Ferill 220. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 335  —  220. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um útselda þjónustu Siglingastofnunar við hafnir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er gjaldskrá útseldrar þjónustu Siglingastofnunar við hafnir, sundurgreind eftir tegund þjónustu á klukkustund?
     2.      Hvert er einingarverð á klukkustund fyrir framangreinda þjónustu ef reiknaðir eru eftirtaldir gjaldaliðir:
                  a.      stjórnunarkostnaður stofnunarinnar,
                  b.      skrifstofukostnaður,
                  c.      laun,
                  d.      launatengd gjöld,
                  e.      lífeyrissjóðsgjöld,
                  f.      húsnæðiskostnaður,
                  g.      bifreiða- og ferðakostnaður,
                  h.      tölvukostnaður (afskriftir og rekstur),
                  i.      kostnaður við yfirvinnu,
                  j.      símakostnaður,
                  k.      tryggingar?


    Sem svar við 1. lið fylgja hér með útsölutaxtar Siglingastofnunar Íslands. Útseld þjónusta við hafnir er einkum samkvæmt töxtum „Sérfræðiþjónusta A–D“ og „Þjónusta A“.
    Varðandi 2. lið er vísað til bæklings fjármálaráðuneytisins, „Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri ríkisstofnana“, sem var gefinn út í nóvember 1997. Í honum eru 3 stig fjárhagslegs aðskilnaðar skilgreind í rekstri stofnana ríkisins sem hafa með höndum þjónustu að hluta til eða öllu leyti í samkeppni við einkaaðila. Vægasta stigs fjárhagslegs aðskilnaðar er krafist ef tekjur af samkeppnisrekstri eru undir 5 millj. kr. eða markaðshlutdeild þess er undir 5% af skilgreindum markaði. Við þessar aðstæður er hinni opinberu stofnun gert að fylgja verðlagningu á markaði. Hluti af starfsemi hafnarsviðs fellur undir þessa skilgreiningu. Útsölutaxtar Siglingastofnunar Íslands fylgja verðlagningu markaðarins fyrir sambærilega þjónustu og hún veitir. Gerð er könnun tvisvar til þrisvar á ári á útsölutöxtum verkfræðistofa, iðnaðarmanna, skrifstofumanna, rannsóknarmanna, verkamanna, bílaleigubifreiða og annarra tækja á höfuðborgarsvæðinu. Útsölutaxtar Siglingastofnunar eru leiðréttir til samræmis við niðurstöðu þessarar könnunar. Taxtar Siglingastofnunar eru notaðir við útsölu á allri þjónustu auk þess sem þeir eru notaðir til þess að meta framlag til lögbundinna verkefna. Tölur úr rekstri sýna að útseld þjónusta er ekki niðurgreidd af öðru rekstrarfé stofnunarinnar. Í stuttu máli taka útsölutaxtar stofnunarinnar mið af verðlagningu markaðarins en eru ekki reiknaðir né sundurliðaðir eftir kostnaði eins og gengið er út frá í fyrirspurninni.


TAXTAR – innlend verkefni
frá 1. mars 2000

Taxtanúmer

Starf
Taxti 
1 SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTA A 5.310
2 SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTA B 4.480
3 SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTA C 3.980
4 SÉRFRÆÐIÞJÓNUSTA D 3.560
5 ÞJÓNUSTA A 2.240
6 ÞJÓNUSTA B 1.990
7 ÞJÓNUSTA C 1.620
8 VERKAMENN A 1.110
9 VERKAMENN B 880