Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 327  —  203. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um vegasamband á Breiðamerkursandi.

     1.      Hvaða breytingar hafa orðið á strandlínu við Jökulsá á Breiðamerkursandi undanfarin 10 ár?
    Vegagerðin hefur framkvæmt árlegar mælingar á strandrofinu síðan 1991. Til viðbótar við þessar upplýsingar liggja síðan fyrir eldri kort og loftmyndir. Á sl. níu árum hefur rofið austan árinnar verið að meðaltali 4,3 m/ári þar sem það er mest (meðaltal yfir 1 km) og rofið vestan árinnar hefur verið að meðaltali 6,2 m/ári þar sem það er mest (meðaltal yfir 1 km). Þetta eru nokkuð lægri tölur en rofið hefur verið að meðaltali frá 1904, sem er u.þ.b. 8 m/ári, enda er eðlilegt að dragi úr rofhraðanum. Vegagerðin telur þó engu síður rétt að miða allar áætlanir við að rofið sé að meðaltali 8 m/ári.

     2.      Til hvaða aðgerða hefur Vegagerðin gripið á þessu tímabili til að hamla gegn eyðingu lands við brúna yfir Jökulsá?
    Vegagerðin hefur á undanförnum árum styrkt farveg Jökulsár með grjóti. Búið er að grjótverja árbotninn undir brúnni og 100 m ofan brúarinnar. Vesturbakka árinnar er búið að grjótverja frá lóni og niður að brú. Austurbakkann er búið að grjótverja frá grjótþröskuldinum, sem er 100 m ofan brúarinnar, og þar til komið er 100 m niður fyrir brúna. Ekki hefur verið gripið til aðgerða til að hamla gegn sjálfu strandrofinu.

     3.      Hverjar eru horfur fyrir Jökulsárbrú að mati ráðherra og Vegagerðarinnar?
    Vegagerðin hefur metið það svo að hægt eigi að vera að tryggja öryggi núverandi brúar yfir Jökulsá til a.m.k. ársins 2020. Þá er miðað við að hægt sé að verja brúna þar til ströndin er í 100 m fjarlægð frá brúnni og að rofhraðinn verði að meðaltali 8 m/ári. Þetta er mjög íhaldssöm spá því að vegasambandið er einkum viðkvæmt fyrir rofinu austan árinnar og á undanförnum níu árum hefur það mælst helmingi minna en hér er miðað við, sbr. svar við 1. lið.

     4.      Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að tryggja vegasamband á Breiðamerkursandi til frambúðar í ljósi aðstæðna?
    Á þessari stundu hefur ekki verið endanlega ákveðið til hvaða aðgerða verður gripið til að tryggja vegasamband á Breiðamerkursandi eftir árið 2020. Til greina kemur að hopa með veginn allt að 250 m inn í lónið. Vegfylling yrði þá byggð yfir syðsta hluta lónsins í um 400 m fjarlægð frá núverandi brú. Ný brú yrði þá væntanlega byggð yfir Jökulsá í gömlum farvegi árinnar þar sem vegfyllingin kemur að landi að austanverðu. Einnig kemur til greina að velja annan stað fyrir sjálfa brúna. Hægt yrði að verja þessa vegfyllingu og brúarstæði þó að ströndin hopaði um 600 m frá núverandi staðsetningu. Þessi lausn ætti því að duga í a.m.k. 75 ár (til ársins 2075). Þá er enn miðað við að hægt sé að verja brúna þar til ströndin er í 100 m fjarlægð frá brúnni og rofhraðinn verði að meðaltali 8 m/ári. Þetta er eins og áður segir íhaldssöm spá því að á undanförnum níu árum hefur strandrofið mælst talsvert minna en hér er miðað við.