Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 627  —  308. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur um óðalsjarðir.

     1.      Hve margar óðalsjarðir eru hér á landi, sundurliðað eftir sýslum?
    Heildarfjöldi óðalsjarða á Íslandi er 102 eftir því sem næst verður komist. Nefnd sem unnið hefur að endurskoðun jarðalaga óskaði árið 1998 eftir upplýsingum um fjölda óðalsjarða í hverri sýslu frá öllum sýslumannsembættum landsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust frá sýslumannsembættunum voru óðalsjarðir þá 107 og skiptust svo eftir umdæmum sýslumanna:

Reykjavík
10
Snæfellsnessýsla
4
Barðastrandarsýsla
5
Ísafjarðarsýslur
1
Strandasýsla
3
Húnavatnssýslur
5
Skagafjarðarsýsla
12
Eyjafjarðarsýsla
12
Suður-Þingeyjarsýsla
25
Norður-Múlasýsla
4
Suður-Múlasýsla
9
Rangárvallasýsla
1
Árnessýsla
16
Samtals
     107

    Eftir að framangreindar upplýsingar bárust frá sýslumannsembættunum hafa níu óðalsjarðir verið leystar úr óðalsböndum, þrjár í Eyjafjarðarsýslu, ein í Þingeyjarsýslu, ein í Norður-Múlasýslu og fjórar í Árnessýslu. Fjórar nýjar óðalsjarðir hafa einnig orðið til eftir þann tíma þegar eldri óðalsjörðum hefur verið skipt í ný óðalsbýli í samræmi við ákvæði jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Samtals eru óðalsjarðir á Íslandi samkvæmt framangreindum upplýsingum 102.

     2.      Hvaða kvaðir hvíla á óðalsjörðum?
    Eftirtaldar kvaðir hvíla á óðalsjörðum:
     1.      Óðalsjörð erfist ekki með venjulegum hætti samkvæmt ákvæðum erfðalaga, nr. 8/1962, heldur gengur hún óskipt ásamt fylgifé til eftirgreindra aðila í þessari röð, ef óðalseigandi hefur ekki gert aðrar ráðstafanir:
                  a.      Til þess hjóna sem lengur lifir og heldur það réttinum á meðan það lifir.
                  b.      Til barna þess hjónanna sem óðalsréttinn stofnaði eða erfði. Á sama hátt fá kjörbörn óðalsrétt.
                  c.      Til barnabarna óðalsbónda, systkina hans og barna þeirra.
             Ef óðalsbóndi á enga ættingja samkvæmt a–c-lið er óðalsbónda og konu hans heimilt að gefa óðalið enda verði það ættaróðal þiggjanda. Ef óðalseigandi deyr barnlaus eiga næstu erfingjar rétt á að taka við óðalinu.
     2.      Óðalserfingi sem tekur við ættaróðali greiðir fyrir það fjárhæð sem svarar hálfu fasteignamatsverði til óðalseiganda eða erfingja hans. Frá þeirri greiðslu ber að draga áhvílandi veðskuldir sem óðalserfingi tekur að sér. Við ákvörðun á búshluta maka óðalseiganda og erfðahlutum erfingja ber að meta óðal á því verði sem viðtakanda þess er gert að gjalda fyrir það.
     3.      Óðalsbóndi getur ekki selt óðalsjörð eða ráðstafað henni nema til viðtakandi óðalserfingja samkvæmt ákvæðum VII. kafla jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Ekki getur óðalsbóndi heldur selt eða ráðstafað með öðrum hætti hluta óðalsjarðar, m.a. getur óðalsbóndi ekki selt greiðslumark frá óðalsjörð.
     4.      Heimildir óðalsbónda til að veðsetja óðalsjörð eru mjög takmarkaðar og er honum einungis heimilt að veðsetja óðalsjörð fyrir lánum sem tekin eru hjá Lánasjóði landbúnaðarins, Lífeyrissjóði bænda og Orkusjóði vegna þeirra framkvæmda sem þessar stofnanir lána til.
     5.      Óheimilt er að gera fjárnám í óðalsjörð eða fylgifé hennar fyrir öðrum skuldum en áhvílandi veðskuldum frá Lánasjóði landbúnaðarins, Lífeyrissjóði bænda og Orkusjóði, svo og fyrir opinberum gjöldum.
     6.      Ef skipta á óðalsjörð þurfa ný býli sem þannig stofnast að uppfylla þau skilyrði sem óðalsjarðir þurfa að uppfylla og fram koma í 47. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, þ.e. að hvert býli geti framfært a.m.k. meðalfjölskyldu að mati jarðanefndar viðkomandi sýslu og Bændasamtaka Íslands, fyrir liggi samþykki barna óðalseiganda 18 ára og eldri og ekki hvíli aðrar skuldir á býlunum en tilgreindar eru í 5. lið hér að framan.
     7.      Skylt er þeim sem tekur við óðalsjörð að lofa fráfarandi óðalsbónda og konu hans að dveljast á óðalsjörðinni meðan þau kjósa.
     8.      Óðalsjörð kemur ekki til skipta milli hjóna við skilnað eins og aðrar eignir þeirra í samræmi við ákvæði hjúskaparlaga, nr. 31/1993, en það hjónanna sem erfði óðalið heldur því óskiptu eftir skilnað.
     9.      Enginn óðalseigandi getur átt nema eitt ættaróðal. Ef maður erfir fleiri en eitt ættaróðal verður hann að velja milli þeirra.
     10.      Óðalsbóndi fyrirgerir óðalsrétti sínum ef hann:
                  a.      greiðir ekki samningsbundna vexti og afborganir af þeim skuldum sem á ættaróðalinu hvíla, svo að það leiði til sölu sem hann getur ekki afstýrt,
                  b.      tekur sér heimili annars staðar en á ættaróðalinu eða hættir að reka þar búskap,
                  c.      ef hann situr óðalið svo illa að það mundi varða útbyggingu eftir ábúðarlögum.
     11.      Óðalsréttarhugtakið hefur verið skilgreint svo að óðalsjörð verði ekki eign óðalserfingja heldur sé hann einungis vörslumaður ættaróðalsins. Í áliti nefndar sem samdi frumvarp það sem varð að lögum nr. 63/1962, um breyting á lögum nr. 116/1943, um ættaróðul og erfðaábúð, segir m.a.: „Það sjónarmið liggur til grundvallar óðalsréttarhugtaki laganna, að jörðin verði ekki einkaeign einstaks aðila, heldur sjálfseignarstofnun í ævarandi umráðum þeirrar ættar, er óðalsréttinn hefur að lögum.“

     3.      Hvernig eru óðalsjarðir skattlagðar?
    Samkvæmt 54. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, greiðist enginn erfðafjárskattur af ráðstöfun ættaróðals til óðalserfingja.
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá embætti ríkisskattstjóra eru engin sérákvæði í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um að tekjuskattur greiðist af ráðstöfun ættaróðals til óðalserfingja eða þegar ættaróðul eru leyst úr óðalsböndum.
    Ættaróðal og fylgifé þess ber að telja fram á skattframtali viðtakanda óðalsins og myndar það stofn til útreiknings eignarskatts samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

     4.      Hve margar óðalsjarðir hafa verið leystar undan óðalsákvæðum jarðalaga, sundurliðað eftir sýslum?
    Frá árinu 1976 þegar jarðalög, nr. 65/1976, tóku gildi hafa 52 óðalsjarðir verið leystar undan ákvæðum jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Þessar jarðir sundurliðast svo eftir sýslum:

Gullbringusýsla
2
Kjósarsýsla
2
Mýrasýsla
1
Snæfellsnessýsla
3
Vestur-Ísafjarðarsýsla
1
Eyjafjarðarsýsla
5
Skagafjarðarsýsla
8
Norður-Þingeyjarsýsla
2
Suður-Þingeyjarsýsla
12
Norður-Múlasýsla
3
Suður-Múlasýsla
2
Rangárvallasýsla
2
Árnessýsla
9
Samtals
52