Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 502  —  287. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um eignarhluti í Landsvirkjun.

     1.      Hverjir eru eigendur Landsvirkjunar og hver er eignarhlutur hvers þeirra?
    Í 1. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, segir að Landsvirkjun sé sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Eignarhlutir eigenda í fyrirtækinu skiptast á eftirfarandi hátt:

    Ríkið     50,000%
    Reykjavíkurborg     44,525%
    Akureyrarbær     5,475%

     2.      Hvaða eignir lögðu eigendurnir fram fyrir sínum eignarhlut, hvenær var það gert og hvert er núvirði eignanna miðað við andvirði þeirra þegar þær voru lagðar inn í Landsvirkjun?
    Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí 1965 og var fram til 1. júlí 1983 í helmingseigu ríkisins og Reykjavíkurborgar. Í upphafi lögðu eigendurnir fram eftirfarandi eignir til fyrirtækisins:

     Ríkið:
    Eignarhlut í Sogsvirkjun ásamt vatnsréttindum.
    Vatnsréttindi í Þjórsá og undirbúningskostnað vegna Búrfellsvirkjunar.
    
    Reykjavíkurborg:
    Eignarhlut í Sogsvirkjun ásamt vatnsréttindum.
    Eimhverfilsstöð borgarinnar við Elliðaár og spennistöð ásamt tilheyrandi lóðum.
    
    Einnig lögðu þessir eigendur fram fé á árunum 1966, 1972, 1974, 1975, 1976, 1979 og 1980 til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins.
    Hinn 1. júlí 1983 varð Akureyrarbær eignaraðili að Landsvirkjun og lagði fram eignarhlut sinn í Laxárvirkjun. Jafnframt lagði ríkið, sem átti 35% í Laxárvirkjun, sinn hluta til Landsvirkjunar.
    Á verðlagi í september 2000 nema uppsöfnuð og endurmetin eiginfjárframlög 16,7 milljörðum króna.

     3.      Hvaða greiðslur hefur Landsvirkjun innt af hendi til eignaraðila? Tegundir greiðslna og upphæðir á núvirði óskast tilgreindar.
    Landsvirkjun greiddi eigendum sínum árlega arð á árunum 1986–1991 og nema þær greiðslur á verðlagi í september sl. 675 millj. kr. Í samræmi við eigendasamkomulag frá 28. október 1996 skal eigendum reiknaður 5,5% árlegur arður af eigendaframlögum. Útreiknaður arður hefur á árunum 1997–2000 numið 3.884 millj. kr. Af þessari fjárhæð hafa verið greiddar út 959 millj. kr. en ógreiddum arði að fjárhæð 2.925 millj. kr. hefur verið bætt við eigendaframlög. Samtals nemur því útgreiddur arður á árunum 1986–2000 1.634 millj. kr.
    Landsvirkjun hefur á árunum 1988–2000 greitt eigendum sínum ábyrgðargjald vegna þeirra lána sem þeir eru í ábyrgð fyrir. Þetta gjald er greitt til ríkisins samkvæmt lögum en stjórn Landsvirkjunar ákvað að greiða Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ hliðstætt gjald, enda eru allir eignaraðilar Landsvirkjunar ábyrgir fyrir skuldbindingum fyrirtækisins, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um Landsvirkjun. Samtals hafa greiðslur ábyrgðargjaldsins numið 1.500 millj. kr. á verðlagi í september sl.

     4.      Hafa eigendur Landsvirkjunar á einhvern hátt notið betri kjara en almennir viðskiptavinir, og ef svo er, í hvaða formi og hver er heildarávinningur hvers eignaraðila á núvirði?
    Að öðru leyti en því sem fram kemur í svari við 3. lið fyrirspurnarinnar, hvað varðar arðgreiðslur og ábyrgðargjald, hafa eigendur Landsvirkjunar ekki notið betri kjara en aðrir viðskiptavinir fyrirtækisins.