Ferill 368. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 583  —  368. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    

Breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996.
1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, 7. tölul., svohljóðandi:
     7.      Safnskráning: Þjónusta verðbréfafyrirtækis sem felur í sér að fyrirtækinu er heimilt að halda utan um eignir viðskiptamanna sinna á eigin reikningi (safnreikningi) og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptamanna sinna frá einstökum útgefendum verðbréfa.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skal halda fjármunum og verðbréfum viðskiptamanna tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins. Skulu fjármunir viðskiptamanns varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi.
     b.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Verðbréfafyrirtæki er heimilt að varðveita verðbréf í eigu viðskiptamanna sinna á safnreikningi (safnskráning), enda hafi fyrirtækið gert viðskiptamanni grein fyrir réttaráhrifum þess og hann veitt samþykki sitt. Verðbréfafyrirtæki ber að halda skrá yfir eignarhlut hvers viðskiptamanns fyrir sig.
                  Komi til þess að bú verðbréfafyrirtækis sé tekið til gjaldþrotaskipta eða farið sé fram á greiðslustöðvun, slit fyrirtækisins eða sambærilegar ráðstafanir getur viðskiptamaður á grundvelli skrárinnar skv. 5. mgr. tekið verðbréf sín út af safnreikningi, enda sé ekki ágreiningur um eignarhald viðskiptamannsins.
                  Ráðherra getur sett reglugerð um safnskráningu, m.a. um sviptingu heimildar til að skrá verðbréf á safnreikning skv. 5. mgr. og auðkenningu safnreiknings, þar á meðal upplýsingar um fjölda eigenda á safnreikningi.

Breyting á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.
3. gr.

    1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
    Á reikning í verðbréfamiðstöð skal eignarskrá rafbréf reikningseiganda. Á hvern reikning skal skrá reikningsstofnun eða reikningsstofnanir sem hafa heimild til eignarskráningar á reikninginn. Reikningsstofnun er heimilt að annast safnskráningu á reikning í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Ef reikningur er safnreikningur skal hann auðkenndur sem slíkur. Verðbréfamiðstöð skal gefa út reikningsyfirlit um þau réttindi sem þar eru skráð.

Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995.
4. gr.

    2. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Í hlutaskrá skulu hlutir eða hlutabréf skráð í númeraröð og skal fyrir sérhvern hlut eða hlutabréf tekið fram um nafn eiganda, kennitölu og heimilisfang eða þeirra sem heimild hafa til safnskráningar, ef við á, samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Gildistaka.
5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við meðferð 233. máls á 126. löggjafarþingi, frumvarps til laga um breytingar á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, með síðari breytingum, var athygli efnahags- og viðskiptanefndar vakin á því að einnig væri æskilegt að lögfest væru ákvæði um safnskráningu verðbréfa. Í framhaldi af þeirri umræðu sem átti sér stað um málið ákvað nefndin að flytja sjálfstætt frumvarp þess efnis að unnt væri að safnskrá verðbréf með ákveðnum skilyrðum.
    Frá því að fyrstu lög um verðbréfaviðskipti, lög um verðbréfamiðlun, nr. 27/1986, voru sett, hefur verið kveðið á um það að fjármunir viðskiptamanns séu varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi og verðbréf í hans eigu varðveitt með tryggilegum hætti.
    Í frumvarpinu er lagt til að verðbréfafyrirtækjum verði heimilað að halda utan um eignir viðskiptamanna sinna á eigin reikningi (safnreikningi) og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptamanna sinna frá einstökum útgefendum verðbréfa. Hér er um að ræða atriði sem á ensku hefur verið kallað nominee registration eða omnibus registration.
    Í nágrannalöndunum er verðbréfafyrirtækjum almennt heimilt að varðveita verðbréf viðskiptamanna sinna á safnreikningi, enda fylgir því mikið hagræði. Á það sérstaklega við þegar fjárfest er yfir landamæri. Heimildin hefur einnig mikla þýðingu fyrir það að unnt sé að skrá erlend verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi. En þá er nauðsynlegt að fjármálafyrirtæki hér á landi geti tekið að sér að halda utan um eignarhald verðbréfa hérlendra fjárfesta og samskiptin við hlutaskrá útgefanda verðbréfanna.
    Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að eignarhlutur viðskiptamanna verði ekki skráður á safnreikning nema að fengnu samþykki viðskiptamanns. Mikilvægt er að viðskiptamönnum sé gerð grein fyrir því að í safnskráningunni felst ákveðin hætta á að réttindi viðskiptamanns tapist, t.d. í tengslum við gjaldþrot fyrirtækis í verðbréfaþjónustu. Hættan er sú að verðbréf viðskiptamanna verði ósundurgreinanleg frá verðbréfum fyrirtækis í verðbréfaþjónustu.
    Frumvarpinu er ekki ætlað að leiða til þess að upplýsingar um eigendur verðbréfa verði óaðgengilegar, enda er sú skylda lögð á fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að halda skrá yfir eignarhlut hvers viðskiptamanns fyrir sig.
    Í 31. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995, segir að sá er eignast hefur hlut geti ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutunum. Þetta á þó ekki við um rétt til arðs eða annarrar greiðslu og rétt til nýrra hluta við hækkun hlutafjár. Samkvæmt ákvæðinu nýtur hluthafi því ekki atkvæðisréttar á hluthafafundum nema nafn hans sé skráð í hlutaskrá. Hið sama gildir um verðbréfafyrirtæki sem skráð er fyrir safnreikningnum þar sem hluthafi hefur ekki þau réttindi að geta veitt einhverjum umboð til að fara með atkvæðisréttinn. Safnreikningum fylgir því ekki atkvæðisréttur á hluthafafundum. Ætla má að þeir hluthafar sem fyrst og fremst munu óska eftir því að vera skráðir með þessum hætti séu smáir hluthafar sem hafa hvorki áhuga né möguleika á því að hafa áhrif á ákvarðanir hlutafélagsins. Þessir aðilar greiða fyrst og fremst atkvæði „með fótunum“, en með því er átt við að þeir selji bréfin sín ef stjórnendur félagsins standa sig ekki að þeirra mati. Þeir hafa hins vegar hvorki forsendur né aðstöðu til að hafa áhrif á stjórnun félagsins með öðrum hætti.
    Safnskráning gefur skýrt til kynna um hvers konar hóp fjárfesta er að ræða og er því að mörgu leyti meira lýsandi er þegar verið er að nafnskrá hvern einasta fjárfesti. Þessi skráning felur í sér verulega einföldun, auðveldar afstemmingar og kemur í veg fyrir tvíverknað við skráningu. Hluthöfum í félögum hefur farið mjög fjölgandi auk þess sem eignarhald á hlutum er styttra en áður og því erfitt að halda utan um hlutaskrár.
    Safnskráning breytir í engu gildi flöggunarreglna laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998. Eignarhlutur viðskiptamanns á safnreikningi skal talinn með þegar meta þarf hvort viðkomandi sé flöggunarskyldur. Í raun koma flöggunarreglurnar í veg fyrir að unnt sé að nýta sér safnskráningu til þess að ná fram ráðandi stöðu. Samkvæmt flöggunarreglum þarf að tilkynna opinberlega þegar náð er, farið yfir eða niður fyrir ákveðin mörk og eru fyrstu flöggunarmörkin miðuð við 5%. Þegar haft er í huga að hér á landi er tiltölulega lítil dreifing á hlutafé í félögum skiptir 5% eignarhlutur yfirleitt litlu máli í þeim skilningi að með honum náist fram ráðandi staða í félaginu.