Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 432  —  74. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 93/1995, um matvæli.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneyti, Elínu Guðmundsdóttur og Sjöfn Sigurgísladóttur frá Hollustuvernd ríkisins, Halldór Runólfsson yfirdýralækni, Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Öldu Möller, sjálfstætt starfandi ráðgjafa, Friðrik Blomsterberg frá SÍF og Finn Garðarsson frá SH- þjónustu.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Læknafélagi Íslands, Öldu Möller, SH-þjónustu, Samtökum fiskvinnslustöðva og SÍF.
    Einnig ákvað nefndin að styðjast við umsagnir frá 125. löggjafarþingi en þá bárust umsagnir frá Manneldisráði Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, rannsóknarþjónustunni Sýni ehf., Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, yfirdýralækni, Rannsóknarráði Íslands, Félagi heilbrigðisfulltrúa, Hollustuvernd ríkisins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Iðntæknistofnun, Fiskistofu og umhverfisráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytis gerði tillögur um í kjölfar alvarlegra tilvika kampýlóbakter-sýkingar árið 1999 sem rakin voru til neyslu matvæla. Markmið breytinganna er að draga úr kampýlóbakter-mengun í matvælum og sýkingum af völdum kampýlóbakter í mönnum, m.a. með því að auka fræðslu, eftirlit og vöktun. Með breytingunum er í fyrsta lagi lagt til að hlutaðeigandi ráðherra, umhverfisráðherra, landbúnaðarráðherra eða sjávarútvegsráðherra eftir því um hvers konar eftirlit er að ræða, geti sett reglur þess efnis að þeir sem starfi við framleiðslu og dreifingu matvæla sæki námskeið um meðferð þeirra. Þrátt fyrir að um heimildarákvæði sé að ræða gengur nefndin út frá því að viðkomandi ráðherra muni setja slíkar reglur þar sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að mikið skorti á að þeir sem starfa við matvælaframleiðslu hér á landi hafi til þess nægjanlega þekkingu eða hljóti fullnægjandi fræðslu áður en þeir taka til starfa. Þar sem námskeið hlýtur að taka mið af viðkomandi starfsemi þyrfti í reglunum m.a. að taka fram hvernig slík námskeið skuli vera og hverjum sé skylt að sækja þau. Til að markmið frumvarpsins náist er nauðsynlegt að tryggja að varúðar sé gætt við meðferð matvæla og að viðkomandi starfsmenn séu vel upplýstir í þeim efnum en setning fyrrnefndra reglna er mikilvægur þáttur þess.
    Í öðru lagi er tekinn af allur vafi um að eftirlitsaðilum sé einnig skylt að vinna að því að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og þeir skuli eins fljótt og kostur er grípa til viðeigandi ráðstafana ef vart verður matarsjúkdóma eða smithættu.
    Þá er lagt til að sú skylda verði lögð á eftirlitsaðila, matvælafyrirtæki og þá sem starfa að rannsóknum og greiningu á matvælum að tilkynna hlutaðeigandi stofnunum ef hætta getur stafað af matvælum, enda sé um að ræða sjúkdóma sem ógnað geta almannaheill og eru nú þegar tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997. Í umsögnum um málið hefur verið bent á að ef slík skylda verður lögð á þá sem annast rannsóknir og greiningu matvæla muni það hafa í för með sér trúnaðarbrest milli viðkomandi aðila. Þar sem tilkynningarskyldan er takmörkuð við ákveðna alvarlega sjúkdóma sem varðað geta almannaheill telur nefndin nauðsynlegt að rannsóknaraðilar og aðrir er starfa að greiningu matvæla verði ekki undanþegnir þessari skyldu, enda er það í eðlilegu samræmi við skyldur lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna samkvæmt fyrrnefndum sóttvarnalögum og skyldur dýralækna samkvæmt lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, að tilkynna til yfirvalda ef þeir uppgötva sýkingar sem geta verið skaðlegar fólki. Hins vegar tekur nefndin fram að þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim bera fyrst og fremst ábyrgð á því að tryggja í starfsemi sinni að matvæli valdi ekki heilsutjóni og hvorki tilkynningarskylda annarra né áréttuð skylda eftirlitsaðila dregur úr þeirri ábyrgð.
    Loks eru lagðar til breytingar á frumvarpinu til samræmis við kröfur sem gerðar eru um lagaheimildir fyrir þjónustugjöldum.
    Þá telur nefndin rétt að benda á að brátt er þörf á heildarendurskoðun laganna í ljósi breytinga á matvælalöggjöf í Evrópu. Fyrr á þessu ári gaf Evrópusambandið út svokallaða Hvítbók (White Paper on Food Safety) en í henni greinir m.a. að innan skamms sé stefnt að nýrri löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd af hálfu Evrópusambandsins og að stofnuð verði ný matvælastofnun í Evrópu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 2. gr. Í stað orðsins „matvælafyrirtæki“ komi: þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim.

    Kolbrún Halldórsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. des. 2000.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Ásta Möller.



Katrín Fjeldsted.


Gunnar Birgisson.


Jóhann Ársælsson.