Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 632  —  382. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um útvarps- og sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi.

Flm.: Hjálmar Jónsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Jón Bjarnason, Guðjón Guðmundsson, Einar Már Sigurðarson, Einar Oddur Kristjánsson,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristján L. Möller, Drífa Hjartardóttir, Gísli S. Einarsson,
Guðjón A. Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram athugun á uppbyggingu dreifikerfis sjónvarps og útvarps sem nýtir innviði fjarskiptakerfa í landinu þannig að öll íslensk heimili geti nýtt sér dagskrár útvarps- og sjónvarpsstöðva. Könnun þessari verði lokið á árinu 2001 og í framhaldi hennar verði tímasett áætlun um framkvæmdir.

Greinargerð.


    Á síðasta þingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar, þskj. 295, 242. mál, sem fjallaði um uppbyggingu dreifikerfis Sjónvarpsins þannig að öll heimili á Íslandi gætu nýtt sér dagskrá þess. Í greinargerð sem fylgdi tillögunni kom fram að 77 heimili í landinu ná ekki útsendingum Sjónvarpsins. Gekk tillagan út á það að endurnýja dreifikerfi Sjónvarpsins eða leita annarra lausna til að bæta útsendingar- og móttökuskilyrði. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um að leita annarra lausna.
    Unnið er að áætlun um ISDN-væðingu sveitabæja. Þar með er lagður grunnur að stafrænum flutningi til símnotenda alls staðar í landinu. Þennan grunn er unnt að nota til að flytja sjónvarps- og útvarpsefni frá dagskrárveitu til notenda ef fjarlægð frá stofnveitu fjarskiptakerfisins er innan hæfilegra marka. Dagskrárveita getur verið með efni frá Sjónvarpinu, Stöð 2, Skjá einum o.fl. og notandanum í sjálfsvald sett hvaða efni hann kýs að nýta sér auk þess að hafa kost á almennri internet-þjónustu.
    Búnaður fyrir þjónustu af þessu tagi er í örri þróun og því sjálfsagt og eðlilegt að láta fara fram athugun á þeim tæknilegu möguleikum sem nú eru í boði og hvernig þeir geta nýst, sérstaklega þeim heimilum í landinu sem ekki ná útsendingum ljósvakamiðlanna vegna lélegra móttökuskilyrða. Víða um land bæði í dreifbýli og þéttbýli þarf að bæta móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps því að víða eru þau slök þótt þau teljist viðunandi samkvæmt viðmiðunarreglum.