Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 631  —  381. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Gísli S. Einarsson, Hjálmar Árnason,


Katrín Fjeldsted, Sverrir Hermannsson.



1. gr.


    Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Skylt er þeim sem reka söfnunarkassa að koma fyrir á áberandi stað á kössunum viðvörun um þær hættur sem geta stafað af fjárhættuspilum.
    Skylt er þeim sem reka söfnunarkassa að standa straum af kostnaði við neyðar- og ráðgjafarþjónustu fyrir þá sem haldnir eru spilafíkn og skal vakin athygli á þeirri þjónustu með áberandi hætti á kössunum sjálfum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, en gerð er tillaga um samhljóða breytingu á þeim lögum.
    Með frumvarpinu er Íslenskum söfnunarkössum (ÍSK), félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, sem hafa samkvæmt lögum nr. 73/1994 leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum, ætlað að koma fyrir á öllum kössum ábendingum um þær hættur sem stafað geta af fjárhættuspilum. Jafnframt er áðurnefndum aðilum gert að standa straum af kostnaði við neyðar- og ráðgjafarþjónustu fyrir þá sem haldnir eru spilafíkn og vekja athygli á þeirri þjónustu á kössunum sjálfum.
    Hvað varðar rökstuðning fyrir þessum tillögum til lagabreytinga er vísað til greinargerðar með áðurnefndu systurfrumvarpi sem gerir sömu kröfu til Háskóla Íslands enda hefur háskólinn einnig heimild til að reka happdrættisvélar með peningavinningum.