Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 532  —  154. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hákon Sigurgrímsson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti. Þá bárust umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra loðdýraræktenda, Landssamtökum sauðfjárbænda, Landssambandi kúabænda, Bændasamtökum Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, yfirdýralækni, Dýraverndunarsambandi Íslands og Hundaræktarfélagi Íslands.
    Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á núverandi skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings dýra. Hins vegar er lagt til að ákvæði laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, verði aðlöguð því fyrirkomulagi á rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva sem komist hefur á og að landbúnaðarráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis. Með þeirri breytingu væri á engan hátt slakað á kröfum um sóttvarnir sem gildandi lög kveða á um. Að öðru leyti fela ákvæði frumvarpsins í sér aðlögun laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, að þeirri þróun löggjafar á þessu sviði sem orðið hefur frá því að lögin voru sett árið 1990.
    Nefndin vekur athygli á að í 11. gr. laga nr. 54/1990 segir: „Hreinræktun innfluttra kynja og blöndun þeirra við innlent búfé skal vera undir stjórn viðkomandi búfjárræktarnefnda sem starfa eftir lögum um búfjárrækt.“ Skv. 7. gr. frumvarpsins væri framangreindri setningu breytt á þann hátt að í stað orðanna „búfjárræktarnefnda sem starfa“ í 11. gr. laganna kæmi: fagráðs sem starfar. Þar sem lög um búfjárrækt, nr. 48/1989, voru leyst af hólmi með búnaðarlögum, nr. 70/1998, væri um tilvísun í brottfallin lög að ræða að óbreyttu.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Einar Oddur Kristjánsson og Guðmundur Árni Stefánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    7. gr. orðist svo:
    Í stað orðanna „búfjárræktarnefnda sem starfa eftir lögum um búfjárrækt“ í 11. gr. laganna kemur: fagráðs sem starfar samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998.

Alþingi, 13. des. 2000.



Hjálmar Jónsson,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Jónína Bjartmarz.



Jónas Hallgrímsson.


Drífa Hjartardóttir.


Prentað upp.