fleiri gegnumfararáritanir, sem útgefnar hafa verið gegn framvísun komuáritunar annars aðildarríkis. Í því tilviki ber það ríki ábyrgð á umfjölluninni.
4.     Hafi umsækjandi um hæli aðeins eitt eða fleiri dvalarleyfi sem runnið hafa út fyrir skemmri tíma en tveimur árum, eða eina eða fleiri vegabréfsáritanir sem runnið hafa út fyrir skemmri tíma en sex mánuðum, er gert hafa honum kleift að koma til forráðasvæðis aðildarríkis í raun, skulu ákvæði 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar gilda meðan útlendingurinn hefur ekki yfirgefið forráðasvæði aðildarríkjanna.
    Hafi umsækjandi um hæli eitt eða fleiri dvalarleyfi sem runnið hafa út fyrir lengri tíma en tveimur árum, eða eina eða fleiri vegabréfsáritanir sem runnið hafa út fyrir lengri tíma en sex mánuðum, er gert hafa honum kleift að koma til forráðasvæðis aðildarríkis, og útlendingurinn hefur ekki yfirgefið landsvæði bandalagsins, hvílir umfjöllunarskyldan á því aðildarríki sem umsóknin er lögð fram við.

6. gr.

    Þegar unnt er að sýna fram á að umsækjandi um hæli hafi ólöglega farið yfir landamæri aðildarríkis á landi, sjó eða í lofti frá ríki utan Evrópubandalaganna, ber því ríki sem hann kom til að fjalla um hælisumsóknina.
    Skylda þess ríkis fellur þó niður ef sýnt er fram á að umsækjandi hafi búið í því aðildarríki sem umsókn hans um hæli er lögð fram við, í að minnsta kosti sex mánuði áður en hann leggur fram umsókn sína. Sé svo ber hinu síðargreinda aðildarríki að fjalla um hælisumsóknina.

7. gr.

1.     Skylda til að fjalla um umsókn um hæli hvílir á því aðildarríki sem ber að hafa eftirlit með komu útlendingsins til landsvæðis aðildarríkjanna, nema útlendingurinn, eftir að hann hefur löglega komið til aðildarríkis, þar sem vegabréfsáritun fyrir hann er ekki krafist, leggi fram umsókn um hæli í öðru aðildarríki, þar sem vegabréfsáritunar er ekki heldur krafist fyrir hann til að mega koma þangað. Sé svo ber hinu síðargreinda aðildarríki að fjalla um umsókn hans um hæli.
2.     Þar til samningur aðildarríkjanna um fyrirkomulag um för yfir ytri landamæri öðlast gildi skal ekki líta svo á að aðildarríki sem heimilar gegnumför án vegabréfsáritunar um gegnumfararsvæði flugvalla sinna sé ábyrgt fyrir komueftirliti hvað varðar ferðamenn sem ekki yfirgefa gegnumfararsvæðið.
3.     Sé sótt um hæli þegar farið er um flugvöll aðildarríkis ber því aðildarríki að fjalla um umsóknina.

8. gr.

    Sé ekki unnt að ákvarða út frá öðrum forsendum sem tilgreindar eru í samningi þessum hvaða aðildarríki ber að fjalla um umsókn um hæli, ber því aðildarríki sem umsókn er lögð fram við að fjalla um hana.

9. gr.

    Hvert aðildarríki getur, enda þótt því beri ekki að fjalla um umsókn samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum, fjallað um umsókn um hæli að beiðni annars aðildarríkis af mannúðarástæðum, einkum með tilliti til fjölskyldu- og menningarsjónarmiða, enda standi vilji umsækjanda til þess.
    Ef aðildarríkið sem þannig er leitað til fellst á beiðnina flyst skylda til að fjalla um umsóknina til þess ríkis.

10. gr.

1.     Aðildarríki það sem fjalla ber um umsókn samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum skal:
     a.      Taka umsækjanda, sem lagt hefur fram beiðni um hæli í öðru aðildarríki, í sína umsjá samkvæmt því sem í 11. gr. segir,
     b.      ljúka umfjöllun um hælisumsóknina,
     c.      veita að nýju viðtöku eða taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir umsækjanda sem hefur lagt fram umsókn til umfjöllunar og dvelur ólöglega í öðru aðildarríki,
     d.      taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir umsækjanda er afturkallað hefur umsókn sem er til umfjöllunar og lagt fram umsókn í öðru aðildarríki,
     e.      taka aftur samkvæmt því sem í 13. gr. segir útlending sem fengið hefur synjun á umsókn sinni og dvelur ólöglega í öðru aðildarríki.
2.     Veiti aðildarríki umsækjanda dvalarleyfi sem gildir lengur en í þrjá mánuði flytjast þær skyldur, sem tilgreindar eru í a-e liðum 1. mgr. til þess aðildarríkis.
3.     Þær skyldur sem tilgreindar eru í a-d liðum 1. mgr. falla niður ef útlendingurinn hefur yfirgefið forráðasvæði aðildarríkisins í að minnsta kosti þrjá mánuði.
4.     Þær skyldur, sem tilgreindar eru í d-e liðum 1. mgr., falla niður ef ríki það, sem fjalla ber um umsókn um hæli, tekur og framfylgir nauðsynlegum ráðstöfunum til að senda útlendinginn aftur til heimalands síns eða annars lands sem hann fær löglega komið til, eftir að umsókn hans hefur verið afturkölluð eða hennar synjað.

11. gr.

1.     Telji aðildarríki sem umsókn um hæli hefur verið lögð fram við, að öðru aðildarríki beri að fjalla um umsóknina, getur það eins fljótt og unnt er og eigi síðar en innan sex mánaða eftir þann dag er umsókn var lögð fram, skorað á hitt aðildarríkið að taka umsækjanda í sína umsjá.
    Verði það ekki gert innan hins sex mánaða frests ber því ríki, þar sem umsóknin var lögð fram, að fjalla um umsóknina um hæli.
2.     Með beiðni um að umsækjandi sé tekinn í umsjá hins aðildarríkisins skulu fylgja upplýsingar er gera stjórnvöldum þess ríkis kleift að ganga úr skugga um hvort því beri að fjalla um umsókn samkvæmt þeim forsendum sem kveðið er á um í samningi þessum.
3.     Þegar ákvarðað er hvaða ríki beri að fjalla um umsókn samkvæmt þessum forsendum skal miða við stöðu máls þegar umsækjandi um hæli lagði fyrst fram umsókn sína við aðildarríki.
4.     Aðildarríki skal taka afstöðu til umsóknar um viðtöku innan þriggja mánaða frá því er áskorunin er sett fram. Bregðist það ekki við innan þess frests skal það talið jafngilt því að hún sé samþykkt.
5.     Flytja verður umsækjanda um hæli frá því aðildarríki þar sem umsókn er lögð fram og til þess aðildarríkis sem fjalla ber um umsóknina eigi síðar en einum mánuði eftir að beiðni um að taka hann í umsjá er samþykkt, eða einum mánuði eftir að meðferð kærumáls lýkur, er umsækjandi hefur átt frumkvæði að til að bera brigður á ákvörðun um flutning hans, hafi sú málsmeðferð frestunaráhrif.
6.     Ráðstafanir samkvæmt 18. gr. geta síðar ráðið þeirri málsmeðferð í einstökum atriðum, sem viðhöfð er til að taka umsækjanda í umsjá.

12. gr.

    Leggi umsækjandi fram umsókn um hæli til viðeigandi stjórnvalda aðildarríkis meðan hann er staddur á forráðasvæði annars aðildarríkis, skal það aðildarríki þar sem umsækjandi er staddur ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um umsókn hans um hæli. Það aðildarríki sem við umsókninni tekur skal án tafar skýra hinu síðargreinda aðildarríki frá umsókninni, og skal hvað framkvæmd samnings þessa snertir líta svo á að það aðildarríki sé aðildarríkið þar sem umsókn um hæli er lögð fram.

13. gr.

1.     Umsækjanda um hæli skal taka aftur í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. mgr. 3. gr. og 10. gr., eins og hér segir:
     a.      í beiðni um að umsækjandi sé tekinn aftur skulu vera skýringar, er gera því ríki sem hún er lögð fram við kleift að ákvarða hvort því beri að fjalla um umsóknina samkvæmt 7. mgr. 3. gr. og 10. gr.;
     b.      ríkið sem ætlast er til að taki umsækjanda aftur skal svara beiðninni innan átta daga frá því er málinu er vísað til þess. Viðurkenni það skyldu sína skal það taka umsækjanda aftur eins fljótt og unnt er og eigi síðar en einum mánuði eftir að það fellst á að gera það.
2.     Með ráðstöfunum sem gerðar eru samkvæmt 18. gr. má síðar kveða nánar á um með hverjum hætti taka skuli umsækjanda aftur.

14. gr.

1.     Aðildarríki skulu eiga með sér gagnkvæm samskipti með tilliti til:
    –    ráðstafana á sviði innlendrar löggjafar, stjórnsýslureglna eða starfshátta er varða hæli;
    –    tölfræðilegra upplýsinga um mánaðarlegar komur umsækjenda um hæli og sundurliðun þeirra eftir þjóðerni. Slíkar upplýsingar skal senda ársfjórðungslega fyrir milligöngu skrifstofu ráðs Evrópubandalaganna, sem sjá skal til þess að þær séu framsendar aðildarríkjum, framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna og flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.
2.     Aðildarríkin geta átt með sér gagnkvæm samskipti með tilliti til:
    –    almennra upplýsinga um nýja þróun varðandi hælisumsóknir;
    –    almennra upplýsinga um ástand í þeim löndum sem umsækjendur eru frá eða þaðan sem þeir koma.
3.     Vilji aðildarríki sem sendir upplýsingar samkvæmt 2. mgr. að þeim sé haldið leyndum skulu hin aðildarríkin virða það.

15. gr.

1.     Hvert aðildarríki skal senda hverju öðru aðildarríki sem þess óskar þær upplýsingar um einstök mál sem nauðsynlegar eru til að:
    –    ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um hælisumsókn,
    –    fjalla um hælisumsókn,
    –    framkvæma allar skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.
2.     Í þeim upplýsingum skulu aðeins vera:
    –    atriði sem varða persónu umsækjanda, og, þar sem við á, fjölskyldu hans (fullt nafn, og þar sem við á fyrra nafn, gælunöfn eða uppfundin nöfn, núverandi og fyrrverandi ríkisfang, fæðingardagur og fæðingarstaður),
    –    persónu- og ferðaskilríki (tilvísanir, gildi, útgáfudagur, útgáfustjórnvald, útgáfustaður o.s.frv.),
    –    aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sýna fram á hver umsækjandi er,
    –    dvalarstaðir og ferðaleiðir,
    –    dvalarleyfi og vegabréfsáritanir sem aðildarríki hefur útgefið,
    –    umsóknarstaður,
    –    hvenær fyrri umsókn var lögð fram, ef um það er að ræða, hvenær núverandi umsókn er lögð fram, hvaða stigi málsmeðferð hefur náð, og hvaða ákvörðun hefur verið tekin ef því er að skipta.
3.     Enn fremur getur aðildarríki farið þess á leit við annað aðildarríki að það skýri sér frá á hverju umsækjandi byggir umsókn sína, og, þar sem við á, rök fyrir þeim ákvörðunum, sem kunna að hafa verið teknar varðandi umsækjandann. Það ríki sem um upplýsingarnar er beðið hefur ákvörðunarvald um hvort þær verði látnar í té. Í öllum tilvikum er afhending umbeðinna upplýsinga háð samþykki hælisumsækjanda.
4.     Upplýsingaskipti þessi skulu fara fram að beiðni aðildarríkis og mega einungis eiga sér stað milli þeirra stjórnvalda sem hvert aðildarríki hefur tilnefnt og tilkynnt nefnd þeirri sem kveðið er á um í 18. gr.
5.     Upplýsingar þær sem skipst er á má aðeins nota í þeim tilgangi sem kveðið er á um í 1. mgr. Í hverju aðildarríki má aðeins senda slíkar upplýsingar þeim stjórnvöldum, dómstólum og úrskurðaraðilum sem falið er að:
    –    ákvarða hvaða aðildarríki beri að fjalla um hælisumsókn,
    –    fjalla um hælisumsókn,
    –    framkvæma allar skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.
6.     Aðildarríki það sem upplýsingarnar sendir skal sjá um að þær séu nákvæmar og uppfærðar.
    Ef í ljós kemur að það aðildarríki hafi veitt ónákvæmar upplýsingar eða upplýsingar sem ættu ekki að hafa verið veittar, skal aðildarríki því sem við þeim tekur þegar skýrt frá því. Þeim ber þá að leiðrétta upplýsingarnar eða eyða þeim.
7.     Umsækjandi um hæli á rétt til að fá í hendur, samkvæmt beiðni, þær upplýsingar sem skipst er á varðandi hann meðan þær eru tiltækar.
    Sýni umsækjandi fram á að upplýsingarnar séu ónákvæmar eða að ekki hefði átt að veita þær, á hann rétt á að fá þær leiðréttar eða þeim eytt. Réttar þessa skal neytt í samræmi við þau skilyrði sem kveðið er á um í 6. mgr.
8.     Í hverju aðildarríki sem um er að ræða skal skrá sendingu þeirra upplýsinga sem skipst er á og viðtöku þeirra.
9.     Upplýsingarnar skulu ekki geymdar lengur en nauðsyn krefur með tilliti til tilgangs upplýsingaskiptanna. Viðkomandi aðildarríki skal þegar við á fjalla um nauðsyn þess að þær séu geymdar.
10.     Hvernig sem á stendur skulu þær upplýsingar sem sendar eru njóta að minnsta kosti sömu verndar og veittar eru sambærilegum upplýsingum í því aðildarríki sem við þeim tekur.
11.     Ef úrvinnsla gagna fer ekki fram með sjálfvirkum hætti og þau sæta annarri meðhöndlun skal hvert aðildarríki gera viðeigandi raunhæfar eftirlitsráðstafanir til að tryggja að ákvæðum greinar þessarar sé fylgt. Ef aðildarríki hefur eftirlitsstofnun af því tagi sem fjallað er um í 12. mgr. má fela henni þetta eftirlitshlutverk.
12.     Vilji eitt eða fleiri aðildarríki tölvuvæða þær upplýsingar sem nefndar eru í 2.–3. mgr. að einhverju eða öllu leyti getur aðeins af því orðið ef viðkomandi ríki hafa leitt í landslög reglur um slíka gagnavinnslu í samræmi við Strassborgarsamning frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, og ef þau hafa falið viðeigandi ríkisstofnun að hafa sjálfstætt eftirlit með vinnslu og notkun gagna sem send eru samkvæmt samningi þessum.

16. gr.

1.     Hvert aðildarríki getur lagt fram við nefnd þá sem kveðið er á um í 18. gr. tillögur um endurskoðun samnings þessa í því skyni að bæta úr vandkvæðum við framkvæmd hans.
2.     Reynist nauðsynlegt að endurskoða eða breyta samningi þessum svo að náð verði þeim markmiðum sem kveðið er á um í 8. gr. a í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, sérstaklega ef samræming á stefnu um veitingu hælis og sameiginleg stefna varðandi vegabréfsáritanir er háð því að þeim markmiðum verði náð, skal það ríki sem fer með forsæti í ráði Evrópubandalaganna kalla nefnd þá, sem kveðið er á um í 18. gr., saman til fundar.
3.     Öll endurskoðun samnings þessa, svo og allar breytingar á honum, skulu samþykktar af nefnd þeirri sem kveðið er á um í 18. gr. Skal endurskoðun eða breyting öðlast gildi samkvæmt ákvæðum 22. gr.

17. gr.

1.     Ef aðildarríki verður fyrir alvarlegum erfiðleikum vegna verulegra breytinga á þeim aðstæðum sem ríkja við gerð samnings þessa getur það ríki borið málið fram fyrir nefnd þá sem kveðið er á um í 18. gr. svo hún geti lagt til við aðildarríkin aðgerðir til að bregðast við því ástandi eða samþykkt endurskoðun eða breytingar eins og nauðsynlegt virðist, og skal endurskoðun eða breyting öðlast gildi eins og kveðið er á um í 3. mgr. 16. gr.
2.     Vari það ástand, sem í 1. mgr. getur, enn að sex mánuðum liðnum, getur nefndin samkvæmt því sem í 2. mgr. 18. gr. segir heimilað því aðildarríki þar sem breytingin hefur áhrif sín tímabundna frestun á framkvæmd ákvæða samnings þessa, þó þannig að frestunin hamli ekki því að náð verði þeim markmiðum sem kveðið er á um í 8. gr. a í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu eða gangi gegn öðrum þjóðréttarlegum skuldbindingum aðildarríkjanna.
3.     Meðan á frestun stendur skal nefndin halda áfram umræðum sínum í því skyni að endurskoða ákvæði samnings þessa, hafi hún þá ekki þegar náð samkomulagi.

18. gr.

1.     Stofnuð skal nefnd þar sem í eiga sæti einn fulltrúi frá ríkisstjórn hvers aðildarríkis.
    Það aðildarríki sem er í forsæti í ráði Evrópubandalaganna skal veita nefndinni forstöðu.
    Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins getur tekið þátt í umræðum nefndarinnar og starfshópa þeirra sem fjallað er um í 4. mgr.
2.     Að beiðni eins eða fleiri aðildarríkja skal nefndin fjalla um öll almenn atriði varðandi framkvæmd eða túlkun samnings þessa.
    Nefndin skal ákvarða þær ráðstafanir sem fjallað er um í 6. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 13. gr., og veita heimildir samkvæmt 2. mgr. 17. gr.
    Nefndin skal samþykkja ákvarðanir um endurskoðun eða breytingar á samningi þessum samkvæmt 16. og 17. gr.
3.     Nefndin skal taka ákvarðanir sínar samhljóða, nema þegar hún starfar samkvæmt 2. mgr. 17. gr., en þá skulu ákvarðanir hennar teknar með tveimur þriðju hlutum atkvæða nefndarmanna.
4.     Nefndin skal setja sér starfsreglur, og getur hún sett á fót starfshópa.
    Skrifstofa ráðs Evrópubandalaganna skal annast skrifstofuhald fyrir nefndina og starfshópa hennar.

19. gr.

    Hvað konungsríkið Danmörk snertir skulu ákvæði samnings þessa ekki gilda um Færeyjar og Grænland nema konungsríkið Danmörk gefi yfirlýsingu um það. Slíka yfirlýsingu má hvenær sem er gefa með orðsendingu til ríkisstjórnar Írlands, sem skal tilkynna öðrum aðildarríkjum um hana.
    Hvað snertir lýðveldið Frakkland skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda á evrópsku forráðasvæði þess.
    Hvað snertir konungsríkið Holland skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda á evrópsku forráðasvæði þess.
    Hvað snertir Sameinaða konungsríkið skulu ákvæði samnings þessa aðeins gilda í Sameinaða konungsríkinu Stóra-Bretlandi og Norður-Írlandi. Þau skulu ekki gilda á landsvæðum í Evrópu, sem Sameinaða konungsríkið hefur fyrirsvar fyrir á sviði utanríkismála, nema Sameinaða konungsríkið gefi yfirlýsingu um það. Slíka yfirlýsingu má hvenær sem er gefa með orðsendingu til ríkisstjórnar Írlands, sem skal tilkynna öðrum aðildarríkjum um hana.

20. gr.

    Enga fyrirvara má gera við samning þennan.

21. gr.

1.     Hverju því ríki, sem gerist aðili að Evrópubandalögunum, er heimil aðild að samningi þessum. Aðildarskjöl skulu afhent ríkisstjórn Írlands til varðveislu.
2.     Gagnvart hverju því ríki sem gerist aðili að samningi þessum skal hann öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjal þess hefur verið afhent.

22. gr.

1.     Samningur þessi er háður fullgildingu, viðurkenningu eða samþykkt. Fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjöl skulu afhent ríkisstjórn Írlands til varðveislu.
2.     Ríkisstjórn Írlands skal tilkynna ríkisstjórnum annarra aðildarríkja um afhendingar fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjala.
3.     Samningur þessi skal öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykktarskjal undirritunarríkis er afhent.
    Ríki það sem fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarsjöl eru lögð fram við skal tilkynna aðildarríkjunum um gildistökudag samnings þessa.

    Til staðfestingar þessu hafa undirritaðir umboðsmenn undirritað þennan samning.
    Gjört í Dyflinni fimmtánda júní nítján hundruð og níutíu í einu frumriti á dönsku, ensku, frönsku, hollensku, grísku, írsku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og þýsku tungumáli og eru textarnir jafngildir og skulu varðveittir í skjalasafni írsku ríkisstjórnarinnar sem skal senda staðfest endurrit til hvers annars aðildarríkis.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965.

    Frumvarp þetta felur í sér breytingu á reglum um meðferð beiðna frá útlendingum um hæli hér á landi. Ekki er talið að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.