Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 434  —  334. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eyðingu villts minks og rannsóknir á minkastofninum.

Flm.: Árni Gunnarsson, Ólafur Örn Haraldsson,


Drífa Hjartardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að skipa nefnd sem geri tillögur um stórauknar aðgerðir til eyðingar villiminks. Jafnframt verði nefndinni falið, í samvinnu við veiðistjóraembættið, að gera tillögur um fjármögnun aukinna minkaveiða og frekari rannsókna á minkastofninum og áhrifum hans á íslenska náttúru. Nefndin verði skipuð fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands og embætti veiðistjóra.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram til að vekja athygli á alvarlegu ástandi sem skapast með fjölgun minka í íslenskri náttúru og gera tillögur til úrbóta. Flest bendir til þess að minkurinn sé mun meiri vágestur í lífríkinu en hingað til hefur verið talið og er ljóst að hefja þarf nýja sókn í veiðum á mink til að halda stofninum niðri. Samhliða því þarf að auka rannsóknir.
    Landnám minks hér má rekja til eldisdýra sem sluppu úr búum loðdýraræktenda á fyrri hluta 20. aldar. Saga villts minks á Íslandi er því ekki nema nokkurra áratuga löng. Fyrstu staðfestu tölur um veiði minks frá veiðistjóraembættinu eru frá 1957 en þá veiddust rúmlega 1.800 dýr. Árið 2000 er gert ráð fyrir að veiddir verði um 6.350 minkar. Lauslega má áætla að sveitarfélög greiði veiðimönnum um 30 millj. kr. á þessu ári fyrir minkaveiðar. Af þeirri upphæð endurgreiðir ríkið helming.
    Náttúruvísindamenn og veiðimenn eru sammála um að flest bendi til að minkastofninn hér á landi stækki enn. Þetta merkja menn m.a. af því að minkagreni finnast nú lengra inn í landi og fjær ám og vötnum en verið hefur. Einnig hefur komið í ljós í rannsóknum á afföllum rjúpu að minkurinn er meiri valdur að afföllum hennar en menn höfðu gert ráð fyrir. Tiltölulega litlar upplýsingar liggja fyrir um íslenska minkastofninn. Þannig hafa menn t.d. ekki treyst sér til að meta stofnstærðina, né heldur hversu mikið þarf að veiða af mink á ári til að hefta útbreiðslu hans. Í veiðidagbók 2000 segir veiðistjóri um minkaveiðina: „Í þeim tilraunum okkar að halda minkastofninum niðri erum við í besta falli á skipulögðu undanhaldi, í versta falli er stríðið tapað með núverandi aðferðum.“
    Miklir hagsmunir eru í húfi. Ekki einungis fyrir æðarbændur, veiðiréttarhafa í ám og vötnum og aðra er horfa upp á beint tekjutap vegna búsifja af völdum minks. Frekari útbreiðsla minks getur haft mjög skaðleg áhrif á ýmsa fuglastofna hér á landi. Í Finnlandi eru stundaðar ítarlegar rannsóknir á skaðsemi minks í finnska skerjagarðinum en þær hafa meðal annars leitt í ljós að minkur hefur veruleg áhrif á afkomu andartegunda og minni sjófugla á svæðinu.