Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 331  —  111. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kjartans Ólafssonar um fyrirhugað framtíðarskipulag raforkuframleiðslu og flutnings.

     1.      Hvaða áhrif munu þær breytingar á skipulagi raforkuframleiðslu og flutnings, sem fyrirhugaðar eru fyrir ársbyrjun 2002, hafa á markaðinn?
    Að undanförnu hefur verið unnið að endurskoðun löggjafar um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu orku hér á landi. Skipan raforkumála hefur víða um lönd tekið miklum breytingum á síðustu árum. Breytingarnar hafa að meginefni til falist í því að skilja í sundur annars vegar náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins eins og flutnings- og dreifikerfi raforku og hins vegar þá þætti þar sem samkeppni verður við komið eins og við framleiðslu og sölu á raforku. Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa.
    Árið 1996 skipaði iðnaðarráðherra ráðgjafarnefnd fulltrúa orkufyrirtækja, stjórnmálaflokka, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sem skyldi vera ráðherra til ráðgjafar við endurskoðun löggjafar um raforkumál. Nefndin lauk störfum í október 1996. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur m.a. fram að hún telji að núverandi skipan raforkumála hafi um margt reynst vel á síðustu áratugum. Taldi nefndin eigi að síður mikilvægt að móta framtíðarskipan raforkumála hér á landi með hliðsjón af reynslu annarra þjóða í þessum efnum, eftir því sem við á, sem byggist á því að virkja markaðsöflin í því skyni að auka hagkvæmni í raforkubúskapnum.
    Í kjölfar niðurstöðu ráðgjafarnefndarinnar mælti iðnaðarráðherra fyrir tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipan raforkumála (á 122. löggjafarþingi 1997–98) sem byggðist að verulegu leyti á starfi og tillögum nefndarinnar. Tillagan miðaðist við að skipulagi raforkumála yrði breytt á þann veg að sköpuð yrðu skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu á raforku. Þingsályktunartillagan hlaut töluverða umfjöllun á Alþingi. Var tillögunni í kjölfar umræðna vísað til iðnaðarnefndar sem tók hana til umfjöllunar. Meiri hluti iðnaðarnefndar lagði til að gerðar yrðu nokkrar breytingar á tillögunni til frekari áherslu og var hún þannig afgreidd frá iðnaðarnefnd. Þingsályktunartillagan hlaut hins vegar ekki afgreiðslu á 122. löggjafarþinginu.
    Í framhaldi af umfjöllun Alþingis um þetta mál skipaði þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd í nóvember 1998 til að fjalla um stofnun fyrirtækis til að sjá um flutning raforku frá virkjunum til dreifiveitna og stórnotenda. Sú nefnd skilaði áliti sínu í febrúar 2000 og var skýrsla um störf nefndarinnar, Framtíðarskipulag raforkuflutnings á Íslandi, gefin út af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í sama mánuði. Á fyrri hluta árs 1999 voru ýmsum hagsmunaaðilum kynnt drög að frumvarpi til nýrra raforkulaga sem unnið hafði verið að í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu um nokkurt skeið. Ýmsar athugasemdir bárust ráðuneytinu sem hafa verið til skoðunar. Frá upphafi þessa árs hefur vinnu verið fram haldið við að móta endanlegt frumvarp þar sem reynt hefur verið að taka tillit til fram kominna sjónarmiða í athugasemdum hagsmunaaðila.
    Flestar fyrirsjáanlegar breytingar á raforkuumhverfi okkar í þeim drögum að frumvarpi, sem nú er unnið að, taka mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 96/92 um innri markað fyrir raforku. Sú tilskipun felur í sér að raforkugeirinn verður í áföngum gerður að hluta innri markaðar Evrópusambandsins. Með henni skal tryggja öryggi í afhendingu raforku og auka samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku. Tilskipun 96/92 var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 26. nóvember 1999 og þar var Íslandi veittur tveggja ára aðlögunarfrestur til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar í íslensk lög. Þessi tveggja ára frestur tók gildi 1. júlí sl. þegar Ísland og Liechtenstein höfðu tilkynnt EFTA að stjórnskipulegum kröfum hefði verið fullnægt samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Því þurfa ný raforkulög að hafa tekið gildi og vera komin til framkvæmda í síðasta lagi 1. júlí árið 2002.
    Þær breytingar á raforkumarkaði sem eru fyrirsjáanlegar hér á landi eru helstar þær að samkeppni mun verða í framleiðslu og sölu á raforku en flutnings- og dreifikerfi raforku verða áfram rekin án samkeppni og þá háð opinberu eftirliti í rekstri sínum. Líklegt er að skammur tími líði frá gildistöku laganna þar til allir notendur raforku geti haft frjáls viðskipti við söluaðila og framleiðendur raforku. Af framansögðu er ljóst að með frjálsræði í viðskiptum ættu áhrif skipulagsbreytinganna að verða jákvæð fyrir raforkumarkaðinn, en hins vegar er enn alveg óljóst hver áhrif breytinganna kunna að verða á raforkuverð hér á landi. Þess er þó að vænta að aukin samkeppni og hagræðing í rekstri fyrirtækja á þessu sviði muni leiða til þess að raforkukaupendur njóti þess í lægra raforkuverði.

     2.      Hvenær verða tillögur að framtíðarskipulagi raforkumála lagðar fyrir Alþingi?
    Frumvarp til nýrra raforkulaga verður væntanlega lagt fram á Alþingi í janúar 2001.