Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 381  —  222. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um tíðni fjarvista opinberra starfsmanna.

     1.      Hefur fjármálaráðuneytið látið kanna tíðni fjarvista opinberra starfsmanna síðustu tíu ár og ástæður þeirra?
    Af hálfu fjármálaráðuneytis hefur hvorki verið könnuð tíðni fjarvista opinberra starfsmanna síðustu tíu ár né ástæður þeirra. Hverri ríkisstofnun er ætlað að fylgjast með fjarvistum starfsmanna sinna og ástæðum þeirra. Fjármálaráðuneytið hefur í því skyni útbúið og sent ríkisstofnunum eyðublöð, en hefur hvorki kallað eftir fjarvistarskrám í heild sinni né samantekt úr þeim.
    Stærri stofnanir, svo sem Landspítalinn – háskólasjúkrahús, vinna bæði mánaðarlega og árlega gögn úr fjarvistaskrám sem þær nýta við innra eftirlit.

     2.      Ef svo er ekki, hyggst ráðuneytið standa fyrir slíkri könnun?
    Engin áform eru um slíkt. Til þess að slík könnun hefði raunhæft gildi þyrfti hún að taka til fleiri en ríkisstarfsmanna.