Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 630  —  380. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Gísli S. Einarsson, Hjálmar Árnason,


Katrín Fjeldsted, Sverrir Hermannsson.



1. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
     f.      Skylt er þeim sem reka söfnunarkassa að koma fyrir á áberandi stað á kössunum viðvörun um þær hættur sem geta stafað af fjárhættuspilum.
     g.      Skylt er þeim sem reka söfnunarkassa að standa straum af kostnaði við neyðar- og ráðgjafarþjónustu fyrir þá sem haldnir eru spilafíkn og skal vakin athygli á þeirri þjónustu með áberandi hætti á kössunum sjálfum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994, en gerð er tillaga um samhljóða breytingu á þeim lögum.
    Undanfarin ár hafa þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum reynt að leggja því lið að tekið verði á vandamálum sem tengjast spilakössum og happdrættisvélum, m.a. með því að leggja til að bannað verði að starfrækja tæki af því tagi. Enn sem komið er hefur ekki náðst samstaða um slíka aðgerð. Hins vegar bíður meðferðar þingsins tillaga til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að leita leiða til að stemma stigu við útbreiðslu spilafíknar. Þeir þingmenn allra stjórnmálaflokka sem hafa sameinast um flutning fyrrgreindra þingmála líta svo á að með því að vinna málunum brautargengi leggi þeir sitt af mörkum við lausn vandamáls sem allt samfélagið stendur frammi fyrir. Með frumvarpi þessu og systurfrumvarpi þess er enn stigið skref sem ætlað er að draga úr þeim hörmungum sem spilafíknin getur leitt yfir einstaklinga og fjölskyldur.
    Nú er svo komið að margir Íslendingar hafa tapað bæði aleigu sinni og annarra, misst vini sína, stofnað hjónaböndum og fjölskyldutengslum í hættu af völdum fíknar sinnar, í örvæntingarfullri von um að rétta af lélega fjárhagsstöðu sína. Nú munu vera tæplega eitt þúsund spilakassar á liðlega 370 stöðum á landinu. Ef við Íslendingar lútum svipuðum lögmálum og nágrannaþjóðir okkar má ætla að um 12 þúsund Íslendingar eigi við sjúklega spilafíkn að stríða. Þessu fólki standa takmörkuð úrræði til boða og ráðgjöf til þeirra sem vilja leita sér hjálpar hefur einnig verið takmörkuð.
    Spilafíkn er sjúkdómur. SÁÁ skilgreinir sjúkdóminn þannig að spilafíkn sé sjúkleg, viðvarandi spilaárátta og síaukin löngun til að spila eða leggja undir eða að spilahegðunin setji í hættu eða eyðileggi stöðu einstaklingsins, félagslega og fjárhagslega, hvort sem er á heimili eða vinnustað. Ef við horfumst í augu við þá staðreynd að álíka margir Íslendingar eru haldnir þessum sjúkdómi og gengur og gerist með öðrum þjóðum stöndum við frammi fyrir alvarlegu þjóðfélagsmeini sem ekki er síður mikilvægt að þjóðfélagið taki sameiginlega á en t.d. umferðarslysum og afleiðingum þeirra.
    Eins og fyrr segir eru úrræði fá fyrir þá sem ánetjast hafa spilafíkninni. Hins vegar eru þekktar ýmsar leiðir bæði til forvarna og til að aðstoða þá sem gera sér grein fyrir þessum sjúkdómi sjálfs sín eða annarra. Fram hefur komið, m.a. hjá erlendum fyrirlesara sem Áhugahópur gegn spilafíkn fékk til landsins nýverið, að erlendis hefur gefist vel að starfrækja símalínur sem veita þeim sem eftir leita ráðgjöf og stuðning til að ná tökum á fíkn sinni og veita einnig leiðsögn fjölskyldu, vinum og vandamönnum sjúklinga sem fíkninni eru haldnir. Símalínur þessar eru starfræktar með svipuðu sniði og þekkist hérlendis, t.d. í tengslum við ráðgjafarstarf Kvennaathvarfsins, Vinalínuna o.fl.
    Verði frumvarp þetta að lögum má ætla að stigið verði mikilvægt skref í átt til þess að efla ráðgjöf fyrir þá sem eiga við þá ógæfu að etja sem spilafíknin er. Í fyrsta lagi er lagt til að Háskóla Íslands, sem með lögum nr. 13/1973 er heimilað að reka happdrættisvélar og spilakassa, verði gert skylt að koma fyrir á áberandi hátt á tækjunum viðvörun um hættuna sem því kann að fylgja að spila í slíkum vélum. Þessu má líkja við ábendingarnar sem komið er fyrir á tóbaksumbúðum þar sem varað er við þeirri hættu sem fylgir tóbaksnotkun en fram hefur komið að slíkar ábendingar hafa gefið góða raun.
    Í öðru lagi er lagt til að Háskóla Íslands verði gert skylt að standa straum af kostnaði við neyðar- og ráðgjafarþjónustu fyrir þá sem haldnir eru spilafíkn. Jafnframt felur frumvarpið í sér skyldu til að vekja athygli á rágjafarþjónustunni með áberandi hætti á kössunum sjálfum.
    Eins og getið er í upphafi þessarar greinargerðar er samhliða þessu frumvarpi lögð til samhljóða breyting á lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994. Með þessum tveimur frumvörpum eru því gerðar sömu kröfur til allra sem heimild hafa til að reka söfnunarkassa og spilavélar.