Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 495  —  347. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á árunum 2001–2003 skal verja ákveðinni fjárhæð úr Atvinnuleysistryggingasjóði til átaks í fræðslumálum ófaglærðra samkvæmt samkomulagi milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins annars vegar og Verkamannasambands Íslands hins vegar.
    Fjárhæð framlagsins ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Undir lok kjarasamninga síðastliðið vor milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins annars vegar og Verkamannasambands Íslands hins vegar var gert samkomulag um þriggja ára átak í fræðslumálum ófaglærðra. Þá gerðu félagsmálaráðherra og forvígismenn atvinnurekenda samkomulag um að í stað þess að greitt yrði í fræðslusjóði sem stæðu undir þessu átaki með álagsprósentu á laun, líkt og tíðkast hefur hjá fjölmörgum stéttum, rynni ákveðið fjármagn á árunum 2001–2003, alls 200 millj. kr., úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fræðslusjóðanna.
    Fræðslusjóðirnir eru tveir og eiga álíka margir aðild að þeim. Á hinn bóginn er ljóst að kostnaður við fræðslustarfið er af landfræðilegum ástæðum meiri hjá fræðslusjóði Samtaka atvinnulífsins og Verkamannasambandsins (Landsmennt) og því var honum ætlað heldur meira fé en fræðslusjóði samtakanna og Flóabandalagsins (Starfsafli).
    Þannig er gert ráð fyrir að á árinu 2001 renni 104 millj. kr. til sjóðanna (50 millj. kr. til Starfsafls, 54 millj. kr. til Landsmenntar), 53 millj. kr. árið 2002 (25. millj. kr. til Starfsafls, 28 millj. kr. til Landsmenntar) og 43 millj. kr. árið 2003 (15. millj. kr. til Starfsafls, 28 millj. kr. til Landsmenntar).
    Á móti greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði greiða stéttarfélögin sem mynda Flóabandalagið og stóðu að samkomulaginu 10 millj. kr. á ári til verkefnisins. Stéttarfélögin í Verkamannasambandinu greiða einnig 10 millj. kr. á ári í sjóðinn.
    Frumvarpi þessu er ætlað að setja fyrirkomulaginu lagastoð svo að fræðslusjóðunum verði tryggt fjármagn úr Atvinnuleysistryggingasjóði.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.

    Frumvarpi þessu er ætlað tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði heimild til að verja ákveðinni fjárhæð til að styrkja átak í fræðslumálum ófaglærðra samkvæmt samkomulagi milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins annars vegar og Verkamannasambandsins hins vegar. Skal fjárhæðin ákveðin í fjárlögum ár hvert.
    Í greinargerð er vísað til samkomulags milli félagsmálaráðherra og forvígismanna atvinnulífsins um að greiddar verði alls 200 m.kr. af mörkuðum tekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs til þessa verkefnis á árunum 2001–2003.