Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 471 – 215. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Í 3. gr. laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, nr. 38/1998, segir að sjávarútvegsráðherra skuli fyrir 1. nóvember árið 2000 leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir árið 2000. Þrátt fyrir þetta ákvæði hefur sjávarútvegsráðherra lagt til með frumvarpi að lögin um norsk-íslenska síldarstofninn verði áfram í gildi. Frestun þess að leggja fram nýtt frumvarp um veiðarnar byggir hann á þeirri forsendu að sú efnislega endurskoðun sem mælt er fyrir um í 3. gr. laganna verði framkvæmd samhliða heildstæðri endurskoðun sem nú er unnið að á lögum um stjórn fiskveiða á vegum nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXVII í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990. Norsk-íslenski síldarstofninn er hins vegar deilistofn og ættu veiðarnar því að fara fram skv. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996. Þingmenn Samfylkingarinnar leggja til, í sérstöku frumvarpi, sbr. þskj. 429, 330. mál, breytingar á 5. gr. þeirra laga til samræmis við það sem Samfylkingin leggur til varðandi úthlutun aflaheimilda í lögunum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, sbr. þskj. 428, 329. mál.
    Eins og alkunna er voru veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum ekki stundaðar svo neinu næmi í yfir 30 ár. Á síðustu árum hefur orðið þar breyting á. Norsk-íslenski síldarstofninn hefur verið í framför eftir langvarandi lægð. Með samningum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóðanna á norðanverðu Atlantshafi hafa Íslendingar tryggt sér veiðiréttindi úr stofninum á hafsvæðunum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Vegna þess hve langur tími leið frá því að síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum var ekki á veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem tekið hefur þátt í veiðunum. Síldveiðiskipin, sem veiðarnar stunduðu fyrir þrjátíu árum, hafa flest horfið úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra eru hættar störfum. Það fyrirkomulag sem gilt hefur við veiðarnar á undanförnum árum hefur verið til bráðabirgða, sbr. fyrrgreint ákvæði 3. gr. laga nr. 38/1998, að sjávarútvegsráðherra skuli fyrir 1. nóvember árið 2000 leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Bráðabirgðaástandi varðandi fyrirkomulag veiðanna var heldur ekki ætlað að skapa grunn að fastri aflahlutdeild, sbr. álit meiri hluta sjávarútvegsnefndar við afgreiðslu frumvarps til laga um veiðar utan lögsögu, 57. mál á 121. þingi, þar sem segir í nefndaráliti meiri hlutans: „Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn



Prentað upp á ný.

að fastri aflahlutdeild.“ Ástæða þykir til að árétta þetta hér því útvegsmenn virðast almennt ganga að því sem vísu að þeir séu að ávinna sér rétt til úthlutunar samkvæmt veiðireynslu þegar þar að kemur.
    Annar minni hluti sjávarútvegsnefndar telur að löngu sé tímabært að skipa þessum málum til frambúðar og skapa veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum lagaramma og starfsumhverfi þannig að útgerðir þeirra viti að hverju þær ganga. Skoðun 2. minni hluta er að um veiðarnar eigi að gilda lögin um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996 og að veiðarnar verði boðnar út. Þessi stefna er í samræmi við þá stefnu Samfylkingarinnar að bjóða eigi út nýtingu takmarkaðra gæða sem eru í þjóðareign eða þjóðarforsjá.
    Annar minni hluti mun því ekki styðja frumvarp sjávarútvegsráðherra um framlengingu gildandi laga.

Alþingi, 7. des. 2000.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Jóhann Ársælsson.